30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í D-deild Alþingistíðinda. (2430)

180. mál, vegakerfi á Þingvöllum

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í framhaldi af því, sem ég sagði hér áðan um þetta mál, get ég aðeins tekið það fram, að n. með þessari afstöðu sinni lítur ekki svo á, að till. skuldbindi endilega vegamálastjórnina til þess að ljúka þessari vegagerð á þessu ári. En till. að sjálfsögðu eins og fjvn. skilur við hana og eins og hún er vafalaust meint af flm. upphaflega, miðar að því, að hafizt verði handa hið fyrsta um þessa vegarlagningu, hversu langt sem henni kynni að geta miðað á þessu yfirstandandi ári. Varðandi það, sem hæstv. fjmrh. sagði hér um fjárveitingar á fjári. til þessarar vegagerðar, þá get ég getið þess, að í umræður bar í fjvn., þótt ekki komi það beinlínis fram í nál., að a.m.k. að því er varðar brúna á Öxará, sem þessari vegagerð er samfara, þá sé líklegt, að þegar ákvarðað verður á næsta ári um fé til brúa, þá komi þessi fyrirhugaða brú þar til álita. Þetta vildi ég sérstaklega taka fram.

Auk þess má geta hins, að það hefur verið og er árlega nú varið allmiklu fé af benzínskatti til þess að tryggja sem bezt vegasambandið á milli byggðanna á Suðurlandsundirlendinu og aftur hér við Faxaflóa, og n. þykir sem ekki sé frágangssök að hugsa sér það, að því fé, er verja á til vegagerðar á þessum slóðum, verði að einhverju varið einmitt í þennan veg, því að hann hefur sýnt sig í því að vera allmikil samgöngubót að vetrinum, stundum þegar Hellisheiði er teppt, á milli þessara byggða.