16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2328)

163. mál, Náttúrulækningafélag

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp hér til þess að andmæla fram kominni tili. og raunar ekki heldur til þess að mæla með henni.

Ég vildi aðeins benda hv. fjvn. á, að þótt hún hafi leitað ummæla manna frá Náttúrulækningafélagi Íslands, sýnist mér, að henni hafi láðst að leita umsagnar heilbrigðisyfirvalda landsins, landlæknis t.d. og annarra þeirra aðila opinberra, sem með heilbrigðismál þjóðarinnar fara.

Ég vildi benda á það, að fyrir nokkrum árum tóku sig til tveir merkir læknar íslenzkir, nú báðir látnir, þeir dr. Gunnlaugur Claessen og próf. Jóhann Sæmundsson, og gerðu almenningi mjög glögga grein fyrir, hver væri stefna Náttúrulækningafélagsins. Þeir bentu á það, sem er staðreynd, að starfsemi náttúrulækningamanna á ef til vill meira skylt við trú og trúboð, en læknisfræði.

Ég vildi benda á þetta. Ég vildi líka benda á það, að á velmektardögum nazismans í Þýzkalandi blómgaðist náttúrulækningastefnan þar í landi, enda voru margir æðstu nazistar sanntrúaðir náttúrulækningamenn. Það hafði þær afleiðingar á læknisfræði Þýzkalands, sem um marga áratugi hafði haft forustusæti í heiminum, að hún hrapaði úr þessu forustusæti og hefur ekki borið sitt barr síðan.

En ég vildi á þessu stigi málsins aðeins benda á þetta og sérstaklega ítreka það, sem ég sagði áðan, að mér finnst, að hv. fjvn. ætti að leita umsagnar t.d. landlæknis og ef til vill læknadeildar Háskóla Íslands, áður en þetta mál verður endanlega til lykta leitt hér á hinu háa Alþingi.