12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (2456)

141. mál, afnám tekjuskatts

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt, að þær till., sem fram koma um athugun á okkar skattakerfi, séu teknar til ýtarlegrar athugunar og öllum þeim hugmyndum, sem þar koma fram, sé ýtarlegur gaumur gefinn og rannsakað, hvaða afleiðingar mundu af því verða, ef að slíkum till. yrði farið. Hér hafa nú orðið nokkrar umræður einmitt um þá till., sem hv. þingmenn Alþfl. flytja til rannsóknar á þessum efnum, og er ekki óeðlilegt, að nokkuð almennt sé um þetta rætt út frá því, ekki sízt af því, að ef sú yrði endanleg niðurstaða, sem að nokkru er gefið til kynna með till., þá mundi það tákna allmikla breytingu á þeirri stefnu, sem verið hefur í íslenzkri skattalöggjöf fram að þessu.

Í þeirri flokksstjórnarsamþykkt, sem þáltill. er byggð á, segir, með leyfi hæstv, forseta: „Flokksstjórnin (þ.e. flokksstjórn Alþfl.) telur, að stefna beri að breytingum á skattakerfi landsins í þá átt að gera það einfaldara og meira í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar.“

Ég býst við, að það muni allir vera sammála um, að þetta sé rétt, og það, sem hins vegar væri máske rétt að ræða í því sambandi og hefur komið ofur lítið fram í umræðum hér, er, hver sé réttarmeðvitund þjóðarinnar í þessu sambandi.

Í síðari hluta ályktunarinnar, sem hér er gerður um leið að uppistöðu, í þáltill., er ríkisstj. hvött til að athuga möguleikana á því, að tekjuskatturinn sé afnuminn með öllu, og fleira í því sambandi. Ég skil það sem svo af hálfu hv. þingmanna Alþfl., að þetta sé raunverulega athugun og rannsókn, sem þeir óski eftir að fram fari, og þó að hv. 1. flm., hv. þm, Hafnf., hafi flutt hér ýmsar röksemdir, sem einmitt mæli með því, að slík rannsókn fari fram, þá sé þar með ekki endilega gefið, að það sé endanleg niðurstaða á afstöðu flokksins, að tekjuskattinn beri að afnema, heldur að athuga beri möguleikana á því, þannig að þetta mál sé hér til umræðu til þess, að þm. geti látið sínar skoðanir í ljós almennt um þetta mál, og þá er náttúrlega um leið komið allmikið inn á allt okkar skattakerfi, en ekki hitt raunverulega, að fyrir liggi alveg fastmótuð till. um að gera slíkt, því að þá hefði hún vafalaust verið flutt öðruvísi.

Ég vildi út frá þessu fyrst mega ræða nokkuð um það, sem hér hefur verið komið inn á, ekki sízt af því, að sumir hv. þm., ekki sízt hv. þm. A-Húnv., tóku ákaflega djúpt í árinni um það, að fagna bæri því að afnema tekjuskattinn, — þá vil ég a.m.k. láta í ljós mínar hugmyndir um það, hver sé réttarmeðvitund þjóðarinnar og hvað væri í samræmi við hana í þessum efnum.

Ég held, — og það væri gott, að við værum sammála um það allir, þegar við erum að ræða þessi mál, — að það sé tvímælalaus réttarmeðvitund þjóðarinnar, að þegar greiða eigi í einu eða öðru formi gjöld til hins opinbera, hvort sem það heitir tekjuskattur, tollar eða hverjum nöfnum sem það nefnist og duglegir fjármálamenn og fjármálaráðherrar kunna að finna upp á í framtíðinni, þá sé réttarmeðvitund þjóðarinnar sú, að þeim beri að greiða meira, sem meiri hafa tekjurnar og meiri hafa auðinn, og þeim minna, sem minni hafa tekjurnar og minni eiga auðinn eða máske engan. Og ég held, að þegar við ræðum þessi mál, verðum við fyrst og fremst að koma okkur niður á, hver réttarmeðvitund þjóðarinnar sé í þessum efnum og hvernig við viljum þess vegna haga sköttum eða hvers konar öðrum álagningum á landsfólkið, ef við viljum hafa það í sambandi við réttarmeðvitund þjóðarinnar.

