05.02.1958
Sameinað þing: 25. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í D-deild Alþingistíðinda. (2249)

45. mál, flugsamgöngur Vestfjarða

Frsm. (Eiríkur Þorsteinsson):

Herra forseti. Þáltill. á þskj. 72 hefur hlotið meðmæli allshn. Hér er um að ræða athugun á flugskilyrðum fyrir Vestfirði, en sá landshluti hefur átt við einna erfiðastar og einhæfastar samgöngur að búa.

Tækni nútímans á öllum sviðum hefur á nokkrum árum breytt öllum kröfum þjóðarinnar, hvar sem er á landinu, til meiri og betri fyrirgreiðslu, til aukinna þæginda og til þess að geta notað tímann meira, en áður fyrir sig.

Flugsamgöngur eru einn merkasti þáttur í hraðatækni fyrir ferðalög um heim allan. Þær hafa gert veröldina litla. Nú keppir flugvélin við hraða hljóðsins, og hugur einstaklingsins hrekkur varla til að fylgja þeim líkama, sem berst á vængjum hinnar hraðfleygu flugvélar.

Flugsamgöngur eru nú orðnar svo vinsæll og sjálfsagður snar þáttur í lífi íslenzku þjóðarinnar, að enginn getur án þeirra verið. Það er því nauðsyn, sem knýr á dyr, að sinna þeim landshlutum, gera þá betur úr garði, en nú er, sem ekki eru búnir að fá nauðsynlega aðstöðu til að geta tekið á móti flugvélum eins og þeim, sem í náinni framtið koma til með að annast flug til afskekktra byggða landsins. Allar stærri byggðir hafa nú fengið sæmilega flugvelli, svo að landflugvélar halda uppi samgöngum þangað. Á vestanverðum Vestfjörðum er enginn flugvöllur stærri en svo, að sjúkraflugvél Björns Pálssonar geti lent þar. Það er því áhyggjuefni Vestfirðinga, að flugvellir leggist niður, jafnskjótt og sjóflugvélar þær, sem nú eru að enda sitt skeið hér á landi, hætti að fljúga. Eins og alþjóð veit, er Reykjavík miðstöð menningar, verzlunarsamgangna, athafna og fjármála. Allir vegir liggja því um þessa Rómaborg íslenzka lýðveldisins. Fyrir því hlýtur krafa þjóðarinnar, hvar sem er á landinu, að verða sú að hafa greiðar samgöngur við þessa miðstöð menningar og tækni, sem þjóðin hefur orðið einhuga um að byggja upp sem sína höfuðborg. Tækni nútímans líkist á margan hátt hugmyndum þjóðsagnahöfunda fyrri tíma, stærstu möguleikum í hugmyndaheimi þeirra. Nú munu margir geta tekið undir með töframanninum, sem sagði: Fljúgðu, klæði, þegar fljótt þarf að skipta um verustað og klífa verður loftið til þess að ná settu takmarki í tíma, en ekki ótíma.

Það er vissulega trú allra Vestfirðinga, að hv, Alþingi veiti þeim lið, bæði í orði og verki, í þessu nauðsynjamáli, svo að þeir megi verða í nauðsynlegu sambandi við höfuðborg sína, jafnt í samgöngum sem öðru. Afskekktum byggðum Íslands verður að sýna fulla vinsemd, þegar um lífæð þeirra er að ræða, Svo verður sóma lands og þjóðar bezt borgið.

Ég þakka að síðustu öllum nefndarmönnum í allshn. fyrir vinsemd við afgreiðslu málsins, um leið og ég leyfi mér að vænta þess af hinu háa Alþingi, að það afgreiði till. eins og hún liggur hér fyrir.