21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (2188)

174. mál, fræðslustofnun launþega

Flm. (Eggert Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það virðist aðallega standa í vegi fyrir því að fá meðmæli hæstv. félmrh. með þessu frv., að við flm. höfum ætlazt til þess að 1 af 5 stjórnarmeðlimum skyldi vera tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Hins vegar er það till. okkar í frv., að 3 af 5 stjórnarmönnum séu tilnefndir af miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Þegar svo á sama tíma á að segja hv. þd., að verið sé að drepa á dreif þeim kröftum, sem þessi stofnun gæti lagt fram til verkalýðssamtakanna, þá fæ ég ekki skilið slíkan málflutning.

Ég sé ekki annað, en það sé á valdi þess meiri hluta, sem í stjórninni er, að ákveða, hvaða kröfum sé sinnt á hverjum tíma, og ég treysti þremur mönnum tilnefndum af miðstjórn Alþýðusambands Íslands til að sjá svo um, að hlutur verkalýðshreyfingarinnar, sem félagsbundinn er í Alþýðusambandi Íslands, sé ekki fyrir borð borinn. Ég treysti þeim til þess. Það, sem er aðalljóðurinn á því að hafa starfsmannafélög opinberra starfsmanna þarna með eða Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, að áliti hæstvirts ráðherra, á að vera, að þeir hafi ekki nema sjö trúnaðarmenn, þeirra miðstjórn sé hér í Reykjavík. Ég veit þó, að félagsmálaráðherra veit betur. Hann veit, að það eru starfsmannafélög í hverjum einasta bæ á landinu, þar sem nokkuð er til af opinberum starfsmönnum, og munu þeir fáir, sem eru án þeirra, svo að það er um fleiri trúnaðarmenn en það að ræða, auk þess sem þeir munu eiga trúnaðarmenn á sínum vinnustöðum líkt og Alþýðusambandið, þó að þeir hafi þá sérstöðu, sem er rétt og hann benti réttilega á, að þeir eru á margan hátt lögverndaðir umfram það, sem verkalýðshreyfingin hefur af slíkum hlunnindalögum að segja, og þeim eru takmörk sett í sínum samtökum með þessum lögum. En ekki sízt vegna þeirra takmarkana, sem þar eru, væri þörf á því, að þeir hefðu betri og skipulagðari samtök, en þeir þó hafa, og ætti verkalýðshreyfingin sízt að setja fæturna fyrir þá fræðslu, sem gæti hjálpað í þeim efnum.

Félmrh. tekur einnig fram, að hann telji, að þáltill., sem flutt var á síðasta þingi og endurflutt nú, — og harmar það mjög, — verði þessu máli til tafar og það séu ekki beinar efndir á þeim ríkisstjórnarloforðum, sem gefin voru á sínum tíma.

Ég verð nú að segja, að það er ekki svo langt síðan, að frv. kom fram um félagsmálaskóla verkalýðssamtakanna, eða nánast um það bil viku á undan þessu frv. hér, tæpri viku þó, en miðstjórn Alþýðusambandsins vannst þó tími til þess að senda það frv. öllum verkalýðsfélögum til athugunar, og ég efast ekki um, að þetta frv. okkar hv. þm. Ak. fái sömu hlýju meðferðina hjá sambandsstjórn og hún gefi verkalýðsfélögunum kost á að ræða það mál sín í milli, ef ekki verður hægt að komast að samkomulagi á þessu þingi.

Ég sé ekki, að þessir 8 dagar, sem hafa liðið á milli útbýtingar þessa frv. okkar hv. þm. Ak. og hv. þm. Alþýðubandalagsins hér, eigi að ríða baggamuninn um, hvort þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi. Það er heldur léttvæg afsökun.

Á öllum þeim tíma, síðan ríkisstj. tók þetta loforð upp, hefði átt að vinnast tími til þess eða a. m. k. verið hægt að nota þann tíma til þess að koma á skipulögðum viðræðum milli þeirra, sem misjafnar skoðanir hefðu um þau mál, og verið hægt að koma fram frv. um það efni, ef samkomulag hefði verið um það í ríkisstj., en mér er ekki kunnugt um, að þessi mál hafi verið sérstaklega rædd þar.

Það verður þess vegna ekki með neinum rökum, neinum sönnum rökum, sett á kostnað þáltill. þeirrar, sem við útbýttum í upphafi þessa þings, eða þess frv., sem nú er flutt réttum 6 eða 7 dögum eftir að flutningur hins frv. hefst, — að þessi örskammi tími eigi að verða til þess, að hægt sé að fóðra það á einhvern hátt framan í verkalýðssamtökunum, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Það eru of léttar afsakanir.

Ég vil svo að lokum, þrátt fyrir alla þá harma, sem ég efast ekki um að félmrh. beri út af framgangi þessa máls, vænta þess, að samkomulag geti náðst um þetta mál. Þeir 7 dagar, sem í milli frv. eru eða útbýtingar þeirra hér á þingi, geta aldrei orðið til þess, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi. En ítreka vil ég það, að ég er reiðubúinn fyrir mitt leyti að taka upp viðræður um það, eins og ég hef alltaf tjáð mig um, og reyna að ná samkomulagi um þessa hluti, og til þess skal ekki á mér standa.