Sú eldgamla regla, sem alltaf hefur legið til grundvallar, frá því að fyrstu gjöld voru lögð á menn yfirleitt á Íslandi, er, að það sé jafnað niður eftir efnum og ástæðum. Meira að segja þetta gamla, sem enn þá er eins óljóst og það er orðað í útsvarslöggjöfinni, á rót sína alla leið til okkar þjóðveldis og hreppa fyrirkomulagsins þá og þeirra aðferða um gjöld, sem tíðkuðust, áður en kristni og áður en tíund varð til á Íslandi, þannig að það „prinsip“, að menn eigi að greiða til hins opinbera — það þýðir til náungans — því meira, því betri efni og því meiri tekjur sem þeir hafa, grundvallast á réttarmeðvitund, sem er eins gömul og okkar þjóð. Og ég vil a.m.k., að það sé alvarlega rætt hjá okkur, áður en við sláum því föstu, að út frá því eigi að hvika, enda heyrði ég það alveg á hv. frsm. þessa máls, hv, þm, Hafnf., að hann áleit, að þetta „prinsip“ ætti að leggja til grundvallar við gjaldheimtu hjá almenningi, en áleit, að hugsanlegt væri að finna, sökum þess, hve margháttaðar vörur væru nú notaðar í landinu og m.a. fluttar inn, aðra gjaldstofna en tekjuskatt, ef til vill, sem gætu fullnægt kröfum réttlætisins í þessum efnum, þannig að þess vegna mætti ef til vill afnema tekjuskattinn.

Ég vil þess vegna fyrst af öllu slá því föstu í sambandi við umr, um þetta mál, að það, sem okkur beri að vera sammála um, sé, að álagning á landsmenn eigi að vera í hlutfalli við þeirra efni og þeirra ástæður, því meiri tekjur og því meiri auð sem menn hafa, því meira beri þeim að greiða til hins opinbera, en þeim, sem lítið hafa eða ekkert, beri ekkert að greiða eða mjög lítið. Það þýðir með öðrum orðum, að það, sem í tekjuskattslögum hefur verið orðað þannig, að það ætti að vera stighækkandi af tekjum manna, — að sú regla sé rétt, — hvort heldur hún gildi um álagningu tekjuskatts eða hægt sé að framkvæma hana við álagningu tolla eða annarra gjalda á vörur, þjónustu eða annað slíkt, þá sé stighækkunar-„prinsipið“ út af fyrir sig réttlátt og því beri að framfylgja, hvort því hafi verið framfylgt á réttan hátt hins vegar eða praktískan, eins og gert hafi verið, er alltaf annað mál, það, hvort ein regla er rétt framkvæmd, er annað mál eða hvort reglan sjálf er rétt.

Þetta vildi ég nú segja fyrst um þá almennu afstöðu til þessara mála og taka þá fyrir í fyrsta lagi viðvíkjandi tekjuskattinum afstöðuna milli launþeganna annars vegar og atvinnurekendanna hins vegar. Það er ein af þeim röksemdum, sem hér hafa verið fluttar fram, og er þung röksemd, að tekjuskatturinn í því formi, sem hann sé nú, hvíli fyrst og fremst á launþegum, en ekki á atvinnurekstrinum, hlutafélögum og ýmiss konar félögum, sem atvinnurekstur stunda, eða jafnvel einstaklingum, sem atvinnurekstur stunda; þeim hafi verið beint eða óbeint gert það auðvelt eða hafi orðið það auðvelt að koma sér undan slíkum gjöldum, en hins vegar hafi launamenn orðið þarna harðast fyrir barðinu á af ástæðum, sem öllum eru ljósar, og þetta er vissulega röksemd um, að þarna beri að breyta til. En spurningin er þá: Á hvern hátt ber að breyta til?

Ef hlutafélög, ef stórir atvinnurekendur, ef slíkar heildir, sem græða allmikið eða eignast allmikið fé, greiða ekki réttilega tekjuskatt, er þá sjálfsagða afleiðingin, sem ber að draga þar út af, að það beri að afnema tekjuskattinn? Það er náttúrlega hægt að gera margt annað, það er hægt að breyta t.d. öllum þeim lögum, sem snerta bókhald og annað slíkt. Það er hægt að gera félögum það að skyldu, að bókhald sé haldið bókstaflega af því opinbera, og við vitum, eins og ég hef raunar bent á í sambandi við umræður um tekjuskattslög, sem núna liggja fyrir þinginu, að í löndum eins og Englandi og Bandaríkjunum er þetta framtal á tekjum, t.d. stórra hlutafélaga og annað slíkt, ekkert verulegt vandamál, þannig að þjóðfélagið getur í þessum löndum nokkurn veginn gengið út frá því sem þeirri almennu reglu, að þessi félög telja rétt fram, og það heyrir til undantekninga, sem valda sérstöku hneyksli, við skulum segja í Lundúnum, ef hlutafélögum dettur í hug að ætla að svíkja skatt, og finnast vart þeir lögfræðingar, sem mundu taka að sér að telja fram fyrir slík firmu, þannig að meira að segja í löndum, þar sem „kapitalisminn“ er gamall og gróinn, á sér stað svo að segja alger heiðarleiki í sambandi við skattaframtal. Spurningin, sem við stöndum frammi fyrir, þegar við stöndum augliti til auglitis við þá spillingu, sem hv. þm. Hafnf. lýsti alveg réttilega í þessum efnum, hve tekjaskattslögin hefðu verið brotin, hve óheiðarlega væri talið fram og annað slíkt, er þess vegna spurningin um, hvort við eigum að gefast upp gagnvart slíkri spillingu eða hvort við eigum að breyta þarna þannig til, að annars vegar sé svo í hóf stillt, að það þýði fyrir menn að telja rétt fram án þess að missa allt um leið, en hins vegar um leið þannig um hnútana búið, að ef breytingar eru gerðar þarna á tekjuskattslögunum, þá verði menn eftir það að telja heiðarlega fram.

