26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2299)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get að miklu leyti látið mér nægja þau rök, sem hv. þm. Barð. (SE) færði fyrir máli sínu hér, því að okkar till. eru mjög svipaðs eðils, og sú lína, sem þegar er fyrirhuguð í Dali, er framhald af þeirri línu, sem á að koma frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði og suður um Dali, eftir því sem ástæður leyfa.

En jafnframt því, sem ég undirstrika þetta, vil ég benda á það, að við viljum allir viðhalda byggðum býlum í landinu og skapa fólkinu, sem þar býr, lífsskilyrði, sem jafnast á við þau þægindi, sem borgir eins og Vestmannaeyjar og annað þéttbýll í landi voru hefur nú þegar, því að rafmagnið veitir ekki einungis birtu og yl, heldur skapar það einnig ótal aðra möguleika og þá miklu meiri, en nokkur önnur orka í landi voru hefur gert til þessa.

Þrátt fyrir gífurlegar framfarir á sviði raforkumálanna hér á landi á undanförnum árum, er það nú samt þannig, að það eru æðimargir, sem eru afskiptir þessum miklu þægindum, og það hefur því miður sýnt sig í ýmsum héruðum þessa lands, að unga fólkið, sem ekki nýtur þessara þæginda, flytur sig til ljóssins og ylsins, af því að það eygir ekki raforkuna hjá sér í náinni framtið, enda má segja, að raforkan sé sums staðar þegar orðin það algeng, að það fólk, sem býr við þau þægindi, sem sú orka skapar, finnur ekki lengur fyrir því, að hér sé um nein veruleg þægindi að ræða, frekar en þeir, sem lengst af hafa búið við nægjanlegt og gott neyzluvatn, en tapa því einn góðan veðurdag, þá finna þeir fyrst, hvers virði það er,

En ein af þeim sýslum, sem hafa við mjög óhagstæð skilyrði að búa hvað virkjun innanhéraðs snertir, er Dalasýsla. Frá upphafi hafa ýmsar till. verið ræddar í því sambandi og síðast hefur verið um það rætt, eins og ég gat um áðan, að leiða rafmagnið í Dalina frá Þverárvirkjuninni í Steingrímsfirði, enda er talið, að þar sé nægjanleg orka fyrir hendi.

Ég tel það vera brýna nauðsyn að hraða mjög framkvæmdum, sem veita Dalahéraði rafmagn, því að á meðan fólkið þar eygir ekki rafmagnið, reikar það burt til þeirra staða, sem hafa upp á þau þægindi að bjóða, sem raforkan býður hverjum og einum, og það jafnvel þrátt fyrir það, þótt önnur lífsskilyrði kunni að vera betri og sambærileg við það, sem annars staðar þekkist og þessi þægindi eru fyrir hendi.

Við erum allir á því að viðhalda jafnvægi í byggð landsins og það ekki einungis meðfram ströndum þess, heldur og einnig inn til dala. Ein öruggasta leiðin til, að svo megi verða, er, að fólkið finni ylinn frá þjóðfélaginu streyma til sín í gegnum ljós og yl frá fallvötnum þessa lands, sem að mestu leyti bíða þess, að þau verði leyst úr læðingi.

Ég vænti þess, að sú n., sem fær mál þetta, geri sitt bezta til að stuðla að því, að framkvæmdir á sviði raforkumálanna megi ávallt vera efst á blaði, svo að við megi una, jafnt inn til dala sem út með ströndum, enda er till. þessi flutt til þess að minna á, að svo megi jafnan vera.