13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í D-deild Alþingistíðinda. (2336)

46. mál, jafnlaunanefnd

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Hér liggur fyrir þáltill. um skipun n. til að athuga mál, sem Alþingi fól ráðherra að framkvæma í fyrra.

Á s.l. Alþingi var samþ. svo hljóðandi þáltill., með leyfi hæstv, forseta: „Alþingi ályktar að veita ríkisstj. heimild til þess fyrir Íslands hönd að fullgilda samþykkt nr. 100, um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf, sem gerð var á 34. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf 1951, eins og hún liggur fyrir á fskj., sem prentað er með ályktun þessari.“

Ég mun ekki hirða hér um að lesa upp alla alþjóðasamþykktina. Það er langt mál, enda þm. flestum efni hennar vel kunnugt. Og eins og fram kom þá, voru þm. yfirleitt alveg sammála um þetta efnislega.

Vegna þess að hæstv. félmrh., sem hafði á s.l. ári virzt bera þetta mál mjög fyrir brjósti, en hann hafði látið undir höfuð leggjast að undirbúa ráðstafanir til þess, að ákvæði þessarar samþykktar gætu tekið gildi, enda þótt þál. um það efni lægi fyrir frá því á árinu 1954, þá þótti mörgum þm. ástæða til að herða á því, að ákvæði þessarar samþykktar væru framkvæmd, með því að bera fram svo hljóðandi brtt. við þessa þáltill., þegar málið kom hér til umr.: „Jafnframt ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að gera hið fyrsta ráðstafanir til, að samþykktin komist í framkvæmd hér á landi.“

Þessi brtt. var samþ. hér með samhljóða atkv., þrátt fyrir það að félmrh, hafði æ ofan í æ tekið fram, að það væri allsendis óþarft að hnýta nokkurri till. við þessa þáltill., sem léti í það skína, að honum væri ekki alls kostar trúandi fyrir því að framkvæma þetta mál svo fljótt sem föng væru á.

Ég vil taka það fram, og ég geri ráð fyrir því, að flestir aðrir þm. séu þeirrar skoðunar líka, að ég er fullkomlega fylgjandi þessari þáltill., sem hér hefur verið borin fram, því að hún er aðeins liður í framkvæmd þáltill. frá því í fyrra. En ég hefði satt að segja ekki að óreyndu viljað trúa því, að ráðh. léti undir höfuð leggjast að athuga þessi mál, þegar hann hafði fengið jafnítrekuð fyrirmæli um það frá Alþingi og raun er á.

Það hafa ýmsir háttvirtra þm. mjög takmarkaða trú á orðheldni hæstv. ríkisstj., en jafnskýlausa vantraustsyfirlýsingu á hæstv. félmrh. og hér liggur fyrir getur vart að líta.

Ég vil einnig taka það fram, að ég tel fullkomna ástæðu til að styðja þetta vantraust, og legg því eindregið til, að þessi till. verði samþ., þótt svo illa sé komið fyrir hæstv. ráðh., að hann er nú staddur á vinafundi austur í Moskvu og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sér, eins og síður mun vera, þegar vantrauststillaga er borin fram.