12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í D-deild Alþingistíðinda. (2455)

141. mál, afnám tekjuskatts

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég tel, að í till. þeirri, sem hér liggur fyrir til umr., sé í sjálfu sér merku máli hreyft, og mun styðja samþykkt hennar. Ég hefði að vísu fyrir mitt leyti kosið, að í till. hefði nánar verið kveðið á um það, með hverjum hætti sú rannsókn, sem hér er um að ræða, ætti að fara fram. En það atriði mun sjálfsagt verða tekið til meðferðar í þeirri hv. n:, sem um þetta mál kemur til með að fjalla, og skal ekki fjölyrt meira um það hér.

Það hefur þegar komið fram, að vissulega kemur það að ýmsu leyti úr óvæntri átt, að hv. Alþfl.-menn flytja till. þessa efnis, því að það hefur löngum verið þeirra stefnumál eins og annarra jafnaðarmannaflokka hér í Evrópu að hafa skattana, eins og það er orðað, „beina“, en ekki „óbeina“, þannig að um stefnubreytingu er að ræða. Með tilliti til þess, að vitað er, að tekjuskatturinn hefur hins vegar ekki fullnægt þeim vonum, sem við hann voru bundnar, þá tel ég það síður en svo hv. flm. til ámælis, þó að þeir hafi breytt um stefnu í þessu efni, heldur þvert á móti, því að hér má vitna til málsháttarins, að það er mannlegt að skjátlast, en heimskingjanna að vaða áfram í villunni.

Ég leyfi mér því næst að víkja dálítið að efnishlið málsins.

Það mun varla vera ágreiningur um það nú, að á tekjuskattinum eru margir og stórir ágallar. Þó er það þannig að mínu áliti, að þessir ágallar eru í ríkara mæli framkvæmdalegs eðlis heldur en það, að slíkir skattar séu í sjálfu sér óréttlátir. Tilfellið er, að séu menn sammála um það, að skattana beri að verulegu leyti að leggja á eftir efnum og ástæðum, þá er erfitt að finna annan betri mælikvarða á efnahag manna, heldur en tekjurnar. En ástæðan til þess, að þær vonir, sem við tekjuskattinn hafa verið tengdar, hafa brugðizt í þeim mæli, sem raun er á, er sú, að á framkvæmd tekjuskattsins hafa sýnt sig að vera þeir örðugleikar, að álagning hans hefur ekki náð tilgangi sínum. Og í sambandi við þetta er meginatriðið það, að það er vitað mál, að mjög mikið af tekjunum í þjóðfélaginu telst ekki fram. Í þessu efni verður að byggja á því, að menn gefi tekjur sínar upp sjálfir, eða á framtölum manna. Meðan slíkir skattar eru innan hóflegra takmarka, er kannske ekki ástæða til að ætla, að mjög mikil brögð séu að því, að tekjur séu sviknar undan skatti eða ekki talið rétt fram. Meðan skatturinn nemur t.d. ekki meira en 5 eða 10% eða eitthvað svo, þá kinoka menn sér við því að gefa drengskaparyfirlýsingu um, að þeir telji rétt fram, og ekki ástæða til þess að ætla annað en tekjurnar teljist rétt fram í meginatriðum. Allt öðru máli gegnir, þegar þessir skattar eru orðnir svo háir, að það verður verulegt atriði fyrir fjárhagsafkomu manna, hve háa skatta þeir eiga að greiða, — eða þegar jafnvel er svo komið, sem hefur verið upplýst hér fyrr í vetur á hv. Alþingi, eins og er tilfellið nú með ýmis fyrirtæki, að þau verða að greiða meira en 100% í alla skatta, þá er líf fyrirtækjanna beinlínis undir því komið, að þau sleppi að einhverju leyti við slíkar skattgreiðslur — þá fara menn að líta á það sem nauðvörn gegn óhóflegri skattaálagningu að telja ekki rétt fram.

Það er erfitt að fullyrða á einn eða annan hátt um það, hve mikil brögð séu að því, að tekjur séu ekki rétt taldar fram. Ég vil þó leyfa mér í sambandi við þetta að nefna tölur, sem byggðar eru á athugunum í þessu efni. Það hefur komið í ljós við samanburð á þjóðartekjunum, gerðum upp eftir skattframtölum annars vegar og með öðru móti, að tekjurnar samkvæmt skattframtölum eru 20–25% lægri, en ef þær eru gerðar upp á annan hátt, þar sem gera má ráð fyrir því, að öll kurl komi frekar til grafar, en ef við skattframtölin er miðað.

Athuganir sama efnis, sem gerðar hafa verið í nágrannalöndunum, hafa leitt til svipaðrar niðurstöðu, og er það út af fyrir sig sönnun þess, að víðar er pottur brotinn í þessum efnum en hjá okkur. En þetta ætti að gefa til kynna, að það sé a.m.k. fimmtungur eða fjórðungur þjóðarteknanna, sem ekki telst fram til skatts, og það er auðvitað verulegur hluti.

