14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

73. mál, kosningar til Alþingis

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um kosningar til Alþ., hefur nú komið út í ýmsum útgáfum, þær eru orðnar líklega þrjár, að ég ætla. Fyrst er það frv., eins og það var lagt fram hér í hv. þd. Önnur útgáfan var svo sú, sem hæstv. fjmrh. boðaði í sinni framsöguræðu, þ.e. sú breyting, að kjörfundi skyldi lokið kl. 23 í stað 22. Var þetta kallað prentvilla, en mun að vísu ekki hafa verið það. En þriðja útgáfan, stórum breytt, ég vil ekki segja endurbætt, en þó stórum breytt, — hefur svo komið út nú, var útbýtt á þessum fundi eftir breyt. þær, sem gerðar voru í gær í hv. d. eftir þær umr., sem urðu hér við 1. umr. þessa máls, þegar nokkrir af þm. sjálfstæðismanna bentu á ýmsa ágalla frv. Þessi gagnrýni hefur orðið til þess, að stjórnarflokkarnir hafa séð, að ekki var unnt að samþ. frv. óbreytt, eins og í upphafi var ætlað, heldur hefur orðið að umturna því á ýmsa lund.

Það kom sem sé í ljós, strax þegar þm. fóru að lesa þetta frv., að sum ákvæði þess voru svo fáránleg, að þau gátu alls ekki staðizt, og hafa stjórnarflokkarnir því tekið það ráð að breyta nú frv. verulega, eins og gert var með brtt. meiri hl. hv. allshn. En þó að þannig hafi verið sniðnir af því nokkrir vankantar, þá er frv. meingallað eftir sem áður.

Annars er það í rauninni fróðlegt og til nokkurs skilningsauka á þessu máli öllu saman að rifja upp fyrir sér, hvernig þetta mál er til komið. Eins og öllum er ljóst, sem fylgjast eitthvað með stjórnmálunum, hefur þetta mál verið á döfinni í marga mánuði. Þetta stendur fyrst og fremst í sambandi við þær bæjarstjórnarkosningar, sem eiga að fara fram hér á landi í næsta mánuði.

Það var vitanlegt að, að því hefur verið unnið af miklu kappi að koma á samstarfi milli stjórnarflokkanna þriggja í bæjarstjórnarkosningum og sveitarstjórnarkosningum víðs vegar um land, en þó megináherzlan á það lögð að koma á slíku samstarfi hér í Reykjavík, því að nú þykir mikið við liggja að vinna það vígi Sjálfstfl., eins og stjórnarflokkarnir og málgögn þeirra stundum nefna það. Og fyrst og fremst átti að sjálfsögðu að stefna að því og var unnið að því markvisst, að stjórnarflokkarnir þrír ásamt samherjum sumra þeirra í varnarmálunum, þjóðvarnarmönnum, settu saman einn og sama lista við þessar kosningar. En eftir miklar þrautir lauk þeirri viðleitni svo, að allar mistókust þær og sprungu, þær tilraunir og sú viðleitni. Mun það hafa stafað af ýmsum ástæðum, en m.a. þeirri, að ráðamenn eða fulltrúar Alþfl. í Reykjavík munu hafa þvertekið fyrir að eiga slíkt samneyti við hina flokkana. Í fyrsta lagi töldu þeir, að ekki kæmi til mála að vera á einum og sama lista nú við bæjarstjórnarkosningar með kommúnistum, en auk þess töldu þeir sér heldur ekki fært að sitja á sama lista með framsóknarmönnum. Þeir munu hafa talið, að við alþingiskosningar í fyrra hafi þeir fengið nóg af þeirri reynslu og meira en það, svo að þeir treysta sér ekki út í slíkt ævintýri að nýju.

Vegna þessarar afstöðu Alþfl., að þverneita sameiginlegum lista með kommúnistum og framsóknarmönnum, a.m.k. hér í Reykjavík, strönduðu þessar tilraunir. En þá var haldið áfram með annað, og það stendur í beinu sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir. Þá voru hafnar umr. um það að hafa kosningabandalag við þessar kosningar milli þessara fjögurra flokka eða a.m.k. stjórnarflokkanna þriggja. Til þess þurfti að sjálfsögðu lagabreytingu, breytingu annaðhvort á lögum um kosningar til Alþingis eða lögum um sveitarstjórnarkosningar. Og þá var hugsunin nokkuð á sömu lund og var í frv, nokkru, sem borið var fram hér af Alþýðuflokksmönnum fyrir þrem árum, að ég ætla, um kosningabandalög, og er þá hugsunin sú, að þó að þessir flokkar beri ekki gæfu til samstarfs í það ríkum mæli, að þeir geti setið saman á einum lista við kosningar, heldur bjóði fram hver í sínu lagi, skuli samt sem áður leggja saman atkvæðatölur þeirra allra og reikna fulltrúasætin þannig út, ef vera mætti, að slík skipan yrði þeim frekar til framdráttar og færði þeim eitthvað aukna bæjarfulltrúatölu frá því, sem yrði, ef þeir eru hver í sínu lagi.

