12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í D-deild Alþingistíðinda. (2440)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er síður en svo nokkuð óeðlilegt við það, þó að menn vilji láta endurskoða, hvar embætti og ríkisstofnanir séu bezt niður komin, og mér finnst ekki nema eðlilegt, að Alþ. taki vinsamlega till. um það, að slík athugun eigi sér stað. Hins vegar efast ég mjög um, að það sé rétt að láta þá athugun fyrst og fremst vera mótaða af staðarlegum sjónarmiðum úti um landið eða í Reykjavík. En eftir þeirri ályktun, sem hér er fram borin, eru það fyrst og fremst staðir úti um land og fulltrúar þeirra réttara sagt, sem eiga að endurskoða þetta atriði. Hverja stofnun og hvert embætti á að setja þar niður, sem eðlilegast er frá heildarsjónarmiði þjóðarinnar allrar, en ekki með sérhagsmuni einstakra staða, hvorki Reykjavíkur né fjórðunga úti um land, fyrir augum. Ef menn vilja því láta þessa athugun fara fram og setja til þess sérstaka milliþn., þá tel ég langeðlilegast, að sú nefnd sé kosin hlutfallskosningu í Sþ., þannig að sú mynd þjóðarviljans, sem hér kemur fram og að vísu er ekki rétt og er Reykvíkingum mjög í óhag, verði ekki skekkt enn þá frekar, en er þó nú þegar með skipun Alþ., en gert mundi og gerð úr hrein skrípamynd, ef athugunin yrði gerð með þeim hætti, sem lagt er til í þeirri þáltill., sem hér er fram borin.

Ég vil skjóta þessari athugasemd til þeirrar n., sem málið fær til meðferðar.

Ég vil enn fremur vekja athygli á því, að ef það yrði ofan á að gefa héraðsþingum eða fjórðungsþingum færi á því að tilnefna fulltrúa í slíka nefnd, þá er auðvitað jafnsjálfsagt að gefa Reykjavík færi á því að tilnefna a.m.k. einn fulltrúa á borð við aðra þá aðila; sem tillögumenn telja þetta mál skipta mest.

Með þessu segi ég engan veginn, að það sé eðlilegt að hafa öll þau embætti og stofnanir í Reykjavík, sem nú eru hér. Það má sjálfsagt margt um það segja og taka það upp til endurskoðunar. Eins og ég segi, ég hef sízt á móti því, að sú endurskoðun eigi sér stað, en menn komast ekki hjá því að athuga, að þegar t.d. talað hefur verið um, að flytja ætti biskupssetur austur að Skálholti, þá er það í raun og veru, eins og nú háttar, ekkert sérstakt hagsmunamál Reykjavíkur, að biskupinn sé endilega búsettur hér. En ég þori að fullyrða, að fyrir meginþorra landsmanna, einnig utan Reykjavíkur, er mun hægara, að hann sé búsettur í Reykjavík, heldur en í Skálholti, vegna þess að fyrir alla þá, sem erindi hafa við biskup, og það eru vitanlega æðimargir, ekki prestarnir einir, þó að þeir komi þar mjög til álita, er miklu hægara að ná tali af honum hér í Reykjavík, heldur en ef þeir þyrftu að gera sér ferð, oftast nær sérstaka, austur til Skálholts. Ég tala um þetta sérstaka dæmi vegna þess að, að því hefur oft verið vikið, og það eru sannarlega ríkar sögulegar ástæður, sem mæla með því, að biskupsdæmi væri endurreist í Skálholti. En í nútímaþjóðfélagi hygg ég þó, að það yrði öllum almenningi, ekki Reykvíkingum út af fyrir sig fremur en öðrum, mjög óhagstætt, að þannig yrði farið að.

Varðandi athugasemdir hv. 1. þm. N-M. (PZ), þá eru þær mjög frumlegar og lýsa hans snilligáfu eins og ýmislegt, sem frá honum hefur heyrzt. Ef sama hugsunarhætti ætti að fylgja, þá ætti að gera ráðstafanir til þess t.d., að engu ríkisfé væri varið í neinu sveitarfélagi eða sýslufélagi á landinu öðru en því, sem þaðan kemur. Er hv, þm, því sammála? Er það virkilega hans meining, að þannig eigi að halda á, að í enga sýslu, ekkert hérað, eigi að koma neitt fé annað en það, sem tekið er af borgurunum í sama héraði með skattálagningu? Ef ekki á að láta önnur lög í þessu gilda fyrir Reykvíkinga en aðra, er óhjákvæmilegt framhald af hugsun hv. þm. þetta, og það er mjög fróðlegt að heyra sveitavináttuna birtast hjá þessum svokallaða postula hennar með þessari frumlegu till., og hún skal ekki gleymast. En hitt er svo mál fyrir sig, að það er auðvitað óhjákvæmilegt, að hinir betur stæðu staðir borgi til þeirra, sem aftur úr eru, og ég segi fyrir mitt leyti, að sem fulltrúa Reykvíkinga kemur mér ekki til hugar að fallast á þessa till. hv. þm. N-M., vegna þess að hún mundi víðast hvar horfa til landauðnar nema í allra þéttbýlustu stöðum á þessu landi.

En varðandi útsvörin að öðru leyti, þá eru þau vitanlega lögð á vegna þess, að verið er að sinna þörfum þeirra borgara, sem í hverju bæjar- eða sveitarfélagi búa. Það þarf ekki síður að sinna þörfum manna, sem hér eru búsettir í Reykjavík, þó að þeir hafi sín laun frá ríkinu, heldur en þó að þeir hafi þau með öðrum hætti, og það eru þær þarfir samfélagsins, sem koma af búsetu manns á tilteknum stað, sem er verið að sjá fyrir og borga fyrir með útsvörunum, og þess vegna einnig að því leyti lýsir þessi till. því, að hv. þm. N-M., svo snjall sem hann annars er, hefur ekki hugleitt þetta mál til neinnar hlítar.

Loks er svo það, án þess að ég skuli fara út í töluupptalningu eða meting við hv. þm., að ég hygg, að það muni verða víðs fjarri, að starfsmenn ríkisins borgi hér 30 eða 40% af allri útsvarsupphæðinni í bænum. Ég veit það, að hv. þm. hyggur sig muna það, og ég met hv. þm. mjög mikils og veit, að hann segir aldrei ósatt vísvitandi, en það hefur nokkuð oft hent hann að rugla saman tölum.