Af þessu leiðir líka annað, nefnilega það, að þar sem maður veit, að fjölmennar þjóðfélagsstéttir hafa ekki aðstöðu til þess að koma tekjum sínum undan skatti, eins og á við um flestalla launþega, þar sem tekjur þeirra eru taldar fram af öðrum, þá leiðir af þessu, að sé tekjuskatturinn verulegur liður í tekjuöflun hins opinbera, þá kemur slíkur skattur mjög ranglátlega niður.

Það hefur oft verið fullyrt í þessu sambandi, að ráðið til þess að bæta úr slíku væri fullkomnara skattaeftirlit. Ég tel, að þeir menn, sem segja svo, hafi ekki gert sér fulla grein fyrir því, sem í rauninni er hér kjarni málsins, en um það má náttúrlega deila fram og aftur, hversu fullkomið skattaeftirlitið sé. Ég tel það þó með öllu ósannað mál, að skattaeftirlitið hér sé slælegra en annars staðar gerist, og persónulega er það skoðun mín, að þeir embættismenn, sem hafa skattaeftirlitið með höndum, gegni störfum sínum samvizkusamlega eins og aðrir embættismenn.

Nei, meinsemdin liggur dýpra en svo, að það sé hugsanlegt að bæta úr henni með því að koma á fullkomnara skattaeftirliti, þó að ráðstafanir væru til þess gerðar.

Sannleikur málsins er nefnilega sá, að það eru mjög fjölmennar stéttir í þjóðfélaginu, sem hafa þá aðstöðu, að það er algerlega óframkvæmanlegt að hafa eftirlit með tekjum þeirra. Á það við um alla þá, sem hafa sjálfstæðan atvinnurekstur með höndum og ekki eru bókhaldsskyldir, en hér er um að ræða mjög fjölmennar starfsstéttir. Það má nefna sem dæmi bifreiðarstjóra, handverksmenn, lækna, málflutningsmenn og fjöldamargar stéttir aðrar. Það mundi ekki verða bætt úr þessu með því að útvíkka bókhaldsskylduna frá því, sem nú er, vegna þess að hér er um slík störf að ræða, að ómögulegt er að hafa eftirlit með því, jafnvel þó að bókhaldsskylda væri, að það bókhald væri þá rétt. Það er í þessu, sem vandinn liggur, að það eru fjölmennar stéttir í þjóðfélaginu, sem hafa þannig aðstöðu, að það er óframkvæmanlegt að hafa eftirlit með tekjum þeirra. Þetta má engan veginn misskiljast sem svo, að ég haldi því fram, að þeir menn, sem í þessum stéttum eru, séu miður heiðarlegir en aðrir borgarar þjóðfélagsins, — það er síður en svo nein ástæða til slíks, — en það má aðeins benda á, að þeir hafa aðra og betri aðstöðu í þessu efni en aðrir.

Einnig er það að mínu áliti hættulegt fyrir þjóðfélagið, að í gildi sé löggjöf, sem er þannig, að e.t.v. annar hver borgari eða meira er brotlegur við hana. Fyrir siðferðið í þjóðfélaginu er slíkt hætta. Af þessu leiðir einnig annað, að refsingar, sem beitt er í þessu skyni, koma þá til að bitna af handahófi á einstaklingum, sem af tilviljun kemst upp um að hafa orðið brotlegir, þó að þeir séu sízt brotlegri en mikill fjöldi annarra borgara, sem sleppur með öllu við slíkt.

Vegna þeirra miklu ágalla, sem þannig eru á tekjuskattinum, finnst mér það meira en tímabært, að á því sé gerð athugun, svo sem hv. flm. þessarar till. leggja til, hvort ekki væri hægt að afnema slíka skatta. En stærsta vandamálið í sambandi við það er auðvitað það, sem þegar hefur verið bent á af öðrum, sem hér hafa talað á undan mér, nefnilega þetta, hvað ætti að koma í staðinn fyrir slíkan skattstofn, sem orðinn er svo stór liður í tekjuöflun ríkisins.

Í öðru lagi má benda á það, að eins og kunnugt er, þá eru útsvörin, sem eru í rauninni tekjuskattar, svo að segja eini skattstofn bæjar- og sveitarfélaga. En ef menn eru sammála um það, að tekjuskattar til ríkisins séu óréttmætir, þá er erfitt að koma auga á annað en sama máli gegni einnig um útsvörin. En ef það ætti að afnema þau einnig, þá yrði þetta vandamál enn stærra.

Í því sambandi er auðvitað ýmislegt, sem kemur til álita, og skal ég ekki fara út í að ræða þá hlið málsins, enda um of víðtækt málefni að ræða til þess. Sú mun og hugsun hv. flm., að sú athugun, sem hér er gert ráð fyrir að fari fram, beinist einkum að þessu. Ég saknaði þess þó nokkuð í grg. fyrir þessari till., að eini möguleikinn, sem þar var bent á, var að hækka óbeina skatta, tolla, söluskatta og slíkt. Auðvitað hlyti það að koma mjög til álita og af þeim tekjustofnum, sem almennastir eru, hafa auðvitað óbeinu skattarnir langmesta þýðingu.

