29.04.1958
Efri deild: 86. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (2231)

182. mál, listamannalaun

Flm. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt á þskj. 447, er í öllum verulegum greinum samhljóða frv., sem ég flutti fyrir tveim árum, á þinginu 1955–56.

Um langan aldur hefur íslenzka ríkið veitt fjárstyrk, viðurkenningu, til ýmissa sinna beztu listamanna. En það er hvort tveggja, að þessi mál hafa nú um skeið verið of laus í reipum, of mikil óvissa um styrkveitingar frá ári til árs, og hitt, að heildarfjárhæð, sem veitt er til listamanna, hefur farið hlutfallslega lækkandi hina síðustu áratugi.

Með þessu frv. er ætlunin að reyna að ráða bót á hvoru tveggja. Í fyrsta lagi að fá meiri festu, en nú hefur verið um hríð í úthlutun listamannalauna. Nú er það svo, að það er háð fjárlagaákvæði á hverju ári, hver er heildarupphæð þessara listamannastyrkja, og enn fremur, hver aðili úthlutar þessum styrkjum.

Fyrir allmörgum árum hafði þó sú skipan verið upp tekin af Alþingi að taka hina viðurkenndustu listamenn þjóðarinnar inn á 18. gr., og var almennt farið að líta á það sem nokkurt öryggi um, að listamennirnir nytu slíks styrks, ekki aðeins frá ári til árs, heldur áframhaldandi, ef þeir höfðu komizt inn á 18. gr. Það vakti megna óánægju hjá íslenzkum listamönnum, þegar sú breyting var á gerð fyrir nokkrum árum, að þessar fjárveitingar voru teknar út af 18. gr.

Með þessu frv. er ætlazt til þess, að tiltekinni tölu viðurkenndra listamanna verði veitt föst listamannalaun. Það er af ásettu ráði tekið hér upp heitið listamannalaun, en ekki styrkur, enda á það ekki að vera hugsunin á bak við viðurkenningu til listamanna, að þar sé um styrk að ræða, heldur laun.

Í 2. gr. er svo gert ráð fyrir, að sex menn séu kjörnir af Alþingi til þess að hljóta hæstu launin, sem eru 20 þús. kr. árslaun auk verðlagsuppbótar samkvæmt vísitölu, eins og greinir í 8. gr. frv. Það er ætlazt til, að þetta verði þeir listamenn, sem beztir þykja og mesta viðurkenningu hafa hlotið hjá þjóðinni. Það er gert ráð fyrir, að sameinað Alþingi ákveði um val þeirra með skriflegri atkvgr. og umræðulaust. Það er þá svipað og þegar fram fer kosning trúnaðarmanna á Alþingi, að þá fer slík kosning fram umræðulaust, enda ástæðulítið og að ýmsu leyti óheppilegt, ef ætti að fara að hafa umræður með öllum þeim ágreiningi og metingi, sem þá kynni vafalaust fram að koma.

Í 3. gr. er svo gert ráð fyrir, að sex listamenn skuli fá 15 þús. kr. árslaun, 12 skuli hljóta 12 þús. kr. árslaun og 12 8 þús. kr. árslaun, allt með verðlagsuppbót samkv. 8. gr. frv., en hins vegar gerir frv. ekki ráð fyrir, að Alþingi kjósi þessa menn, heldur sé það menntmrh., sem ákveði, hverjir þessara launa skuli njóta, en eftir tilnefningu, eins og nánar er greint í 4. gr. Það er gert ráð fyrir, að heimspekideildin sjálf eða fimm menn, sem hún tilnefnir, og menntamálaráð, hvor aðili í sínu lagi, geri till. til ráðh. um það, hverjum skuli veita listamannalaun eftir 3. gr., og ráðh. tekur svo ákvörðunina eftir þessa tilnefningu.

Það er gert ráð fyrir því, að val þessara listamanna og ákvörðun um laun þeirra séu ekki til eins árs í senn, eins og nú er, heldur skuli þessi skipan vera nokkuð varanleg, og því er sett það ákvæði í 6. gr. frv., að veiting listamannalauna skuli fylgja sami réttur og veiting embættis, eftir því sem við getur átt, en þó án aldurshámarks og án eftirlauna til maka, enda greiðist ekki lífeyrissjóðsgjald af listamannalaunum. Enn fremur er gert ráð fyrir, að ráðherra geti svipt mann listamannalaunum, ef hann gerist sekur um afbrot eða mjög vítavert framferði. Þá er einnig gert ráð fyrir, að maður missi listamannalaun, ef þau atvik koma til. sem 7. gr. mælir fyrir um, en það er, ef maður hverfur úr landi, nema það sé til þess að geta stundað list sína betur í íslenzka þágu, og skal þá ráðherra meta það, en einnig ef maður tekur við föstu starfi með árslaunum, sem svara 8. launaflokki opinberra starfsmanna eða meira, að þá megi tilnefna mann til hinna sömu listamannalauna, en þó sé þetta ekki fortakslaust, heldur megi tilnefna hann til sömu listamannalauna eða annarra og veita honum á ný.

