30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (2428)

180. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég get búizt við því, að það sé alveg rétt stefna að breyta til um veginn á þennan hátt eða taka hann úr Almannagjá, eins og hv. frsm. tók fram, Ég skal ekkert um það segja, hvort hægt er að taka í þetta fé af þeim sjóðum, sem vegamálaráðuneytið hefur yfir að ráða, svo sem hv. þm, drap á. Ég er ekki nógu kunnugur þeim málum til þess að segja neitt um það, en þó er mér kunnugt um, að þar er fullkomlega setinn bekkurinn og mikill þrýstingur að koma þar inn vegum, t.d. í sambandi við það fé, sem ætlað er til vega á milli héraða.

Ég lít þannig á, að það sé tekin stefna um þetta vegagerðarmál með þessari þáltill. En ég geri ráð fyrir því, að þetta verði þannig, að ef úr framkvæmdum á að verða, svo að nokkuð geti heitið, þá yrði að taka á næstu fjárlög fúlgur í þennan veg og þá sömuleiðis til brúargerðarinnar. Þætti mér ekki ólíklegt, að þessi yrði niðurstaðan. Ég stóð ekki upp til að mæla á móti till., heldur til þess að benda á þetta.