23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2252)

12. mál, brunavarnir

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það hefur vakið mikinn ugg meðal landsmanna undanfarin ár, hversu mörg og mikil tjón hafa orðið á ýmsum atvinnutækjum af völdum elds. Nálega á hverju ári hafa fleiri eða færri fyrirtæki, oftast frystihús, mjölverksmiðjur, netjaverkstæði eða bifreiðaverkstæði, skemmzt í eldi. Samkv. upplýsingum, sem ég hef aflað mér, munu íslenzk tryggingarfélög s.l. ár hafa greitt fyrir brunatjón um 17 millj. kr., og á þessu ári eru allar líkur á að þessi upphæð verði verulega hærri. Byggist sú áætlun á því, að nú þegar hafa orðið fjórir stórbrunar, á frystihúsum í Tálknafirði, á Akranesi og í Keflavík og netjaverkstæði á Siglufirði, en þessir fjórir brunar munu einir hafa valdið tjóni, sem nemur milli 10 og 12 millj. kr. Er þá allt annað ótalið.

Ekki þarf að fjölyrða um það, hversu alvarlegt mál það er fyrir þjóðina að missa þessi atvinnutæki. Segja má, að þau séu tryggð og tryggingarnar endurtryggðar erlendis, þannig að við fáum þetta að vísu greitt aftur. En við megum ekki gleyma því, að vegna þess, hve ástand í þessum málum er alvarlegt hér á landi og brunahætta mikil, eru öll tryggingariðgjöld hér á atvinnutækjum töluvert miklu hærri, en þau mundu vera og þyrftu að vera, ef brunavarnir væru í góðu lagi. Þannig verður nálega allt atvinnulíf landsmanna að borga fyrir það, að þessi mál eru í þeim ólestri, sem raun ber vitni.

Í sambandi við bruna er hægt að tala um tvenns konar gagnráðstafanir: Í fyrsta lagi ráðstafanir til þess að fyrirbyggja, að eldurinn brjótist nokkurn tíma út, og í öðru lagi ráðstafanir til þess að slökkva eldinn, eftir að hann hefur brotizt út.

Kunnugir menn hafa tjáð mér, að hér á landi hafi töluverður árangur náðst í því að auka slökkvistarfið og töluvert hafi verið keypt og búið til af tækjum til þess, en hins vegar sé hér nálega ekki neitt gert á hinu sviðinu, til að fyrirbyggja það, að brunar brjótist út í atvinnufyrirtækjum. Þarf raunar ekki annað, en skoða sum þessi mannvirki til að sjá, að þar er ekki um að ræða eldvarnir eða varnir gegn því, að eldur geti brotizt út. Slíkar ráðstafanir blasa við augum, þegar gengið er um svipuð fyrirtæki erlendis. Ég hef t.d. séð margar mjölverksmiðjur hér á landi, þar sem þakið er úr tré og bárujárn yfir, algerlega óvarið að innan, þó að þar sé eldhætta mikil.

Ég skal ekki rekja hér, hvers konar ráðstafanir er hægt að gera til að reyna að fyrirbyggja eldinn, en þær eru margar og margvíslegar. Það, sem er höfuðatriðið fyrir okkur í dag, er að þær munu vera allt of litlar hér á landi.

Tilgangur þessarar þáltill. er að vekja athygli á þessu máli og reyna að fá hæstv. Alþ. til að fela ríkisstj, að láta þegar gera ýtarlega rannsókn á því, á hvern hátt hægt er að auka ráðstafanir í atvinnutækjum gegn því, að eldur komist upp, og til þess að segja til um, hvaða ráðstafana er þörf, hvort setja þarf strangari reglugerðir eða gera á einhvern hátt meiri kröfur til atvinnutækjanna í þessum efnum, en hingað til hefur verið gert. Mér virðist augljóst, að einhverjar ráðstafanir verði að gera, Við verðum að skera niður þessar gífurlegu upphæðir, sem glatast á ári hverju. Við verðum að koma okkar atvinnutækjum þannig fyrir, að tryggingariðgjöld þeirra verði lægri, og spara þeim þannig eins og hægt er útgjaldaliði í þeim efnum.

Ég vil svo að lokum leggja til, að þessari till. verði að lokinni umr. vísað til allshn.