26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

89. mál, glímukennsla í skólum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég frv. til laga um að skylda unglinga á vissu aldursskeiði til að gangast undir glímukennslu í skólum. Þetta frv. fékk að vissu leyti góðar undirtektir, þ.e.a.s. hugmyndin um að reyna að efla veg glímunnar með aukinni glímukennslu í skólum, en þó létu margir í ljós þá skoðun, að það mundi of langt gengið að gera glímuna að skyldunámsgrein, hliðstætt því, sem sundið er.

Ég hef nú á þessu þingi í samráði við marga kunnuga og góða menn, ekki sízt hv. 2. flm., fallizt á að breyta þessu máli og leggja ekki höfuðáherzlu á, að þetta verði gert að skyldu, en reyna heldur með þáltill. að fá því framgengt, að ýmiss konar ákvæði, sem þegar eru fyrir í lögum og reglugerðum, verði framkvæmd, en ekki látin liggja sem dauður bókstafur, en árangurinn verði væntanlega svipaður því, sem ég hafði hugsað mér í upphafi.

Þess vegna kemur málið nú fram, flutt af fjórum hv. þm., í þessari breyttu mynd. Og þar sem höfuðtilgangur minn með því að hreyfa þessu í upphafi var sá að reyna að kynna fleiri ungum mönnum glímuna og stuðla að því að halda henni við með því að sýna henni meiri áhuga í skólunum og enn fremur að ég vænti þess, að þessi till. geti stuðlað verulega að þeim tilgangi, þá vil ég vona, að hún nái fram að ganga.

Ég vil svo án frekari ræðu vísa til grg. og annarra augljósra staðreynda varðandi þetta mál, en leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.