Í 5. gr. eru talin fjögur atriði, sem hafa skal til hliðsjónar, þegar meta skal veitingu listamannalauna eftir 3. gr. Það er í fyrsta lagi, hversu arðbær listgreinin er almennt, í öðru lagi, hvort maður gegnir föstu starfi og hversu vel launuðu, í þriðja lagi, hvort maður hafi eftirlaunarétt, og í fjórða lagi, hvort maður hafi verulegar tekjur af eignum eða fjárafla utan sinna listgreina. Það skal tekið fram, að um þessi atriði öll munu listamenn ekki samdóma, en ég skal ekki fara út í frekari rökstuðning á þessu stigi, en tel þó, að í meginatriðum sé það æskilegt, að þessum sjónarmiðum sé fylgt.

Þá er í 9. gr. frv. nýmæli frá því, sem var í hinu fyrra frv. fyrir tveim árum. Það er, að auk hinna föstu listamannalauna, sem ég nú hef lýst, skuli eigi minna en 650 þús. kr. á ári renna til úthlutunar handa þeim listamönnum, sem ekki njóta fastra listamannalauna, og enn fremur, að greiða skuli eins og á listamannalaunin að öðru leyti uppbót eftir vísitölu. Þá er einnig það nýmæli í 9. gr., að fé, sem listamanni er veitt til utanfarar eða sem sérstök viðurkenning fyrir tilgreint listaverk, eitt eða fleiri, skuli vera skattfrjálst.

Það skal tekið fram, að í hópi listamanna hafa löngum verið uppi óskir, eindregnar óskir um það, að listamannalaun séu yfirleitt skattfrjáls. Hér er farin sú millileið, að utanfararstyrkir og verðlaun fyrir tilgreind ákveðin listaverk skuli skattfrjáls, en ekki listamannalaun eða styrkir að öðru leyti.

Það er sem sagt annað meginatriði þessa frv. að skapa meiri festu og öryggi um veitingu listamannalauna, en hitt meginatriði þessa frv. er að hækka nokkuð heildarupphæð þess fjár, sem til þessa er varið. Nú mun það vera 1 millj. og 200 þús. kr., sem renna til listamannastyrkja. Ef borið er saman annars vegar fjárveitingar til listamanna og hins vegar heildarupphæð ýmissa greina fjárlaga eða jafnvel heildarupphæð fjárlaga, þá kemur í ljós, að á tæpum þrem áratugum, eða frá því 1931, hafa fjárveitingar til listamanna farið hlutfallslega mjög lækkandi. Ef t. d. er miðað við 14. og 15. gr. fjárlaga, sem báðar fjalla um menningarmál, og litið á heildarupphæð þessara greina annars vegar og fjárveitingu til listamanna, eins og var á árunum eftir 1931 og nú, þá kemur í ljós, að hér er um verulega lækkun að ræða, þannig að ef hlutföllin væru þau sömu og á þessum árum, sem ég greindi, ættu listamannalaun að nema nú, ekki 1.2 millj. kr., heldur um það bil 5 millj. kr., aðeins til að halda sama hlutfalli.

Með þessu frv. er ekki gengið eins langt og þessi samanburður kynni að benda til, en heildarupphæð listamannalauna samkv. 2., 3. og 9. gr., sbr. 8. gr. um vísitöluuppbótina, mundi nema 2 millj. og 13 þús. kr., í stað þess að nú er það 1 millj. og 200 þús. kr.

Ég vænti þess, að sem fyrst liði að þeirri stund, að Alþingi geti sett löggjöf um listamannalaun, sem skapi meiri festu og öryggi um þessi mál, og að gert sé betur við listamennina, en nú er og verið hefur um langan aldur.

Mér er kunnugt um það, að settar hafa verið í það nefndir að reyna að finna einhverja lausn á þessum málum, býst við, að það séu ein 12 eða 13 ár síðan ein slík stjórnskipuð nefnd var að verki. Hún samdi frv., sem ekki náði fram að ganga. Eins ætla ég, að núv. hæstv. menntmrh. hafi, skömmu eftir að hann tók við embætti sínu, sett til þess menn að undirbúa slíkt, en því miður hefur ekki verið neitt lagt enn fyrir Alþingi í þeim efnum. Ég skal ekki fara út í að öðru leyti þær margvíslegar till., sem uppi hafa verið um skipan þessara mála, en vænti þess, að sú skipan í meginatriðum, sem hér er lagt til, geti öðlazt fylgi hv. alþm. En að sjálfsögðu er ég sem flm. reiðubúinn til allra viðræðna um breytingar og endurbætur á þessu frv.

Þetta frv. er upphaflega samið og flutt fyrir tveim árum að tilhlutan stjórnar Rithöfundafélags Íslands og höfundur þess þáverandi ritari félagsins, Helgi Hjörvar skrifstofustjóri. Eins og ég gat um, eru nokkrar breytingar gerðar á frv. nú fá því, sem áður var, og er 9. gr. aðalnýmælið frá því, sem áður var.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, en legg til, að málinu sé vísað til 2. umr. og menntmn.