Það er vitanlegt, að í þessu frv. um breytingar á kosningalögunum, sem hér liggja fyrir, áttu ný lagaákvæði um heimild til slíkra kosningabandalaga að vera eitt meginatriðið. En það er margt, sem bjátar á hjá blessuðum stjórnarflokkunum, margvíslegur ágreiningur og vandræði, ekki aðeins í hervarnarmálunum, heldur fjöldamörgu öðru, Og þó að sumir hefðu í öndverðu mikinn áhuga á því að lögheimila slík bandalög, rann þetta allt út í sandinn.

Eins og Alþfl. hafði þverneitað að vera á sameiginlegum lista hér í Reykjavík með hinum stjórnarflokkunum, fór svo, að hann þverneitaði að vera með í því að lögleiða slíkt kosningabandalag og síðan ganga í það fyrir þessar bæjarstjórnarkosningar, og lágu til þess sömu ástæður, að hann taldi sér lítinn feng í því, þótt ekki væri sameiginlegur listi, að fá þó verandi í kosningabandalagi óorð af sósíalistum og Framsfl. báðum saman.

Sósfl., sem í öndverðu mun hafa látið líklega um þetta, mun þó að lokum hafa séð, að þetta mundi ekki sigurstranglegt, sérstaklega eftir að hann hafði nú að nýju dregið upp fánann í varnarmálunum og þykist nú heimta varnarliðið af landi brott, og mundi því ekki sigurstranglegt fyrir hann að ganga á sameiginlegan lista með hernámsflokkunum í ríkisstj.

Þannig var viðhorfið. Hins vegar mun Framsfl, hafa látið þetta gott heita og vel getað hugsað sér bæði sameiginlega lista eða þá kosningabandalög, hvort sem væri með Alþfl. eða kommúnistum eða báðum, þótt framsóknarmenn fengju kannske eitthvert óorð af þeim hvorum fyrir sig. En þetta gat Framsfl. hugsað sér samt sem áður, vafalaust út frá þeirri hugsun, að ekki mundi sjá á svörtum, þó að þessu yrði þar bætt ofan á.

En sem sagt, þessar tilraunir mistókust, og þar með féll úr sögunni sú fyrirhugaða lagaheimild til þess að gera kosningabandalög. En það var margt fleira, sem eftir var, og eru nú eftirhreyturnar komnar í þessu frv. En í stuttu máli er það allt saman miðað við það að gera kjósendum í Reykjavík eða í fjölmenninu — skulum við segja — sem erfiðast fyrir eða erfiðara fyrir að neyta kosningarréttar síns, heldur en áður.

Það vita allir menn, að þessi er höfuðtilgangurinn með frv., og það skiptir engu máli, þó að einhverjir stjórnarliðar komi hér upp í ræðustól og kalli þetta friðarfrumvarp, — á líklega að vera eitt ríflegt spor og framlag hæstv. ríkisstj. til varðveizlu heimsfriðarins. Það á að friða kjördaginn og afnema þann mikla stríðs- og ófriðarblæ, sem á honum hafi verið. Það er hægt að klæða þetta mál í sauðargæru, en úlfshárin gægjast alltaf samt sem áður fram undan.

Ég sagði, að þessu væri fyrst og fremst stefnt að því að torvelda íbúum eða kjósendum í fjölmenninu, í þéttbýlinu, að neyta atkvæðisréttar síns, og ég er sannfærður um, að tilgangur frv. er fyrst og fremst sá. Eitt meginákvæði þessa frv. er það, sem er í 3. gr. frv., að banna að gefa upplýsingar um það eða rita niður, hverjir neyta atkvæðisréttar síns og hverjir ekki. M.ö.o.: það á að torvelda það, að frambjóðendur eða umboðsmenn þeirra geti fylgzt með kosningunni, eins og verið hefur talið heimilt alla tíð áður, það á að torvelda, að þeir geti fylgzt með því, hversu kosningunni miðar áfram, hversu margir eru búnir að kjósa o.s.frv.

En þessi ákvæði hafa vitaskuld enga þýðingu utan þéttbýlisins, því að í langflestum kjördæmum í þessu landi, bæði úti um allar sveitir og í flestum sjávarplássum og kauptúnum, þekkir hver maður annan, og frambjóðendur og umboðsmenn flokka og lista vita auðvitað alltaf jafnóðum, hverjir eru búnir að neyta kosningarréttar síns.