Ég vil þó leyfa mér að benda á það, að í okkar nágrannalöndum hefur það mál mikið verið rætt að undanförnu, hvort ekki kæmi til greina í staðinn fyrir tekjuskattinn að leggja á svokallaða beina neyzluskatta, og var það mál m.a. til umræðu á þingmannafundinum í haust, þar sem fjmrh. Norðmanna flutti sína ræðu, sem hér hefur verið vitnað í. Beinu neyzluskattarnir mundu hafa þann kost, að þeir hafa ekki áhrif til hækkunar á verðlagi á sama hátt og óbeinu skattarnir, heldur frekar það gagnstæða. Hins vegar eru á því ýmsir framkvæmdarörðugleikar að leggja slíka skatta á, og þess vegna er málið ekki enn þá, að því er ég bezt veit, komið lengra en á umræðustig í okkar nágrannalöndum. En eðlilegt hefði ég talið, að sú nefnd, sem þessi athugun yrði falin eða hvernig sem sú athugun yrði framkvæmd, athugaði þetta mál sérstaklega, en ekki yrði einblínt á hækkun á óbeinu sköttunum, sem einnig hefur sína annmarka.

Að lokum ætla ég aðeins að minnast á annan lið tillögunnar, þar sem rætt er um að taka það fyrirkomulag upp, að skattar og opinber gjöld verði greidd jafnóðum af launum, eins og það er orðað. Þetta er auðvitað heldur engan veginn ný hugmynd og hefur verið rædd hér á landi töluvert að undanförnu, m.a. gerðar ályktanir þess efnis af ýmsum hagsmunasamtökum, m.a. Alþýðusambandi Íslands. Eins og eðlilegt er, þegar slík hagsmunasamtök gera ályktanir í þessu efni, hefur það leitt til þess, að till. um þetta efni hafa verið bornar fram hér á hv. Alþingi.

Það, sem mér skilst að sé hér um að ræða, er að taka upp hið svokallaða „pay-as-you-goprinsip“, eins og það er kallað í enskumælandi löndum, nefnilega að menn greiði gjöld sín jafnóðum af tekjum eða launum. Það kemur að vísu ekki glöggt fram í till., hvort gert er ráð fyrir því, að það séu aðeins önnur gjöld en skattarnir, sem séu greidd á þennan hátt. En ég skildi hv, frsm. þannig, að hann hefði þó hugsað sér, að svo lengi sem tekjusköttunum væri haldið, þá yrðu þeir einnig innheimtir með þessu móti.

Ég tel sjálfsagt, að þetta sé athugað, og vissulega hefur það ýmsa kosti, að skattar séu innheimtir jafnóðum af tekjum. En þó vildi ég leyfa mér að benda á, að það hefur komið í ljós í sumum þeim löndum, þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið tekið upp, eins og t.d. í Svíþjóð, að á því eru allmiklir framkvæmdaörðugleikar, Það er að vísu tiltölulega auðvelt, ef um gjöld er að ræða, sem vitað er fyrir fram hversu há muni verða, eins og t.d. tryggingagjöld og annað slíkt, að innheimta þau jafnóðum af tekjum. Sé hins vegar um að ræða gjöld, sem ekki er vitað fyrir fram hversu há muni verða, og það á einmitt við um tekjuskattinn í mjög verulegum mæli, þá kostar þetta í rauninni tvær niðurjafnanir. Fyrst er mönnum áætlað fyrir fram, hve mikinn skatt þeir eiga að greiða, en einmitt vegna þess, að það er ekki fyrir fram hægt að vita, hve miklar tekjur menn hafi á árinu, þá verður að taka þetta til endurskoðunar aftur og jafna niður að nýju og gera mönnum þá að greiða viðbót við skattinn eða endurgreiða mönnum, eftir atvikum, að því leyti sem niðurstaðan sýnir, að raunverulegar tekjur hafa vikið frá því, sem upphaflega var áætlað, þannig að hvað sem öðru líður, þá verður skattheimtan undir öllum kringumstæðum dýrari, ef þessari reglu er fylgt, heldur en ella.

Þetta má engan veginn skilja þannig, að ég sé að mæla á móti því, að slík athugun sé gerð, og í sjálfu sér heldur ekki, að þetta fyrirkomulag verði tekið upp. En þetta er hlið á málinu, sem ég álít að nauðsynlegt mundi vera að athuga sérstaklega í sambandi við það, og tel ég ekki rétt að slá því föstu, að þetta fyrirkomulag sé tekið upp, fyrr en menn hafa gert sér grein fyrir því, hvernig leysa á framkvæmdaörðugleika í sambandi við það.