12.02.1958
Sameinað þing: 26. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (2441)

54. mál, aðsetur ríkisstofnana og embættismanna

Flm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Út af þeirri ræðu, sem hv. 1. þm. Reykv.(BBen) flutti hér áðan, vil ég taka það fram til þess að koma í veg fyrir misskilning, að í þessari till. er ekki beinlínis gert ráð fyrir því, að skipuð verði nefnd til þess að athuga þetta mál. Till. er ekki um nefndarskipun. Hún er um það að skora á ríkisstj. að láta tiltekna endurskoðun og athugun fara fram, en það er að öðru leyti látið óbundið í till., á hvern hátt að endurskoðuninni verði unnið, nema þar sem gert er ráð fyrir, að til verði kvaddir fulltrúar frá fjórðungssamböndunum.

Í sambandi við þetta mál yrði að sjálfsögðu leitað álits ýmissa stofnana og embættismanna, sem þarna eiga í hlut, og svo fulltrúa fjórðungssambandanna, og niðurstaðan gæti auðvitað orðið sú, að það yrði að lokum sett á laggirnar nefnd til þess að vinna úr þeim umsögnum, sem fram kæmu, og því efni, sem þá væri fyrir hendi, en í till. er ekki beinlínis gert ráð fyrir nefndarskipun.

Hv. 1. þm. Reykv, sagði, að ef fulltrúum frá fjórðungsþingum Austfirðinga, Norðlendinga og Vestfirðinga væri gefinn kostur á að fjalla um þetta mál, þá ættu að sjálfsögðu að koma til fulltrúar frá Reykjavík. Ég geri ráð fyrir, að það kæmi af sjálfu sér, að þarna yrði leitað álits margra manna, sem eru búsettir í Reykjavík. En í till. er líka alveg sérstaklega tekið fram, að ætlazt sé til að fulltrúi frá fjórðungssambandi Sunnlendinga, ef það verður stofnað, taki þátt í þessari athugun. Og ég geri ráð fyrir því, að ef fjórðungssamband yrði stofnað, þá mundi Reykjavík vera þátttakandi í því.

Að öðru leyti gaf ræða hv. þm. ekki tilefni til frekari umræðna um till. af minni hálfu, Hann nefndi eitt sérstakt dæmi, till., sem komið hefði fram um flutning tiltekins embættis, þ.e.a.s. flutning biskupsstólsins frá Reykjavík að Skálholti. Till. um það efni lá fyrir síðasta Alþ. Ég tel ekki rétt að ræða þetta atriði sérstaklega í sambandi við þessa almennu till. En ég get ekki fallizt á það, sem hv, þm. sagði, að það mundi valda erfiðleikum fyrir presta landsins, þó að biskupinn væri búsettur í Skálholti.