Ef flokkarnir, umboðsmenn þeirra eða kosningaskrifstofur, vilja örva þá eða hvetja, sem ekki eru búnir að kjósa, þegar líður á daginn, til þess að neyta kosningarréttar síns, þá er það vitanlega í lófa lagið alls staðar í strjálbýlinu, vegna þess að þar vita yfirleitt allir og fylgjast með því, hverjir kjósa. Og mér dettur ekki í hug, að t.d. Framsfl., sem hefur nú verið hvað ötulastur og ágengastur í kosningasmölun hér á landi undanfarna áratugi, muni nokkuð breyta sínum starfsháttum, þó að þetta frv, yrði samþ., vegna þess einfaldlega, að í þéttbýlinu á hann yfirleitt sáralitlu fylgi að fagna og getur yfirleitt talið á fingrum sér t.d. í Reykjavík þá kjósendur, sem hann styðja að málum. Þess vegna mundu starfsaðferðir þess flokks og kosningasmölun, sem ýmsar sögur fara af, vitaskuld verða með alveg sama hætti, þótt þetta frv. yrði samþ. eða ekki samþ.

Ef ætti að draga eitthvað úr áróðrinum —skulum við segja — eða kosningasmölun í strjálbýlinu, sem vissulega hefur oft og tíðum verið mjög mikil, þá hefur þetta frv. ekkert gildi í því sambandi.

Nei, þessu frv. er stefnt að þéttbýlinu og fyrst og fremst að Reykjavík, vegna þess að það er kunnugt, að í fjölmenninu og þá sérstaklega í höfuðborginni, þar sem kjósendur eru milli 30 og 40 þús., á sá persónulegi kunnugleiki, sá persónulegi kunningsskapur og möguleiki til að fylgjast með, hverjir kjósa, sem á sér stað í strjálbýlinu, ekki við, og þess vegna er það vitaskuld hér eins og annars staðar, að það er annað skipulag og önnur vinnubrögð við kosningar.

Því hefur verið haldið fram af stuðningsmönnum þessa frv., að með þessu ætti að friða kjördaginn, og hv. 1. þm. Eyf. (BSt), hæstv. forseta, fannst hlutur sinna manna í þessum umr. ekki betri en svo, að hann taldi ástæðu til þess að risa úr forsetastóll og taka þátt í þessum umr. til að rétta þeirra hlut. En málsvörn hans var sannast sagna ekki mikill fengur fyrir stjórnarliðið. M.a. sagði hæstv. forseti, að hann hefði eitt sinn, þegar kosið var hér í Reykjavík, verið í húsi nokkru, og þá hefði hver maður komið eftir annan um kvöldið og jafnvel eftir háttatíma til þess að ná kvenmanni einum á kjörfund. Mér skilst, að þetta tilræði hafi ekki tekizt. Hvort sem hæstv. forseti hefur staðið þarna svo traustan vörð eða hvernig sem á því stendur, þá tókst víst ekki að draga konuna á kjörstaðinn þrátt fyrir tilraunir þriggja komumanna. Og hæstv. forseti segir, að hann sjái ekki, að það stefni í neina einræðisátt, þótt þess konar ágangur, eins og hann var að lýsa, væri bannaður. En það er bara sá mikli misskilningur hæstv. forseta, þess glögga manns, að þó að frv. yrði samþ., er þessi ágangur alls ekki bannaður. Þessum þremur mönnum og hvaða kosningasmölum öðrum sem væri, er alveg jafnheimilt að koma í hús manna og hvetja fólk til að kjósa og það jafnvel með mikilli ágengni, hvort sem frv. er samþ. eða ekki. Hæstv. forseti hefur gersamlega misskilið frv, sinnar eigin ríkisstj., ef hann heldur, að það séu nokkur ákvæði í því, sem banna þetta. (BSt: Það er ekki víst, að sá þriðji hefði vitað um konuna, ef frv, hefði verið lög.) Hæstv. forseti segir, að það sé ekki víst, að þessir starfsmenn listanna eða umboðsmanna hefðu vitað það, að konan var ekki búin að kjósa. Eins og ég gat um við 1. umr. þessa máls, held ég, að frv. muni verka alveg öfugt, þannig að ágangur, ef svo á að kalla það, á heimili eða kjósendur verði meiri en áður því að, að undanförnu, þegar umboðsmenn listanna hafa getað fylgzt með því jafnóðum, hverjir eru búnir að kjósa, er yfirleitt ekki leitað nema til þeirra, sem eiga eftir að greiða atkvæði. En um leið og þetta er bannað, er hætt við, að ýmislegt fólk, sem búið er að kjósa, verði fyrir þessu, sem hæstv. forseti var að lýsa, þannig að frv. muni ekki verka til þess að friða heimili og kjósendur gegn þessum áróðursmönnum, heldur þvert á móti til að auka þann áróður. Það er ein af þeim mörgu hugsanavillum, sem fram hafa komið í þessu frv., og ég ætla, að hér hafi hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar algerlega skotið yfir markið.

