16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í D-deild Alþingistíðinda. (2304)

77. mál, rafveitulína frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég get tekið mjög undir þau ummæli, sem hv. þm. N-Þ. hafði hér áðan, að mér þykir hv. fjvn. gera hér mjög upp á milli manna, þar sem hún treystir sér ekki til þess að mæla með öllum þeim till., sem hér liggja fyrir, og finnst mér slíkt ekki bera vott um víðsýni. En það er síður en svo, að við, sem höfum flutt brtt. hérna, séum á nokkurn hátt að spilla fyrir aðaltillögunni, till. um það að hraða lagningu línu frá Hvolsvelli til Vestmannaeyja. Ég geri ráð fyrir, að það mál sem önnur verði jafnan á valdi raforkumálastjórnarinnar, og það út af fyrir sig, þó að okkar till. yrðu samþykktar, mundi ekki neitt spilla fyrir því máli. Og mér finnst, ef hv. þm. sýna sama hug í þessum efnum og hv. fjvn. hefur gert við breytingartillögurnar, að það sanni um of þeirra hug til hinnar dreifðu byggðar víðs vegar á landinu. Og frá þeim sjónarhól séð vænti ég þess, að hv. þm. sjái sér fært að samþykkja þær till., sem hér liggja fyrir og fjvn. hefur ekki séð sér fært að mæla með. Hygg ég, að það mundi verða vel metið og vel þegið af fólki víðs vegar á landinu. En aftur á móti yrðu þær felldar, mundi hið gagnstæða ske, og mundi þá margur, sem í dreifbýlinu býr, fara að hugsa sig um, hvers hann eigi að gjalda afstöðu sinnar vegna. Þess vegna vil ég mælast til þess við hv. þingmenn, að þeir hafi þá víðsýni að samþykkja allar þær brtt., sem hér liggja fyrir, því að slíkt eitt sæmir alþingismönnum.