27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í D-deild Alþingistíðinda. (2246)

45. mál, flugsamgöngur Vestfjarða

Flm. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Þegar flugvélar voru teknar í þjónustu Íslendinga, má segja, að stigið hafi verið stórt framfaraspor í samgöngumálum þjóðarinnar, Nú er fengin um 20 ára reynsla í notkun þessara samgöngutækja, og leikur það ekki á tveimur tungum, að fáar nýjungar hafa náð slíkum vinsældum. Jafnvel gamalt fólk og vanheilt tekur flugvél fram yfir önnur samgöngutæki.

En byggðir landsins eru mjög misjafnlega settar frá náttúrunnar hendi til að geta notfært sér þessi ágætu farartæki. Eins og bifreiðar þurfa vegi og skip þurfa hafnir, þurfa flugvélar að sjálfsögðu flugvelli. Aðstaða til flugvallagerðar getur verið svo góð, að aðeins þurfi að slétta láréttan mel með jarðýtu, svo að fáist viðunandi flugbraut, sem kostar aðeins nokkur þúsund krónur. Í annarri byggð getur aðstaðan verið svo erfið, að jafnstór flugbraut kosti margar millj. kr. eða útilokað sé að koma henni þar við.

Á fyrstu árum innanlandsflugs hér á landi voru fyrst og fremst notaðar sjóflugvélar vegna skorts á flugvöllum, þ.e. flugvélar, sem gátu lent á sjó eða vatni, þótt útbúnað hefðu þær einnig til að lenda á flugvelli. En með fjölgun flugvalla hurfu sjóflugvélar smátt og smátt úr þessum samgöngum, og nú er svo komið, að aðeins tvær sjóflugvélar eru í notkun og halda uppi ferðum til Vestfjarða og Siglufjarðar. Vestfirðir eru það hérað, sem einna lakast er sett frá náttúrunnar hendi til flugvallagerðar. Þessu veldur að sjálfsögðu hálendi, þröngir firðir, brattar fjallshlíðar og lítið eða ekkert undirlendi. Af þessum ástæðum er það, að enn er enginn flugvöllur á öllum Vestfjörðum, sem nothæfur er fyrir þær tegundir landflugvéla, sem hér eru í notkun, og þess vegna eru þessar tvær sjóflugvélar enn í ferðum til þessa héraðs. Viðhald þessara véla, Katalínuflugvéla, er gífurlega dýrt. Sjórinn er mjög skaðlegur málmum, og öll tæki og áhöld fara illa í lendingu og flugtaki á sjó. Þrátt fyrir það að Flugfélag Íslands leggur sig mjög fram um að halda flugvélum sínum vel við, er það staðreynd, að innan tveggja til þriggja ára verður að taka þessar vélar úr notkun, enda eru þær nú orðnar 10 ára gamlar. En jafnframt er vissa fyrir því, að sjóflugvélar verða ekki fengnar í stað þessara af þeirri einföldu ástæðu, að nú eru ekki framleiddar lengur sjóflugvélar, sem nothæfar eru til þessara samgangna. En hvað verður þá um flugsamgöngur við Vestfirði?

Í því efni er ekki um annað að ræða, en búa sig undir það, að landflugvélar verði til þess hafðar, eins og á öðrum flugleiðum hér innanlands. En þá kemur til skortur flugvalla við hæfi Dakotavélanna, sem nú eru hér í notkun. Má fullyrða, að mjög óvíða yrði slíkum flugvelli komið þar við, ef það yrði þá nokkurs staðar unnt, þar sem lengd flugbrauta handa slíkum flugvélum þarf a.m.k. að vera um 1.200 metrar, og sjálfsagt yrði slíkur flugvöllur nokkuð dýr. Óneitanlega væri æskilegt, að slíkur flugvöllur gæti komið í nágrenni Ísafjarðar, svo að Dakotavélar þær, sem eru hér í notkun í innanlandsflugi, gætu tekið upp flugleið þangað. En ekki er séð fyrir öllum Vestfjörðum með því. Á einhvern hátt verður að leysa vandann í öðrum byggðum Vestfjarða, því að ekki þarf að búast við því, að mörgum stórum og dýrum flugvöllum verði komið upp í þeim landshluta.