En það er þá vissulega ástæða til þess að spyrja: Eftir hverra óskum er þetta frv. flutt? Hverjir eru það, sem hafa beðið um þessa svokölluðu vernd eða friðun, sem stjórnarflokkarnir þykjast nú vilja koma á? Mér er ekki kunnugt um það, að kjósendur hafi kvartað yfir þessu eða sent áskoranir til Alþingis eða ríkisstj. um þetta. Mér er ekki kunnugt um það. Ég hef ekki heyrt, að einn einasti félagsskapur í landinu, og eru þeir þó allmargir, hafi skorað á þing eða stjórn að setja þessi lög. Ég held, að það sé um engar áskoranir, engan þjóðarvilja, engan kjósendavilja að ræða, sem stendur á bak við þetta frv. Þetta er aðeins hugarfóstur stjórnarflokkanna sjálfra. Og manni verður að spyrja: Fyrst engar almennar óskir standa á bak við þetta, hvað er það þá, sem vakir fyrir hv. stjórnarflokkum og ríkisstj.? Er það ekki um leið þá til þess að styðja þá skoðun okkar, að hér vaki allt annað fyrir, sem sagt að gera kjósendum fjölbýlisins, þéttbýlisins, erfiðara fyrir en áður, — og vegna hvers? Vegna þess fyrst og fremst, að í langmesta þéttbýlinu, í langsamlega fjölmennasta kaupstaðnum, Reykjavík, er Sjálfstfl. langsamlega fjölmennasti flokkurinn, og allar slíkar kosningahömlur og takmarkanir bitna auðvitað jafnan mest og fyrst og fremst á þeim, sem mest hafa fylgið, fjölmennustu flokkunum. Það skilur hver heilvita maður.

En hafa þá kannske einhverjar bæjarstjórnir eða sveitarstjórnir óskað eftir þessu? Ekki er mér kunnugt um það, heldur þvert á móti. Þetta mál, t.d. um lokun kjörstaða fyrr en áður, hefur komið til umr. í bæjarstjórnum tveggja stærstu kaupstaðanna á Íslandi, Reykjavíkur og Akureyrar. Í bæjarstjórn Reykjavíkur kom málið til umr, nú fyrir skömmu. Það var nokkru áður en þetta frv. leit dagsins ljós, og þar var samþ. svo hljóðandi till., að bæjarstjórn Reykjavíkur telur ekki rétt að svipta kjósendur rétti til þess að neyta atkvæðisréttar síns til loka kjördags, þ.e.a.s. til kl. 24, né heldur að meina frambjóðendum að hafa umboðsmenn á kjörfundi, svo sem heimilt hefur verið, síðan leynilegar kosningar voru lögleiddar á Íslandi. Þetta segir í ályktun bæjarstjórnar Reykjavíkur.

Bæjarstjórn Akureyrarkaupstaðar fékk þetta mál einnig til meðferðar nú fyrir örfáum dögum. Það kom fram till. í bæjarstjórninni um það, að hún skoraði á Alþingi að breyta lögum á þá lund, að kjörfundi skuli lokið kl. 22, þ.e. kl. 10 að kvöldi. Þessari till. var vísað til bæjarráðs Akureyrar til athugunar. Í bæjarráði Akureyrar varð fullt samkomulag milli allra fimm bæjarráðsmanna um það, að ekki væri rétt að ljúka kjörfundi á þessum tíma, heldur halda sér við lok kjördags, við kl. 24.

Í bæjarráði Akureyrar, ef við viljum greina þetta sundur eftir stjórnmálaflokkum, eiga sæti tveir fulltrúar sjálfstæðismanna, einn framsóknarmaður, einn sósíalisti, svo skiptast á um fimmta sætið þjóðvarnarmaður og Alþýðuflokksmaður, og mun það hafa verið þjóðvarnarmaður, sem sat þennan fund. Allir þessir fimm bæjarráðsmenn voru sammála um að mæla á móti þessari till. um að ljúka kjörfundi fyrir miðnætti.

Þegar svo á bæjarstjórnarfundinn kom, var sú till. bæjarráðsins einnig samþ., að heimilt væri að halda áfram að kjósa til kl. 24. Að vísu voru þar einhverjir bæjarfulltrúar, sem greiddu atkvæði á móti þessari till., en það var mikill minni hluti þeirra.

Sem sagt, málið liggur þannig fyrir: Ekki vitað um nokkurn þjóðarvilja. Engar áskoranir frá fundum eða félögum landsmanna í þessa átt, og bæjarstjórnir tveggja stærstu kaupstaðanna hafa þvert á móti lýst yfir þeim vilja sínum, að rétt sé að heimila, að kjörfundur standi til miðnættis.

Manni verður vissulega að spyrja: Hvað er þá það, sem rekur stjórnarflokkana til þess að knýja þetta frv. áfram, demba því inn nú rétt fyrir þinghlé, þannig að það þarf að afgr. það með þeim flýti og þeim hraða, sem hér er, þannig að þó að vitanlega sé að þessu löglega farið, þá er þetta auðvitað allt of skammur tími til þess, að þdm. fái tóm til að átta sig á þessum breytingum. Það kemur líka í ljós, hversu kastað hefur verið höndum til þessa máls og hroðvirkni í þessari málsmeðferð allri, að meiri hl. allshn. verður að umturna frv., og ég mundi nú ætla, að ef einhver mynd ætti að vera á þessu frv., þótt ekki væri nema að formi til og frá lögfræðilegu sjónarmiði, hvað sem efninu líður, þá muni þurfa að gera á því allmiklar breytingar, áður en það yrði afgr, frá þingi, ef það ætti að verða í sómasamlegu formi.

