07.05.1958
Sameinað þing: 43. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2393)

89. mál, glímukennsla í skólum

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég vil með örfáum orðum gera grein fyrir minni afstöðu til till., sem ég er meðflm. að.

Í 14. gr. íþróttalaga frá 1940 segir svo: „Enn fremur skulu piltar í öllum skólum eiga kost á tilsögn í íslenzkri glímu. Skal sú kennsla fara fram samkvæmt glímureglum Í.S.Í. á hverjum tíma.“

Till., sem fyrir liggur á þskj. 155, fer ekki fram á annað og meira, en að þessu ákvæði gildandi laga sé framfylgt. Virðist ekki til mikils mælzt, að stjórnarvöldin fari að framkvæma lög, sem eru orðin 18 ára gömul. En hér vantar mikið á, ef marka má orð íþróttafulltrúa ríkisins. Hann segir, að 60% skólanna hafi ekki aðstöðu til glímukennslu, að til séu skólar í Reykjavík, þar sem engir möguleikar séu til leikfimiiðkana, og meira að segja, að engir barnaskólar í Reykjavík geti veitt nemendum sínum aðstöðu til fimleika í samræmi við reglugerðarákvæði.

Þetta er aum saga, og ekki var mér það ljóst, að ástandið væri svona slæmt. Má gera ráð fyrir, að enn líði langur tími, þar til unnt verður að fullnægja ákvæðum laga í þessu efni og það jafnvel þótt stjórnarvöldin bregði skjótt við, en það ber þeim auðvitað að gera. Bygging nauðsynlegra fimleikahúsa kostar áreiðanlega milljónir króna. 60 þús. kr. fjárveiting til umferðarkennara í glímu er hreinir smámunir hjá því. Samt sem áður ber að mínum dómi að samþykkja þáltill. um glímukennslu í skólum, fyrst og fremst vegna þess, að hún er ekki annað en krafa um, að lögum sé fylgt.

Í íþróttalögunum stendur, að piltar í skólum skuli eiga kost á tilsögn í íslenzkri glímu. Hér er ekki um skyldu að ræða, sem betur fer, heldur frjálst val. En hverjar skyldu nú óskir piltanna vera í þessu efni? Um þær veit víst enginn, þótt allt standi og falli með þeim. Mér þætti vel til fallið, að hæstv, ríkisstj.till. samþykktri hæfi aðgerðir sínar á því að kanna hug skólaæskunnar til málsins. Mætti sem bezt gera skoðanakönnun meðal pilta í skólum og fá þannig vitneskju um, hve mikill hluti þeirra óskar að læra glímu. Yrðu þeir margir, sem þess óskuðu, væri sjálfsagt að vinna að því á næstu árum, að ákvæðinu um glímukennslu yrði fullnægt. Ef í ljós kæmi hins vegar mjög lítill áhugi á glímunámi, þá er spurning, hvort ekki væri rétt að nema hreinlega úr gildi ákvæðið um glímukennslu í skólum. En till., sem fyrir liggur, á sem sagt fullan rétt á sér að mínum dómi þrátt fyrir þessar aths.