Nú vill svo til, að farið er að framleiða í Bretlandi nýja tegund flugvéla, sem hefur hæfileika til flugtaks og lendingar á mjög stuttri flugbraut. Þessi flugvélategund nefnist Prestwich Twin Pioneer og er tveggja hreyfla. Verð hennar með nauðsynlegum varahlutum mun vera um 3 millj. kr. Ekki er fengin full reynsla um þessa flugvél, en þó er hún þegar komin í notkun í nokkrum löndum Austur-Asíu. Fjöldi farþega, er flugvél flytur í ferð, fer að sjálfsögðu eftir lengd flugleiða, hleðslu brennsluefnis og fleira, en þar eystra flytur hún 12–16 farþega í ferð og allt upp í 20. Höfuðkostur þessarar vélar er sá, hversu stuttar flugbrautir hún þarf. Hefur bygging hennar verið sérstaklega við þetta miðuð. Er talið, að lengd flugbrautar fyrir þessa vél þurfi ekki að vera meir en 400–500 metrar eða jafnvel minna.

Sjúkraflug hefur verið stundað hér á landi með miklum og ágætum árangri. Björn Pálsson flugmaður er landskunnur fyrir sjúkraflug og hefur bjargað mörgum mannslífum með snilli sinni og djörfung. Meðal annars mun sjúkraflug hans til Grænlands vera mörgum minnisstætt. Fólk um land allt leggur kapp á að koma upp litlum flugbrautum, til þess að það geti notið þessara flugsamgangna, þegar slys eða sjúkdóma ber að höndum. En auk þess hefur Björn Pálsson farið fjölda ferða til venjulegra fólksflutninga. Þessar stuttu og tiltölulega ódýru flugbrautir hafa gert ótrúlega mikið gagn í strjálbýlinu víða um land. Á Vestfjörðum eru þessir litlu flugvellir komnir á 18 stöðum með samtals 26 flugbrautum, Lengd þessara flugbrauta er þessi: Styttri en 300 m eru þrjár, 300–400 m eru 10, 400–500 m eru fimm, og 500 m eða lengri eru 8. Samkvæmt þessu eru 13 af þessum 26 flugbrautum nógu langar fyrir hina nýju flugvél og 10 af hinum brautunum þyrfti aðeins að lengja um 100–200 m, til þess að þær yrðu einnig fullnægjandi.

Fyrst svo er ástatt, að notkun sjóflugvéla er að hverfa úr sögunni, sýnist mér full nauðsyn á því, að nú þegar verði hafizt handa um að rannsaka, á hvern hátt flugsamgöngum við Vestfirði verði fyrir komið á hagkvæman hátt. Ef svo vel tækist, að hin nýja gerð flugvéla, sem ég hef nefnt, reyndist vel við íslenzka staðhætti og veðurfar, gæti það orðið mikill fengur fyrir flugsamgöngur Vestfjarða og jafnvel flugsamgöngur annarra landshluta. Þá gæti flug orðið til mikilla hagsbóta fyrir byggðarlög, er engar flugsamgöngur hafa nú. Flugbrautir, sem nú þegar eru til, kæmu að fullum notum með nokkurri stækkun og endurbótum, og gæti þannig sparazt fé í stórum og dýrum flugvöllum. En það, sem mest er um vert, er það, að flugsamgöngur yrðu að miklu almennari notum.

Til eru þau héruð í landinu, sem kalla má að séu innilokuð að vetri til. Ég vil nefna Austur-Barðastrandarsýslu. Margar sveitir einangrast þar vegna ísalaga á norðanverðum Breiðafirði, og um vegasamband er ekki að ræða þarna, eftir að snjó leggur á fjöll. Flugsamgöngur við þessar sveitir væru alveg ómetanlegar að vetri til, og trúlegt þykir mér, að líkt sé ástatt um fleiri byggðarlög í landinu.

En nýrri skipan flugsamgangnanna við Vestfirði verður ekki á komið sama daginn og sjóflugvélarnar detta úr sögunni. Stærð, gerð og staðsetning flugvalla verður að vera í samræmi við það, hvers konar flugvélar er ráðgert að nota, hversu mikil flutningaþörfin er í hverri byggð og hvernig rekstur flugvélanna geti orðið sem hagkvæmastur. Þetta tekur sinn tíma, og því má ekki seinna vera að hefja undirbúning í þessu máli. Með tillögu þeirri til þál. á þskj. 72, sem ég flyt ásamt hv. þm. V-Ísf., er lagt til, að hæstv. ríkisstj. láti fara fram hið fyrsta rannsókn á því, er þetta mál snertir.

Ég legg til, að þessari umræðu verði frestað nú, en málinu verði síðan vísað til hv. allshn.