26.02.1958
Sameinað þing: 30. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (2388)

89. mál, glímukennsla í skólum

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég er ekki hræddur við það, sem hér hefur komið fram, að það hefði nein sérstaklega skaðleg áhrif, þó að unglingar, já, jafnvel á barnaskólaaldri, lærðu glímu. A.m.k. varð ég ekki var við það í mínu ungdæmi, að það hefði nein skaðleg áhrif á mig eða aðra unglinga, þó að þeir glímdu, en þá var það algengt, að drengir glímdu, þegar þeir hittust. Það hittust varla tveir strákar svo, að þeir færu ekki í glímu. Ég segi fyrir mig, ég hef aldrei glímumaður verið og stóð mig ekkert sérstaklega vel í glímu á mínum yngri árum, en ég varð ekki var við það, að það skapaði hjá mér neina minnimáttarkennd. Og ef glíman yrði viðhöfð á sama hátt eins og gert var í gamla daga, þá held ég, að það hefði engin skaðleg áhrif, því að það voru einmitt þeir mennirnir og þeir drengirnir, sem beittu fantabrögðum og níddust á þeim, sem minni máttar voru, sem urðu fyrir skömminni í gamla daga, en ekki þeir, sem fóru halloka.

En það er annað atriði í þessu máli, sem hv. þm., sá sem hér hreyfði andmælum, vék aðeins að, hv. 7. landsk. þm., og hann komst þannig að orði, að það mundi ekki veita af að kenna kennurunum fyrst að glíma, áður en lögleidd væri glíma í skólum. Það er orðið svo með glímuna eins og fjöldamargt annað, að það eru bara einstakir menn nú, sem glíma. Þetta er orðið sérgrein að glíma. Eins var í gamla daga t.d. með sönginn. Í kirkjunum söng hver maður, og á samkomum víða var það svo, að þegar farið var að syngja á annað borð, þá sungu allir, en nú taka menn varla undir, heldur eru það sérstakir kórar, sem syngja. Eins eru það nú orðnir sérstakir menn, sem æfa glímur, sýna þær stundum, keppa stundum, en almenningur er hættur að glíma og hættur að kunna það. Og ég er alveg viss um það og hef nokkra þekkingu á því, að það eru til heilir skólar með mörgum kennurum, þar sem enginn einasti kennarinn kann að glíma og hefur aldrei glímt á ævinni. Ég er því ákaflega hræddur um, að þessi till. verði óframkvæmanleg, nema því aðeins að gerðar séu alveg sérstakar ráðstafanir til þess, og gæti hún þá ekki komið til framkvæmda, fyrr en eftir æði mörg ár, þó að ákveðið væri t.d. að taka upp glímukennslu í kennaraskólanum.

Sums staðar er það, þar sem einn er kennari við smærri skóla, t.d. í sveit, að þar eru nú kvenmenn kennarar, og ég er hræddur um, að það gengi eitthvað illa, að þær kenndu glímu. Þó hef ég þekkt það, að einstaka kvenmaður hefur kunnað að glíma í gamla daga. Þess hef ég vitað dæmi.

Ég vil vitanlega styðja að því, að þessi till. verði athuguð, en ég vil, að þetta atriði einmitt verði tekið til athugunar af þeim, sem eru því meðmæltir, að glímukennsla verði almenn í skólum, hvernig á að verða mögulegt að framkvæma slíkt, eins og nú er komið.