27.11.1957
Sameinað þing: 15. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

40. mál, efnaiðnaðarverksmiðja í Hveragerði

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Við hv. samþingsmaður minn og ég berum fram till. þá, er hér liggur fyrir á þskj. 60. Tillagan er um efnaiðnaðarverksmiðju í Hveragerði og er svofelld, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstjórnarinnar að láta athuga skilyrði fyrir staðsetningu efnaiðnaðarverksmiðju í Hveragerði.“

Till. þessi var flutt á síðasta þingi, en að því mjög áliðnu, og náði hún ekki að vera tekin til afgreiðslu.

Vatnsorkan og jarðhitinn eru stærstu auðlindir lands okkar. Þar er bundið afl, sem bíður þess að vera leyst úr læðingi. Enn er lítill hluti þessara orkulinda notaður, þótt segja megi, að á síðari árum hafi fleygt fram vatnsvirkjunum í sambandi við rafvæðingu landsins. Jarðhitasvæði eru mörg á landinu, og við rannsóknir á þeim, sem fram hafa farið og verið er að framkvæma, kemur sífellt betur og betur í ljós, hversu miklir möguleikar skapast á sviði efnaiðnaðar og annarra stórframkvæmda, verði jarðhitinn virkjaður og nauðsynlegar verksmiðjur reistar á hitaveitusvæðunum.

Enn sem komið er hafa fáar till. komið fram um staðsetningu efnaiðnaðarverksmiðja, ef reistar yrðu. Við slíkt staðarval þarf að taka til greina, að til staðar sé nógur öruggur jarðhiti, heitt vatn eða gufa, staðurinn sé vel í sveit settur og vinnuafl til iðnaðarframleiðslunnar til staðar.

Hveragerði er sem kunnugt er eitt mesta jarðhitasvæði hér á landi, og hafa farið fram á vegum jarðborunardeildar raforkumálastjórnar ríkisins víðtækar rannsóknir á jarðhitanum þar og í næsta nágrenni. Starfsmenn jarðborunardeildar og rannsóknaráðs ríkisins hafa samið skýrslur um þessar rannsóknir sínar, sem veita mikinn fróðleik um jarðhitann á þessum svæðum. Þá má benda á, að Baldur Líndal verkfræðingur hefur samið ritgerð um þaravinnslu og rannsóknaráð ríkisins gerir ráð fyrir, að til þeirra framkvæmda eða framleiðslu verði reist verksmiðja, og hefur bent á Hveragerði sem stað fyrir hana.

Til fróðleiks um þennan stað er það að segja, að þar eru nú búsettir um 600 manns. Öll íbúðarhús ásamt gróðurhúsum, þar sem framleidd eru árlega verðmæti að söluverði um 2 millj. kr., eru hituð upp með hveravatni eða gufu. Hveragerði hefur byggzt upp á stuttum tíma. Skipulag á notkun jarðhitans var í byrjun ekki svo gott sem skyldi, vegna þess að heildarskipulag á notkun hans var ekki til staðar. Mátti segja, að hver einstaklingur virkjaði jarðhita fyrir sig, en gafst misjafnlega vel. En nú hefur þetta breytzt til batnaðar. Hreppsnefnd staðarins hefur látið vinna að því á undanförnum árum að láta byggja eitt allsherjar hitaveitukerfi fyrir byggðina, íbúðarhús og gróðurhús o.fl. Hitaveita þessi er þegar tekin í notkun, þó að enn vanti mikið á, að hún sé fullgerð.

Það, sem hér hefur verið drepið á með fám orðum, sýnir, að nauðsyn er á að halda áfram rannsóknum á jarðhitasvæðum landsins með það fyrir augum að hagnýta jarðhitann til aukins iðnaðar og annarra stórframkvæmda og að velja verksmiðju, sem til þessa verður að reisa, sem hentugastan stað. Tvímælalaust er Hveragerði einn af þeim stöðum, sem einna fyrst koma til greina í þessu sambandi. Þar er mikill og öruggur jarðhiti, staðurinn er vel í sveit settur, og sú atvinnuaukning, sem af slíkum framkvæmdum mundi leiða, kæmi sér vel fyrir íbúa staðarins, sem eins og sakir standa nú verða að töluverðu leyti að leita atvinnu til annarra staða og þá einkum nú sem stendur til Þorlákshafnar, þar sem þó er um árstíðabundna atvinnu að ræða og því ekki stöðuga.

Það er til þess að vekja athygli á þessum staðreyndum, að till. þessi er flutt, að beiðni hreppsnefndar Hveragerðishrepps, eins og um getur í grg. till. Við flm. væntum, að hv. alþm. taki henni vel. Það hefur verið ákveðin ein umr. um till., og leyfi ég mér að gera það að till. minni, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.