Ég held, að áður en við drögum þá afleiðingu út af núverandi ástandi um tekjuskatt, það misrétti, sem hv. frsm. málsins lýsti alveg réttilega milli launþega annars vegar og meginsins af þeim mönnum, sem atvinnurekstur stunda, hins vegar, — áður en við drögum þær afleiðingar út af því að afnema tekjuskatt með öllu, þá ber okkur að athuga hinn möguleikann, hvort ekki sé hægt að knýja atvinnurekstur hér á Íslandi jafnt og í ýmsum öðrum löndum til að telja jafnheiðarlega fram og launþegar eru knúðir til að gera, þannig að út frá þessari röksemd vil ég fyrir mitt leyti ekki fallast á, að það sé sjálfsagt að draga þá ályktun, að tekjuskatt beri þess vegna að afnema, heldur beri fyrst að athuga hitt mjög gaumgæfilega, hvort ekki sé hægt að koma á heiðarlegan grundvöll með samstarfi milli löggjafarvaldsins og skattþegnanna framtali hjá atvinnurekstrinum í landinu.

Þetta vildi ég nú aðeins segja til þess, að sú nefnd, sem fær þessa till, til athugunar, líti á þau rök líka, þegar hún fer að athuga þessi mál.

Þá er í öðru lagi, þó að launþegar almennt verði fyrst og fremst fyrir barðinu á tekjuskattinum og verði harðar úti, en atvinnurekendur og jafnvel sé svona stórfellt misrétti milli launþeganna annars vegar og atvinnurekendanna hins vegar, þá hefur tekjuskatturinn samt vissa þýðingu hvað snertir að leiðrétta misjöfn kjör og misjafnar tekjur á milli launþeganna innbyrðis. Það má máske ýmislegt finna að tekjuskattinum, eins og hann hefur verið lagður á undanfarið, um það, að þegar komi að ákveðinni upphæð, t.d. 200 þús. kr., þýði ekki fyrir menn að vera að afla sér meiri tekna lengur, ef allt sé talið fram, því að þá sé það bara að vinna fyrir Eystein, eins og þeir segja, þá sé það bara að vinna fyrir ríkið og það séu fremur fáir, sem af hreinni þjóðhollustu fáist til slíks. Hins vegar ber þar við að athuga, að hugsanlegur möguleiki er auðvitað að breyta þeim tekjuskattsákvæðum, og liggja jafnvel nú fyrir till. um slíkar breytingar einmitt fyrir þessu þingi, sem mundu nokkuð leiðrétta þarna. Og við skulum hugsa okkur, að sú leiðrétting væri gerð, að jafnvel þótt menn væru komnir upp í tekjur eins og 200 þús., þá héldu þeir meira en 10% af þeim tekjum, þannig að þótt einstaklingar gætu komizt upp í hærri tekjur en það, þá þætti þeim borga sig að halda áfram að vinna, og við stæðum þess vegna frammi fyrir því, að meðal launþeganna sjálfra væri mismunurinn sá, að menn hefðu frá 30 og 40 þús. kr. upp í kannske 300 og 400 þús. kr., og þó að þetta eingöngu væri skattur, sem lenti á launþegum, væri samt sem áður ekki eftir sem áður rétt og sanngjarnt í þjóðfélaginu, að þeir launþegar, sem hafa 40, 50 og 60 þús. kr. tekjur, njóti sérstakra fríðinda, en hinir, sem hafa 100 og 200 þús. kr. og þar fyrir ofan, beri sérstaklega þung gjöld?