Það hefur verið minnzt á það áður og kemur m.a. fram í nál. minni hl. allshn., að enn er ein ástæða til viðbótar þeim, sem hér hafa verið raktar af hv, frsm, minni hl., hv. þm. Vestm. (JJós) og mér, til þess að afgr, ekki þetta mál nú, og hún er sú, að það situr að störfum mþn., sem kosin var í aprílmánuði 1954 til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar, og það eru vissulega furðuleg vinnubrögð að ætla að hespa þá í gegnum þingið nú, rétt fyrir þessar næstu bæjarstjórnarkosningar, hroðvirknislegu frv., sem mikill ágreiningur er um í þingi og meðal landsfólksins, í stað þess að bíða eftir áliti og till. þessarar sjö manna mþn, og þá e.t.v. að skora á hana, ef ríkisstj. beitir sínum áhrifum til þess að skora á n. að hraða störfum, en þar eru hæg heimatökin, því að form. þeirrar n. er og hefur verið einn af þm, Framsfl., hv. þm. A-Sk.

Í 1. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að breyta 70. gr. laganna um kosningar til Alþingis, en þar segir um utankjörstaðaratkvæðagreiðslu eða atkvæðagreiðslu þeirra kjósenda, sem gera ráð fyrir að verða ekki heima á kjördegi. Nú eru viss ákvæði í gildandi lögum um þetta, m.a. til þess að koma í veg fyrir, að þessi heimild sé misnotuð. Að vísu held ég, að kjósendur hafi yfirleitt ekki neina tilhneigingu eða hvöt til þess að greiða atkvæði fyrir kjördag, nema brýnar ástæður séu til. Ég held, að það sé engin hvöt til þess eða tilhneiging að misnota þetta ákvæði, og það er vant að sjá, hvað ætti að reka menn til þess. Við kosningu fyrir kjördag eru miklu meiri vafningar og skriffinnska og tafir, og ég held, að flestallir kjósi heldur að greiða sitt atkvæði á kjördegi og á venjulegum kjörfundi, heldur en fyrir kjördag.

En höfundar frv. hafa fundið eitthvað athugavert við þetta, því að nú er gert ráð fyrir að lögleiða, að hver maður, sem vill greiða atkvæði utan kjörfundar, skuli gera fyrir kjörstjóra sem nákvæmasta grein fyrir því, hvar hann muni verða staddur á kjördegi, og kjörstjóri skal færa þessar upplýsingar í bók, sem yfirkjörstjórn löggildir í þessu skyni.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þetta ákvæði sé neinum til tjóns eða beinlínis á neins rétt eða hagsmuni gengið með þessu, en ég tel þetta algerlega óþarft, og ég tel þetta óþarfa skriffinnsku. Ég sé ekki nokkra fullnægjandi ástæðu fyrir því að fara að auka þá vafninga, sem eru þegar samkvæmt gildandi lögum við utankjörfundaratkvæðagreiðslu, með því að bæta þessari skriffinnsku við, Það er viðbúið, að mönnum, sem gera ráð fyrir t.d. að fara í ferðalög og fara víða um í ýmiss konar erindisrekstri, verzlunarerindum, opinberum erindum eða hvað sem það er, verði stundum erfitt að gera nákvæma grein fyrir því, hvar þeir verði einmitt staddir þennan dag í sínu ferðalagi. Í framkvæmd verða kannske ekki gerðar svo ákaflega strangar kröfur um það, þó að orðalag laganna ætlist til þess, því að það er heimtað, að gerð sé sem nákvæmust grein um þetta. Síðan á að löggilda sérstaka bók, það er ekki nóg um þær bækur allar og skriftir í sambandi við kosningarnar, það þarf að bæta einni löggiltri bók við í hvert kjördæmi, og ég fæ ekki séð neinar fullnægjandi ástæður fyrir þessari auknu skriffinnsku og tel þetta ákvæði því heldur til hins verra.

Í 2. gr. þessa frv. eru svo ákvæðin um það, hvenær kjörfundi skuli slíta, og í stað þess sem upphaflega var í frv, ákveðið, að kjörfundi skuli slíta eigi síðar en kl. 22, þá er, eins og ég gat um, því breytt og frv. prentað með því ákvæði, að það skuli vera kl. 23.

Hv. frsm. minni hl. hefur lagt til, gerði það við 2. umr., að miðað yrði við lok kjördags, eins og í rauninni ég ætla að flestir telji eðlilegast, þ.e.a.s. kl. 24. Sú till. var hér felld.

