16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2329)

163. mál, Náttúrulækningafélag

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég geng þess að sjálfsögðu ekki dulinn, að ef við eigum að ræða eðli Náttúrulækningafélags Íslands, ágæti þess og ágalla, þá munum við lítilli samstöðu ná á þingfundinum þeim arna. En hvað sem því líður, liggur það hér fyrir, að íslenzk heilbrigðisyfirvöld hafa veitt þessum aðilum nokkra viðurkenningu, eins og ég lýsti hér í minni frumræðu, og hvort sem þeir eru góðir eða lélegir matgerðarmenn, slæmir eða góðir trúmenn, þá verður þó ekki eða tæpast um það deilt, að þessa byggingu, sem þeir reka hæli sitt í, hafa þeir reist af miklum dugnaði, og það er mikil tilhneiging manna til þess að notfæra sér hælið af heilsufarslegum ástæðum, og þeim staðreyndum verður ekki neitað.

Þegar um er að ræða ríkisábyrgð í þessu tilfelli, skiptir það að sjálfsögðu nokkru máli, hvort viðkomandi stjórnarvöld, í þessu tilfelli Alþingi, hefur trú á starfseminni sem slíkri. Ég skal viðurkenna það. En Alþingi hefur áður tekið afstöðu í máli Náttúrlækningafélagsins og veitt því styrki, bein ríkisframlög til byggingar. Það hefur samtals fengið 300 þús. kr. í ríkisstyrki til byggingar á þessu hæli. Þó get ég tæpast litið svo á, að hér sé um að ræða málefnalega afstöðu Alþingis til þess, hvernig það vill meta Náttúrulækningafélag Íslands sem slíkt. Hinar staðreyndirnar liggja fyrir. Alþingi hefur veitt þessu félagi styrk, og heilbrigðisstjórnin hefur veitt því nokkra viðurkenningu.

Þá er komið að því, hvort sú ríkisábyrgð, sem hér er beðið um, sé fjárhagslega þannig undirbyggð, að áhættulítið eða áhættulaust sé fyrir ríkissjóð að veita hana eða ekki, og það er það, sem fjvn. hefur kynnt sér að nokkru, og telur, að ábyrgðin sé þess eðlis, að hún muni ekki valda ríkissjóði útgjöldum. Og í þeirri von og samkvæmt því áliti, að hægt sé þarna að greiða fyrir þessari byggingu, sem þegar hefur hlotið viðurkenningu, án þess að ríkið verði fyrir útgjöldum af því, — í þeirri skoðun er fjvn., þegar hún flytur þá till., sem hér liggur fyrir.