Ég er hræddur um, að við getum ekki í einu vetfangi, þótt margt hafi farið aflaga hjá okkur í þessum málum, strikað yfir, að þarna beri Iöggjafarvaldinu að vinna að því að jafna kjörin. Þegar munurinn er svona mikill, þó að það sé aðeins milli þess hóps mannanna, sem verða að telja rétt fram, og milli launþeganna, þá er gefið, að eftir sem áður mundi það vera í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar, að því væri hagað þannig til, að þeir, sem háar hafa tekjurnar, greiði líka hátt til hins opinbera. Ég er þess vegna hræddur um, að sú gamla regla, þó að brotin hafi verið og misnotuð hafi verið, sem til grundvallar liggur í tekjuskattslögunum, meira að segja þótt aðeins snerti launþegana innbyrðis, eigi rétt á sér og sé í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar, þ.e. stighækkunin á tekjuskatti, — hún sé réttlát og í samræmi við það, sem þjóðin vill. Framkvæmd á henni er annað spursmál, hve mikil stighækkun er, hvert eftirlit er og annað þess háttar, og þeim hlutum má breyta, eftir því sem hagrænt er fyrir þjóðfélagið og einstaklinginn, þó að þessari grundvallarreglu sé haldið.

Þá er eitt, sem líka þarf að athuga, þegar rætt er um svona bein gjöld eins og tekjuskattinn, en ekki hefur verið minnzt á hérna Það voru til í gamla daga gjöld og eru til enn, sem þóttu verst af öllum; það voru kallaðir nefskattar og voru lagðir á menn aðeins á þeirra nef án tillits til þess, hvort það var stórt eða lítið eða hvern möguleika sá aðili, sem nefið átti, hafði til að bera þau gjöld, á fátæka og ríka, unga og gamla, og slíkir nefskattar hafa alltaf þótt óréttlátustu skattarnir af öllum, vegna þess að þá urðu menn að bera án tillits til efna og ástæðna. Slíkir nefskattar eru enn til í okkar þjóðfélagi, m. a, eru skattarnir til almannatrygginganna, sjúkrasamlaganna og annað slíkt nefskattar, sem ættu að vera á meðal þess fyrsta, sem athugað væri að afnema, þegar talað er um að breyta núverandi skattakerfi. Það eru að því leyti, ef litið er á þá sem skatta, óréttlátustu skattarnir, sem til eru, af því að þeir eru lagðir á án tillits til annars, en persónanna sjálfra, ákveðinn skattur á hvern aðila, og þar væri raunar langréttast að byrja, ef beina skatta ætti að afnema, og taka í staðinn tekjurnar til trygginganna, sjúkrasamlaganna og annars slíks einmitt með gjöldum, sem lenda á ýmsum þeim vörum, sem hvað sízt mega teljast til brýnna nauðsynja. Ef við sæjum okkur fært að fara yfirleitt að hugsa um þá leið að afnema tekjuskatt í þjóðfélaginu eða minnka hann stórum, þá væru þessir nefskattar það fyrsta, sem við ættum að byrja með, og því vildi ég mjög alvarlega beina til þeirrar n., sem fær þetta til athugunar, að hún hugsi um í þessu sambandi.

Þá hefur það komið fram hér, eins og eðlilegt er, þegar farið er að leiða hugann að, hvort hægt sé að afnema tekjuskatt, hvað það sé, sem eigi að koma í staðinn. Sé farið að láta t.d. nefnd rannsaka svona hluti, eins og hér er lagt til, á milli þinga eða einhverja aðila, sem ríkisstj, setti til þess, þá er ekki óeðlilegt, að það sé tekið með í reikninginn, að einhvern veginn muni þurfa að fá gjöldin, og er það að vísu svo, að nýlega vorum við að ræða hér í Sþ. um afnám tolla, og hæstv. menntmrh. var í sambandi við fríverzlunarmálið að tala nokkuð um, hver nauðsyn væri á að breyta allmikið til, ef farið væri að hyggja á þátttöku í fríverzlunarbandalaginu, um afnám svo og svo mikils af þeim tollum, sem gilt hafa á Íslandi hingað til. Og það fer að verða margt, sem við þurfum að athuga, ef við eigum nú bæði að fara að afnema svo og svo mikið af tollunum og tekjuskattinn líka, hvar gjöldin, sem við viljum fá í ríkissjóðinn eftir sem áður, eigi þá að lenda.

