30.10.1957
Sameinað þing: 7. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2261)

9. mál, fjárfestingarþörf opinberra stofnana

Flm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér á þskj. 9 þáltill. um fjárfestingarleyfi til opinberra bygginga. Eins og fram kemur í grg, fyrir ályktuninni, er hún fyrst og fremst flutt í þeim tilgangi að varpa ljósi á þá miklu hulu, sem virðist ríkja um byggingar opinberra stofnana.

Allur almenningur á erfitt með að skilja þá ráðstöfun á fjárfestingarleyfum, sem virzt hefur í því fólgin, að einstakir efnamenn fá úthlutað svo og svo miklum leyfum til fjárfestingarframkvæmda, á sama tíma og forráðamenn hinna opinberu fyrirtækja kvarta sáran yfir þröngum húsakosti eða jafnvel algeru húsnæðisleysi fyrir starfsemi sína. Þegar til þess er hugsað, að nánast allar opinberar stofnanir hér á landi hafa fyrst og fremst á hendi þjónustu á einn eða annan hátt, verður vart komizt hjá, að síþrengdur húsakostur valdi truflunum í starfi þeirra. Hvernig geta þessar stofnanir haldið uppi fullri þjónustu, þegar húsnæðisskorturinn er eins tilfinnanlegur og af er látið, og sífellt er neitað um fjárfestingarleyfi? Svarið er, að allmargar þessar stofnanir eru nú komnar upp á náð hinna lánsömu einstaklinga, er fjárfestingarleyfi hafa hlotið. Á allra vitorði er svo einnig, hvernig leiguverð slíks húsnæðis hefur verið, auk þeirra fyrirframgreiðslna, sem krafizt hefur verið til þess, að sagt er, að standast byggingarkostnað. Af þessu virðist ekki annað sjáanlegt, en opinber fyrirtæki verði annað tveggja að draga úr nauðsynlegri þjónustu eða greiða stórar fjárupphæðir til þeirra einstaklinga, sem sýnilega hafa fengið fjárfestingarleyfi umfram eigin þörf, annars gætu þessir aðilar að sjálfsögðu ekki leigt eða selt afnot af sínum nýbyggðu húsum. Hvers vegna ekki að verja þessu opinbera fé til að byggja yfir þær stofnanir, sem svo er ástatt um, húsnæði, sem væri teiknað og byggt fyrir starfsemi viðkomandi stofnunar?

Það þarf ekki byggingarfróðan mann til að sjá, hvílíkum erfiðleikum það hlýtur að valda fyrir starfsemi hinna ýmsu stofnana að verða að neyðast til að kaupa eða leigja húsnæði, sem e.t.v. var hugsað til allt annarra afnota.

Ég tel ekki þörf á að telja hér upp einstakar stofnanir, sem þurft hafa að sæta slíkum neyðarkostum, nema sérstakt tilefni gefist til þess. Slík upptalning er ekki heldur sérstakt innlegg í þetta mál. Höfuðatriði málsins er að upplýsa, hvernig málum þessum er í raun og sannleika háttað. Að þeirri rannsókn lokinni ætti að vera auðvelt að gera upp við sig, hvort núverandi ástand sé það, sem þjóðhagslega hagkvæmt verður talið, eða hvort þar finnist önnur hagkvæmari leið. Sjálfur er ég ekki í neinum vafa um, að í þessum málum verður betra hjá sjálfum sér að taka og að það opinbera eyði framvegis aflögufæru fé til slíkra hluta, til þess að greiða niður eigið húsnæði, en ekki annarra.

Það má vissulega deila um, hve mikil fjárfesting skuli leyfð frá ári til árs með tilliti til fjárfestingargetu þjóðarinnar. En um það verður vart deilt, að a.m.k. verði opinberir aðilar ekki látnir sitja á hakanum um nauðsynlegt húsnæði fyrir starfsemi sína, meðan efnaðir einstaklingar fá fjárfestingarleyfi umfram eigin þörf.

Í sambandi við lausn þessara mála er rétt að minna á, að það eitt, hve hinar opinberu stofnanir eru nú dreifðar um alla höfuðborgina, veldur almenningi margvíslegum erfiðleikum og tímatöfum og þá ekki hvað sízt fólki utan af landi, sem þarf á fyrirgreiðslu þessara aðila að halda. Það er vissulega kominn tími til þess að auðvelda samskipti þess opinbera við allan almenning, t.d. með því að skipuleggja ákveðinn hluta höfuðborgarinnar sem aðsetur allra opinberra stofnana og spara þannig þær tímatafir tuga manna, sem daglega þurfa til þessara stofnana að leita.

Að svo mæltu vona ég, að till. sú til þál., sem hér um ræðir, þurfi ekki nánari skýringa við. Ég vona, að hv. alþm. geti verið mér sammála um, að þörf sé á þeirri rannsókn, sem till. felur í sér, og að hún nái fram að ganga sem fyrst. Ein umr. hefur verið ákveðin um málið, og óska ég eftir, að umr. um málið verði frestað og því vísað til hv. allshn, og að n, hraði svo störfum, að niðurstöður rannsóknarinnar, sem um ræðir í till., geti legið fyrir yfirstandandi Alþ. sem allra fyrst.