Sami hv. þm. hefur nú flutt aðra till. um það, að í stað þess að kjörtíminn verði styttur að kvöldinu til, sé hann lengdur að morgninum, þannig að hann skuli byrja kl. 9 í stað kl. 10. Þetta tel ég til mikilla bóta, og mætti þá nokkuð vinna hitt upp, En því er ekki að heilsa, að þm. stjórnarflokkanna virðist geta gengið inn á þessa eðlilegu og sanngjörnu till. Hv. þm. Ak. (FS) flytur brtt. í þá átt, að þetta skuli vera heimild til handa yfirkjörstjórn að láta byrja kl. 9. M.ö.o.: það á að vera alveg lögbundið, að það má ekki halda lengur áfram en til kl. 23, en hitt á svo að vera á valdi yfirkjörstjórnar á hverjum stað, hvenær byrjað verður.

Mér sýnist, að það verði að vera samræmi í þessu. Ef á að lögbjóða, að lokið sé kl. 23, þá á líka að lögbjóða, að það sé byrjað á þessum tíma að morgninum. (Forseti: Ég verð að biðja hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni.) Já, vegna fundar í Sþ. (Forseti: Já.) — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Í 3. gr. þessa frv. var svo ákveðið í upphafi, að óheimilt væri með öllu að senda af kjörfundi upplýsingar um það, hvaða kjósendur koma og neyta atkvæðisréttar síns. Enn fremur er óheimilt að skrifa hjá sér, hverjir greiða atkvæði eða hverjir greiða ekki atkvæði.

Þetta bann náði til allra, ekki aðeins til frambjóðenda og umboðsmanna þeirra, heldur var það almennt ákvæði. Allt var þetta því óheimilt samkvæmt frv. og lagðar allþungar refsingar við, ef einhver maður leyfði sér þau býsn að skrifa hjá sér, hver kæmi til að kjósa, eða þótt ekki væri annað, en svara játandi eða neitandi spurningu um það, hvort einhver tiltekinn kjósandi hefði greitt atkvæði.

Meiri hl. allshn. hefur þó séð við athugun, að þetta fékk ekki staðizt, og því eftir þá gagnrýni, sem þetta ákvæði fékk við 1. umr., talið rétt að breyta orðalaginu. Og eins og því hefur nú verið breytt samkvæmt till. meiri hl. n., er þetta bundið við frambjóðendur og umboðsmenn þeirra, þ.e.a.s. frambjóðendum og umboðsmönnum er óheimilt að rita til minnis á kjörfundi nöfn þeirra, er neyta atkvæðisréttar, og senda af kjörfundi eða láta í té upplýsingar um, hverjir neyta atkvæðisréttar eða hverjir hafa ekki sótt kjörfund.

Ákvæðið hefur því skv. till. n. og samþykkt hv. þd. verið þrengt þannig, að nú er ekki hægt að refsa fyrir þessar upplýsingar öðrum en frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra, en ekki hinum almenna kjósanda, og má segja, að það sé þó nokkur framför. En manni verður að spyrja: Hvaða nauður rekur til að setja slíkt lögbann og slík refsiákvæði í lög? Frambjóðanda á að vera óheimilt að láta í té upplýsingar um, hverjir hafa kosið. Þetta er ekki tímabundið, það er ekki aðeins óheimilt að láta þessar upplýsingar í té á kjörfundinum eða meðan kjördagur stendur, heldur og æ síðar. Frambjóðendum og umboðsmönnum þeirra er óheimilt að láta í té upplýsingar um þetta. Frambjóðandi eða umboðsmaður má því ekki, hvorki á kjördegi né síðar, skýra frá því, að hann viti til þess, að tiltekinn kjósandi hafi neytt atkvæðisréttar síns né að tiltekinn kjósandi hafi ekki gert það.

Svona ákvæði er náttúrlega fáránlegt og fyrir neðan allar hellur. (Forseti: Hefur þm. lesið 3. gr.?) Ég var að lesa frv., og það er orðrétt svona eins og ég las það. (Forseti: Að senda af kjörfundi.) Það segir: að senda af kjörfundi eða láta í té upplýsingar. Hvar segir að, að þetta að láta í té upplýsingar um, hverjir neyta atkvæðisréttar, sé bundið við kjördag eða kjörfund? Það stendur hvergi. Hæstv. forseti hefur vafalaust misskilið þetta ákvæði eins og hitt, sem ég nefndi hér áðan um sendlana þrjá eftir konunni, sem hann var að vernda.

En auk þess er svo bannað hér frambjóðendum og umboðsmönnum að hafa meðferðis á kjörfund kjörskrá eða aðra slíka skrá. Í upphafi var bannað að hafa nokkra skrá með sér, hvort sem það var kjörskrá, skattskrá, útsvarsskrá, símaskrá eða hvað sem það var. Það var refsivert. Nú hefur þó n. reynt að bæta um og segir nú „aðrar slíkar skrár“, það mun þýða: sem eru eitthvað sambærilegar við kjörskrár. En mér er spurn: Hvaða skrá er það eða hvers konar skrá? Væri nú ekki nægilegt að — (Gripið fram í: Markaskrá.) Markaskrá, já. Væri ekki nægilegt að hafa bara ákvæðið um kjörskrá? Hvers vegna er verið að hafa svona óljóst ákvæði, sem enginn veit, hvað þýðir? Það er alltaf slæmt að hafa í lögum óljós ákvæði, en ég ætla, að það sé þó hvergi óheppilegra, en í refsilögum eða um lagaákvæði, sem refsingar eru lagðar við, þannig að bæði almenningur og dómendur eru kannske í miklum vafa um það, hvað þar fellur undir, og þannig er með þetta orðalag: „aðrar slíkar skrár“.