Hv. frsm., hv. þm. Hafnf., færði einmitt fram þau rök í sinni ræðu, að það væru svo margvíslegar vörur, sem nú væru fluttar inn í landið og framleiddar í landinu, að það mætti raunverulega koma við með álagningu á vissan hluta af þeim vörum, sem sé þær, sem sízt væru brýnar nauðsynjar, eins konar stighækkandi skatti, ef ég má orða það svo, — ég held, að ég hafi skilið hans meiningu rétt, — og þetta er alveg rétt. Það eru vissir möguleikar til í slíku, einmitt möguleikar, sem að sumu leyti t.d. núverandi stjórn hefur verið að reyna að fara inn á í sínum tekjuöflunum. Það er hægt að hafa ákaflega misjafna slíka tolla eftir því, hve nauðsynlegar maður álitur vörurnar. En við verðum að gá að því, að allmikið af núverandi tekjustofnum ríkissjóðs er samt skattar, sem leggjast eiginlega næstum því jafnt á allar vörur að heita má. Það eru örfáar undantekningar, t.d. skattar eins og söluskattur, — það eru ekki margar vörur, sem þar eru undanteknar, — þannig að sama „prinsipið“, sem verður að endurskoða, ef á að fara að endurskoða tekjuskatts-„prinsipið“, er „prinsip“ um skatta eins og söluskattinn og annað slíkt. Það er þess vegna alveg gefið, að endurskoðun á þessum möguleikum, hvort hægt sé að afnema tekjuskattinn að einhverju eða öllu leyti, heimtar alveg almenna endurskoðun á allri fjáröflun hins opinbera. Og ég er hræddur um, eins mikið og kvartað hefur verið um viðvíkjandi söluskattinum og ýmsu öðru slíku, að það komi aldrei allt til skila, sem þar sé á lagt, og séu ekki síður umkvartanir í sambandi við slíkt, en tekjuskattinn að svo og svo miklu leyti, og þá er ég hræddur um, að það séu nokkuð mörg tillit, sem þarna verður að taka, og þessi endurskoðun sé ekki eins auðveld og menn í fljótu bragði álíta.

Ég held, að óvinsældir tekjuskattsins stafi fyrst og fremst af því, að það hefur verið of mikil tregða við að aflétta tekjuskattinum af því, sem eðlilegt mundi vera að telja þurftartekjur nú á tímum. Ég held, að óvinsældir hans stafi fyrst og fremst af því, að það sé haldið áfram að innheimta tekjuskatt af tekjum eins og 40–50–60 þús. kr., sem eru nú orðnar svo almennar tekjur hjá öllum þorra launþega, að réttarmeðvitund þjóðarinnar gengur raunverulega ekki út frá því lengur, að menn, sem ekki hafa þó hærri tekjur en þetta, eigi að borga skatt.

Ég held þess vegna, að það sé rétt að athuga, þegar um þessi mál er rætt, hvort það sé ekki nær að fara inn á þá breytingu á tekjuskattinum að innheimta hann ekki fyrr, en miklu ofar er komið í tekjum, en nú er, og það séu þess vegna lagfæringar, sem þarna þurfi á, en alls ekki að afnema hann.

Viðvíkjandi hinu, að lögin séu svo brotin, að annað eins misrétti stafi þarna af eins og vitanlegt er á milli t.d. launþega annars vegar og atvinnurekstrarins hins vegar, þá eru það náttúrlega ekki röksemdir fyrir, að afnema beri lög, þótt brotin séu. Það eru hins vegar sterkar röksemdir fyrir því, að breyta þurfi þarna til, og það álít ég alveg ótvírætt, að lina þurfi þarna á, enda hafa í raun og veru á hverju einasta þingi undanfarið verið uppi kröfur um það og þær kröftugar, að skattar af lágtekjum væru lækkaðir meira, væru raunverulega afnumdir, og ég held, að þeim kröfum mætti einmitt fylgja fastar fram, jafnvel líka einmitt í sambandi við þau frv., sem núna liggja fyrir. Hinu vil ég aftur á móti vara við, að gefast upp við þá framkvæmd á réttri höfuðreglu, sem tekjuskatturinn er, þó að ýmislegt hafi þar aflaga farið og ýmislegt misrétti verið í sambandi við það, að fleygja henni burtu með öllu. Ég efast um, að það verði auðvelt að finna aðrar leiðir, sem séu þó eins mikið í samræmi við réttarmeðvitund þjóðarinnar og stighækkandi tekjuskattur er, ef hann er réttilega og hóflega framkvæmdur. Og þó að sjálfsagt sé að leita að því að finna út réttmæti í þeim gjöldum, sem lögð eru á vörur, hvort það er kallað tollar, söluskattur eða annað slíkt, þá verður það ekki auðvelt, en ég vona, að það takist smátt og smátt að finna það, að skapa það líka og framkvæma þá höfuðreglu, að stighækkandi, miðað við efni og ástæður, skuli vera það, sem menn greiða í ríkissjóð.