14.12.1957
Efri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

73. mál, kosningar til Alþingis

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta frv, það mikið og rekja það sundur lið fyrir lið, þannig að heita má, að nú standi ekki eftir annað, en lítt hugnanleg beinagrind. Þarf ég því ekki að fara mörgum orðum um frv. í heild né einstakar greinar þess. En það var m.a. til þess að taka upp hanzkann fyrir hinn almenna kjósanda, sem ég kvaddi mér hljóðs, áður en umr. yrði lokið, og sérstaklega af því tilefni, að hv. stjórnarsinnar, aðallega hv. 1. þm. Eyf. og hv. þm. Ak., töluðu mikið um það, að gengið væri fast fram í því að þvinga menn til að kjósa, að smala kjósendum eins og fénaði á kjörstað og annað slíkt. Þeir hafa ef til vill ekki athugað, að með því að undirstrika þetta atriði svo mjög sem þeir gerðu, er sneitt að hinum almenna kjósanda í landinu. Það eru ekki ýkja margir menn, sem láta smala sér á kjörstað og láta segja sér fyrir verkum, hvernig á að kjósa.

Ég minnist eins atviks vestan úr Dölum frá síðustu kosningum. Þar var svo ástatt, að á einu sveitaheimili hafði fólkið ákveðið að kjósa ekki. Sérlegur útsendari frá Framsfl. fór á það heimili snemma dags, sat yfir fólkinu, en þegar það dugði ekki til, var þm, Dalamanna kvaddur á vettvang. Þessir tveir menn slógu sér til rólegheita nokkrar stundir kjördags og höfðu áróður í frammi, en allt kom fyrir ekki. Fólkið sat við sinn keip, fór hvergi og kaus ekki. Þannig hygg ég, að kjósendur hagi sér, sem á annað borð eru ákveðnir í því að neyta ekki kosningarréttar síns. Hitt, að það sé almennt í lófa lagið að smala fólki á kjörfund og leggja því upp í hendurnar, hvern frambjóðanda það eigi að kjósa, — það held ég að sé langt frá því að vera nokkur meginregla, síður en svo.

Þá vil ég vekja athygli á því, að það hefur enginn hv. þdm. mælt með hinum svokölluðu næturheimsóknum, sem dálitið hefur verið rætt um. Það hefur m.ö.o. engin rödd komið fram um það í hv. þd., að kjörfundur ætti að standa lengur en til 12 á miðnætti. Hins vegar hefur því verið haldið fram skýrt og greinilega, að eðlilegt væri, að kjósandi hefði rétt til að neyta þessa mikilvæga réttar til loka kjördags. Það er því aðeins ein klukkustund, sem raunverulega um er deilt í þessu tilliti. En á hinn bóginn, þótt ég sé á engan hátt að mæla því bót, að rekinn sé heiftugur áróður og miklar smalamennskur í sambandi við kosningar, þá verð ég að segja það, að ekkert er eðlilegra í landi, þar sem fólki er frjálst að hafa skoðanir, mynda stjórnmálaflokka, skipa sér í ákveðnar fylkingar fyrir sínum hugðarmálum, — enginn hlutur er eðlilegri, en fólkið sé af og til minnt á, að það á þennan rétt, kosningarréttinn, og einnig, að þessum rétti fylgja nokkrar skyldur. Okkur hættir við að telja ýmis mikilvæg réttindi það sjálfsögð, að við næstum gleymum þeim. T.d. er það svo með andrúmsloftið, að við munum ekki eftir því, hvað það er okkur lífsnauðsynlegt, en flestum verður það þó á að taka andköf, þegar sá lífgjafi er fjarlægður frá þeim.

Þannig hygg ég það fyllilega réttmætt að minna fólk einstöku sinnum á það, ekki sízt í kringum kosningar, að kosningarréttinum, þessum heilaga og sjálfsagða rétti, sem okkur finnst í lýðræðislöndum, fylgja einnig nokkrar skyldur, og er það ekki nema sjálfsagt og mjög eðlilegt og má heita nokkurs konar eðlislögmál, að hverjum rétti fylgi nokkur skylda.

Ég lít svo á, að þeir, sem á annað borð vilja búa við ríkjandi þjóðskipulag og vinna að endurbótum þess og framtíðarþróun allri, ættu að minnast þess og hafa það hugfast, að það er í raun og veru siðferðisskylda hvers borgara að kjósa rétt eftir sinni beztu sannfæringu. Ef mönnum gleymist þessi skylda, þá er hætt við því, að svo fari með tímanum, að yfir þjóðina færist sinnuleysi og afskiptaleysi af stjórnmálum, en það er, eins og við vitum allir, hinn ákjósanlegasti grundvöllur fyrir einræðisöfl til að halda innreið sína.

Eins og ég sagði í upphafi, þarf ég ekki að fara mörgum orðum um frv. né einstakar greinar þess og get því stytt mál mitt. Eins og hv. þdm. vita, hafa komið hér fram nokkrar till. við frv., sem ekki er búið að greiða atkv. um, m.a. sú till. frá hv. þm. V-Sk. að lögbjóða það, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 árdegis á kjördag, en ekki kl. 10, eins og í frv. stendur. Við þessa till. eða vegna hennar hefur hv. þm. Ak, flutt brtt. þess efnis, að yfirkjörstjórn í kaupstöðum geti þó ákveðið, að kjörfundur skuli hefjast kl. 9 árdegis, enda sé þá öll kjörstjórnin mætt, ef ég hermi rétt eftir minni.

Í sambandi við þessa till. og í beinu framhaldi af henni hef ég leyft mér að bera fram brtt. við frv. skriflega. Hún er við 2. gr. frv. og hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Síðari málsgr. 2. Gr. frv. orðist svo: Kjörfundi skal þó eigi slíta síðar en kl. 23 á kjördag. Yfirkjörstjórn í kaupstöðum getur þó ákveðið, að kjörfundur skuli standa til kl. 24. Þeir kjósendur, sem hafa gefið sig fram fyrir þann tíma, eiga þó rétt á að greiða atkv.

Ég leyfi mér að leggja saman tvo og tvo og gera ráð fyrir því, eftir því sem mál hafa ráðizt hér í vetur, að till. hv. þm. V-Sk. verði felld, en till. hv. þm. Ak. verði samþ. Ég sé því ekki betur en það sé í fullu samræmi við till. hv. þm, Ak, um það, að heimilt sé að flýta kjörfundi um eina klukkustund í vissum tilfellum, að einnig sé heimilt að færa kjörfund aftur um eina klukkustund, ef svo verkast vill. Ég skal vekja athygli á því, að ég hef orðað brtt. mína nákvæmlega eins og hv. þm. Ak. orðaði sína, enda skammast ég mín ekkert fyrir að nota mér svolítið af hans orðalagi. Við erum orðnir kunnugir af samvinnu í n., og hefur farið ágætlega á með okkur. En ég fæ ekki betur séð en nákvæmlega sömu rök liggi til þess að samþ. þessa brtt. mína eins og brtt. hv. þm. Ak. Ég hef svo ekki fleiri orð um þetta, en leyfi mér að rétta hæstv. forseta þessa brtt.