Enn fremur er ákveðið, að þeim sé bannað að hafa það meðferðis á kjörfund, þeir megi ekki taka það með sér, þegar þeir koma þangað. En ef slík skrá væri þar nú fyrir eða ef hún væri send honum, meðan hann er á fundinum, er þá ætlazt til, að ákvæðið næði til þess? Orðið „meðferðis“ bendir til þess, að svo sé ekki, en það má vera, að tilgangurinn sé annar.

Þetta með öðru sýnir, hvað frv. er óvandað að undirbúningi, og það sýnir líka, að hv. meiri hl. allshn. hefur ekki unnizt tími til þess að ganga svo frá óhjákvæmilegum breytingum, að viðunandi sé.

Þá er og bannað frambjóðendum og umboðsmönnum að rita til minnis á kjörfundi nöfn þeirra, er neyta atkvæðisréttar. Þeim er bannað að rita til minnis. Þetta var nú orðað þannig áður, að það var öllum óheimilt að skrifa hjá sér, hverjir greiða atkvæði, og mér þætti fróðlegt að fá að vita, hver er hinn lögfræðilegi munur á því að „skrifa hjá sér“ eða „rita til minnis“. Meiri hl. n. hefur talið, að hér væri einhver verulegur efnismunur á, þar sem hann hefur tekið upp hið síðara orðalag. Hins vegar er þó ekki enn gengið svo langi, þó að bannað sé að rita til minnis nöfn kjósenda, að mönnum sé bannað að viðlagðri refsingu að leggja á minnið, hverjir kunna að hafa kosið, en kannske það sé næsta sporið.

Eins og ég hef getið um áður, verður það helzt ráðið af öllum þessum málatilbúnaði, að tilgangurinn með þessu frv. sé fyrst og fremst framkvæmdin á þessari 3. gr., vegna þess að þegar það sé bannað fulltrúum eða umboðsmönnum frambjóðenda og lista að fylgjast á þann hátt, sem verið hefur, með því, hverjir kjósa, mundi það torvelda mest kosninguna í mesta fjölmenninu og þá fyrst og fremst stærsta flokknum, og þetta er tvímælalaust tilgangurinn. En ef sá á að vera tilgangurinn, sem hér er látið í veðri vaka, að friða kjördaginn og vernda kjósendur fyrir ásókn og ónæði fyrirgreiðslumanna, eða eins og stundum er kallað kosningasmala frá kosningaskrifstofum, þá verkar þetta alveg öfugt. Ég hef nefnt það hér áður og geri það enn, að ég tel, að ef um slíka starfsemi er að ræða eða verður að ræða af hendi frambjóðenda flokka, mundi hún heldur færast í auka og ekki aðeins þeir, sem vitað er um að ekki hafa kosið, verði fyrir því ónæði, heldur einnig ýmsir þeirra, sem þegar hafa kosið, án þess að frambjóðendum eða skrifstofu þeirra eða umboðsmönnum sé um það kunnugt, þannig að tilgangurinn að þessu leyti með friðunina mundi verka alveg öfugt.

Ef 3. lið 3. gr. ber að skilja eins og mér virtist mega ráða af framígripi hæstv. forseta, þá þyrfti að sjálfsögðu að breyta þessu orðalagi. Það stendur: að senda af kjörfundi eða láta í té. Þá þarf að koma skýrt fram, ef það er ætlunin, að einnig sé átt við það að láta í té frá kjörfundinum. En eins og frv. liggur fyrir, þýðir ákvæðið ekki þetta, eins og hæstv. forseti virðist hafa skilið það.

Í 5. gr. þessa frv. er svo ákvæði um viðurlög við því að reyna að hafa áhrif á atkvgr, með ýmsum atriðum, sem til voru tekin í lögum áður, m.a. með því „að bera eða hafa uppi flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, þ.e. í kjörfundarstofu, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, svo og á næstu húsum og í aðliggjandi götu“. Þannig var frv. upphaflega. En nú hefur þessu verið breytt á þá lund, að í stað „önnur einkenni“ komi: önnur slík auðkenni. Er það auðvitað sýnu nær og til bóta, því að eftir frv., eins og það var upphaflega, var bannað að viðlagðri refsingu að hafa nokkurs konar merki eða auðkenni á bifreiðum á kjördegi. Nú er þó talað um flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni. En það er sama um þetta eins og ýmis fleiri ákvæði frv., að allshn. hefur ekki haft eða gefið sér nægan tíma vegna eftirreksturs til þess að athuga þetta nægilega eða orða þetta á viðunandi hátt.

