16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 48 í D-deild Alþingistíðinda. (2323)

40. mál, efnaiðnaðarverksmiðja í Hveragerði

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Allshn, sendi þessa till. til umsagnar raforkumálastjóra og iðnaðarmálastofnunar Íslands, og eru álit þeirra birt með nál., en eins og sést á þskj. 359, mælir allshn. með því, að þessi till. verði samþykkt. Till. þessi er þess efnis að láta rannsaka, hvort skilyrði séu fyrir hendi um staðsetningu efnaiðnaðarverksmiðju í Hveragerði.

Eins og kunnugt er, býr land okkar yfir miklum náttúruauðæfum, sem enn þá hefur ekki tekizt að nytja nema að litlu leyti. Vatnsorkan, sem er mesta orkan, sem í landi voru felst, er enn þá hlutfallslega lítið notuð. Sama máli gegnir um hveraorkuna, sem talin er ganga næst vatnsorkunni að magni. Notin af hveraorkunni eru fjölþætt, og vitað er, að hægt er að vinna ýmiss konar efni úr hveravatni, hveragufu og hveraleir, en efni þessi geta orðið undirstaða að fjölþættum efnaiðnaði.

Sem kunnugt er, er Hveragerði eitt mesta jarðhitasvæði Íslands. Það mælir því mjög margt með því, að ríkisstj. láti athuga skilyrðin fyrir staðsetningu efnaiðnaðarverksmiðju þar, og vænti ég þess, að hv. alþm. fallist á, að þessi till. verði samþykkt, eins og allshn. mælir með.