05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í D-deild Alþingistíðinda. (2263)

9. mál, fjárfestingarþörf opinberra stofnana

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umræðu, hljóðar þannig:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta framkvæma rannsókn á fjárfestingarþörf opinberra stofnana til byggingar nauðsynlegs húsnæðis fyrir starfsemi þeirra. Jafnframt sé athugað, hve margar opinberar stofnanir hafi þurft á síðastliðnum tíu árum að kaupa eða leigja nauðsynlegt húsnæði af einstaklingum eða félögum og þá með hvaða kjörum. Niðurstaða rannsóknarinnar verði lögð fyrir Alþingi svo fljótt sem kostur er.“

Allshn. hefur fjallað um þessa till. nokkrum sinnum, og hefur meiri hluti nefndarinnar nú skilað áliti, fellst á samþykkt þessarar till. með einni breytingu. Einn nefndarmaður vildi ekki standa að þessari afgreiðslu, og annar var fjarverandi.

Það hefur komið í ljós á undanförnum árum, að húsnæðismál opinberra stofnana eru vaxandi vandamál. Nokkrar þeirra hafa getað eignazt sæmilegt húsnæði og geta vel unað hag sínum í þeim efnum. Þær munu þó vera miklu fleiri, sem ekki hafa fengið að byggja sjálfar eða ekki getað það, en hafa neyðzt til að taka á leigu dýrt húsnæði af einstaklingum, félögum eða jafnvel af öðrum opinberum stofnunum.

Meiri hluti allshn. er þeirrar skoðunar, að það sé fullkomin ástæða til að rannsaka þetta mál og birta um það skýrslur og verði þá hægt að byggja á þeim skýrslum einhverjar ráðstafanir, ef ástæða þykir til.

Sú breyting, sem við leggjum til að gerð sé, er þess efnis, að í staðinn fyrir orðin að taka á leigu dýrt húsnæði „af einstaklingum eða félögum“ verði orðalagið: „af einstaklingum, félögum eða öðrum opinberum aðilum.“

Ástæðan til þessarar breytingar er sú, að komið hefur fyrir á síðustu árum, meðan fjöldi opinberra stofnana fær ekki leyfi til að byggja, jafnvel þótt þær hafi safnað sér peningum til þess, hefur öðrum opinberum stofnunum verið leyft að byggja helmingi stærra húsnæði, en þær hafa nokkuð við að gera. Það hefur komið í ljós, að ekkert minna gengur á í samningum út af leigu slíks húsnæði milli ríkisstofnana, en á milli ríkisins annars vegar og einstakra aðila. Það er því full ástæða til þess að sleppa ekki þessum tilfellum í þessari rannsókn.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um þessa till., nema tilefni gefist til, en meiri hluti allshn. leggur til, að tillagan verði samþykkt.