Ég býst við, að það megi túlka það nokkurn veginn glöggt og greinilega, þannig að ekki sé um að villast, a.m.k. í flestum tilfellum, hvað sé flokksmerki. En það er ekki látið þar við sitja, heldur er talað um „merki“, og ég held, að merki sé nokkuð víðtækt og sé hægt að heimfæra marga hluti undir „merki“, og ég ætla, að það geti orðið erfitt við framkvæmd þessara laga, m.a. fyrir dómstóla, og ef þeir eiga að fara að dæma refsingar fyrir, að einhver maður hafi borið á sér einhvers konar merki, hvort það falli undir þessi ákvæði. Mér sýnist um þetta eins og um sum fyrri atriði, sem ég hef gert hér að umtalsefni, að hér sé allt of losaralega og óljóst að kveðið.

Nú er það vitanlegt, að ýmsir menn bera á sér dagsdaglega, t.d. í jakkahorni sínu, ýmiss konar merki, félagsmerki. Sumt er það alveg ópólitískt. Ég veit, að ýmsir bera t.d. á sér að staðaldri merki ágætra félagssamtaka, eins og Rotary-félagsskapar eða annars slíks. Sumir bera á sér að staðaldri flokksmerki. Til hverra merkja þetta á að taka, veit ég ekki, og ég held, að allshn. hefði þurft að gera till. miklu nánari og gleggri skýringar á þessu, en gert var í hennar brtt.

Enn fremur er bannað að hafa uppi eða bera nokkurs konar lista. „Listi“ þýðir ákaflega margt og er nokkuð rúmt hugtak og er því afsleppt eins og hitt sem grundvöllur fyrir refsilögum.

En það er ekki nóg, að það sé bannað að hafa þetta á sjálfum kjörstaðnum, þ.e.a.s. í kjörfundarstofu og á eða í þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, heldur einnig á næstu húsum og í aðliggjandi götu.

Nú skulum við athuga, hvernig þetta mundi framkvæmt t.d. hérna í Reykjavík. Elzti og lengi aðalkjörstaður hér í Reykjavík er Miðbæjarbarnaskólinn, og það má sem sagt ekki í því húsi né á því húsi né á næstu húsum eða í aðliggjandi götum hafa nein slík merki. Nú hefur Framsfl. unnið að því með öllum ráðum, þó aðallega ólöglegum, að koma sér upp félagsheimili rétt í grennd við Miðbæjarskólann, hefur þar verið að breyta gömlu íshúsi í félagsheimili, og skiptir það ekki máli í þessu sambandi, þó að til þess hafi skort öll leyfi og lagalegar heimildir. En ef ætti að framfylgja þessu, vegna þess að þetta er eitt af næstu húsum og við aðliggjandi götu, þá mætti víst ekki á eða í því húsi, félagsheimili Framsóknar, hafa yfirleitt neitt, sem minnir á kosningar.

Annað hús þarna nærliggjandi er Iðnó, þar sem Alþfl. hefur haft sinn samastað, og mundi þá sama máli gegna um hann. Þar yrði vitanlega að fjarlægja bæði íslenzka og rauða fánann, sem stundum hafa þar blaktað, a.m.k. þeir síðarnefndu mundu líklega vera taldir til áróðurs, og af ýmsum öðrum ástæðum þykir nú ekki rétt að nota íslenzka fánann í sambandi við kosningaskrifstofur. Og hvers konar merki, lista eða slík auðkenni mundi því óheimilt að hafa einnig á eða í því húsi.

Þriðji stjórnarflokkurinn hefur svo sína bækistöð að vísu hinum megin við Tjörnina, og má vera, að hann sleppi, vegna þess að það verði ekki talið til næstu húsa né við aðliggjandi götu.

Nú nefni ég þetta, þó að mér sé ákaflega vel kunnugt um, hver er tilgangurinn með þessu frv. Hann er ekki sá að torvelda á nokkurn hátt kosningastarfsemi stjórnarflokkanna. En ég nefni þetta vegna þess, að það er enn ein sönnun þess, hve hroðvirknislega er hér að unnið og það svo, að það má segja um hæstv. ríkisstj., að „ekki sér hún sína menn, svo hún ber þá líka“.

Herra forseti. Ég ætla, að ég hafi gert hér að umtalsefni þau atriði, sem ég helzt hafði ætlað að minnast á og taldi nauðsynlegt á að benda.

Og ég held, að í rauninni geti engum manni dottið í hug að taka alvarlega allt það friðarhjal, sem hér er látið heyrast, að þetta sé gert af umhyggju fyrir kjósendunum og til þess að friða kjördaginn. Frá kjósendunum, frá almenningi, frá félögum þeirra eða frá bæjar- og sveitarstjórnum hafa ekki heyrzt neinar óskir í þá átt, sem þetta frv. fer fram á. Ég tel því, að sé ekki minnsti grundvöllur eða nokkur ástæða til þess að afgreiða þetta mál, og ætti að sjálfsögðu að fresta afgreiðslu þess, þangað til mþn., sem kosin var fyrir tæpum fjórum árum, skilar áliti.