14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ák. (FS) fyrir það, sem hann vildi upplýsa viðvíkjandi þeirri fsp., sem ég bar fram, og skal að vísu tekið fram af mér, að ég hafði meira í huga ákvæði 3. gr., eins og það var í frv. upphaflega, heldur en í þessu síðara plaggi, sem er uppsuða á frv. eftir 2. umr. Annars hafa þessar breytingar og skjölin orðið svo mörg í þessu, að það er varla hægt að átta sig á, hvað er hvað. En það, sem hann virtist þarna vilja segja, að þetta gilti aðeins um frambjóðendur o.s.frv., — ég hafði spurt að því, hvort manni væri heimilt að skýra frá því, að maður hefði sjálfur kosið eða ekki kosið, og hann benti mér á þessa grein, sem segir: frambjóðendur. Nú er það vitað, að t.d. við bæjarstjórnarkosningar og raunar við þingkosningar líka, eru í sumum stöðum á landinu allmargir á lista, sem þá geta allir heitið frambjóðendur, svo að það mun a.m.k. að sjálfsögðu vera ætlazt til af hv. þm., að ákvæðið hitti þá, og svo framarlega sem maður er á einhverjum lista hjá einhverjum flokki, þá sé hann bundinn eða honum skipað að viðhafa fulla þagnarskyldu um það efni undir straff. Að öðru leyti hefur hv. 6, þm. Reykv, farið svo ýtarlega út í þetta mál, að ég hef eiginlega litlu og helzt ekki neinu við það að bæta, sem hann hefur ekki á minnzt.

Ég fann til með hæstv. forseta, sem fann hér ástæðu til þess að taka til máls, þegar rifjuð var upp sú átakanlega historía úr húsinu, þar sem hann var — geri ég ráð fyrir — gestur í, þar sem í þrjú skipti var barið að dyrum til þess að fá einhverja blessaða frú á kjörstað, sem virðist hafa verið treg til þess að gera það. Og var hann að segja það sem dæmi um, hvað hann hefði séð og reynt af ófriðnum um kosningar í þessu efni. Hv. 6. þm. Reykv. er búinn að sýna fram á það með skýrum rökum, sem raunar hefur verið drepið á áður, að sá friður, sem hæstv. forseti og aðrir, sem eru líkt hugsandi og hann í þessu efni, stefna að með þessu frv., verður á engan hátt tryggður, þó að frv. sé samþykkt, þar sem það er einmitt, þegar orðin er fullkomin óvissa um, hvort fólk hafi kosið eða ekki kosið, að þá er mjög hætt við, að það aukist heimsóknirnar og smölunin, ef svo má að orði kveða, í húsum, þegar potað er blint í sjó, sem ekki þyrfti að vera, ef það væri vitað, að þessi eða hinn hefði kosið, eins og hingað til hefur verið venja, svo að hæstv, forseti, sá mæti maður, er í rauninni að magna þennan ófrið, sem hann vill forðast, með því að fylgja þessu máli fram.

Hv. 6. þm. Reykv. benti hv. meiri hl. n, á það, sem er kannske mjög eðlilegt, að það, sem þeir hafa verið að reyna að lappa upp á frv, með sínum brtt, og sumpart hefur verið samþykkt, er enn þá margt í óvissu og margt óljóst, svo að það er sýnilegt af þeirra vinnubrögðum, að þeir hafa komið að þessu máli jafnókunnugir og aðrir deildarmenn og hefur ekki unnizt tími til þess að gera úr því frambærilegt frv., eins og liggur fyrir á þskj. 153, og taldi hv. 6. þm, Reykv. upp í mörgum liðum, hvað væri óljóst og hvað hefði mistekizt af þessu máli. Hann fór þó ekki svo langt, að hann minntist á 6. greinina, — jú, hann fór svo langt, að hann minntist á 6. greinina, en hann minntist ekki á bannið við að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma, eins og þar stendur. Þar stendur, í 6. gr., meðal annars, sem er bannað: að hafa flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni á bifreiðum, meðan kjörfundur stendur yfir, svo og að nota gjallarhorn til áróðurs á sama tíma. — Það er ekki talað um, hvar þetta gjallarhorn má ekki nota, Það virðist vera, að það megi enginn nota gjallarhorn neins staðar eftir ákvæðum 6. gr.

Það getur verið, að tilgangurinn sé sá, að gjallarhorn megi ekki vera á bifreiðum, en það stendur ekki í greininni, og ef einhver maður er að nota gjallarhorn þennan dag, sem um er að ræða, jafnvel þó að það sé í úthverfum bæjarins eða fjarri, þá getur það sennilega fallið undir þann skilning, að það sé þarna verið að fremja ólöglegt athæfi. Þetta veit nú náttúrlega hv. þm. Ak., sem er lögfróður og glöggur, en samt sem áður hefur honum ekki unnizt tími til þess að koma þessu gjallarhornsmáll í það horf, að það væri skiljanlegt, hvar það væri, sem gjallarhornið mætti vera og ekki vera. Eftir greininni, eins og hún er nú, má það hvergi vera í notkun að minnsta kosti.

Ég vildi svo óska þess, að frv. yrði lagfært í Nd., úr því að það hefur ekki tekizt hér að lagfæra það svo sem skyldi, til þess að það yrði frambærilegt. Það er enn óframbærilegt. En það er frambærilegra að vísu en það var, þegar það var lagt fram. Og sérstaklega vildi ég vonast til þess, að uppskera hæstv. forseta af friðnum yrði eitthvað meiri í framtíðinni en frv. enn þá gefur tilefni til.