12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (2458)

141. mál, afnám tekjuskatts

Bernhard Stefánsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég þakka hv, aðalflm. þessarar till. fyrir það, að hann hefur gert nokkra tilraun, að því er virðist, til þess að svara fsp. minni um það, hvað ætti að koma í staðinn fyrir tekjuskattinn, ef hann yrði afnuminn. En hann gleymdi nú atriði, sem ég tel vera nokkuð þýðingarmikið í þessu sambandi og ég hafði þó minnzt á, og það var það, að það væri ekki einasta, að það þyrfti að finna tekjustofna í staðinn fyrir tekjuskattinn, heldur í það, sem ríkissjóð og útflutningssjóð vantar nú, til þess að þessir sjóðir standist þetta ár. Hann sagði, að það, sem ætti að koma í staðinn, væru tollar á lúxusvörur, aðallega áfengi og tóbak. Ég held, að áfengi og tóbak sé orðið það dýrt nú þegar, að ef það ætti að taka svona 300 millj. kr. af því einu, 100 millj. í staðinn fyrir tekjuskattinn og kannske 200 millj. í það, sem nú vantar, þá þrátt fyrir allt færu fáir að kaupa áfengi og tóbak. Náttúrlega mundu sumir drekka eftir sem áður, en þeir mundu brugga og smygla, þegar áfengið væri orðið svo dýrt. Það er alveg gefið. Brennivínsflaskan er nú víst orðin 125 kr., viskíflaskan eitthvað töluvert á þriðja hundrað krónur. Ég trúi ekki á, að það yrðu margir, sem notuðu þessar vörur, þ.e.a.s. frá landsverzluninni, eftir að búið væri að þrefalda þetta í verði að minnsta kosti. Ég hef því ekki góða trú á þessu, hreint ekki, því að það er nefnilega það, sem gert hefur verið á undanförnum árum, það hefur alltaf verið reynt að leggja tollana aðallega á það, sem menn kalla lúxusvörur. Einhver takmörk hlýtur það að hafa. Þar að auki er sú alda uppi í landinu hvað áfengið snertir, að bezt sé að losna við það með öllu, kannske með áfengisbanni, og ef það kæmist á, yrðu litlar tekjur af því. — Annars er það töluvert breytilegt, hvað eru kallaðar lúxusvörur. Það eru ekki nema nokkrir áratugir síðan tollar voru að vísu á áfengi og tóbaki, og þar næst á kaffi og sykri, sem þá voru kallaðar lúxusvörur og eru það að því leyti til, að það þarf enginn maður kaffi og sykur sér til lífsviðurhalds. En þetta eru kallaðar nauðsynjavörur nú.

Út af því, að ég gerði ekki ýkja mikið úr skattsvikunum, benti hann á það, að það mundu vera um 800 millj. kr. af þjóðartekjunum, sem ekki kæmu fram í skattaframtalinu. Ég skal játa, að ég er ekki ákaflega vel að mér í því, hvernig þetta er reiknað út, en það hygg ég þó, að það sé nokkuð af þjóðartekjunum, sem ekki kemur fram á skattaframtali á alveg eðlilegan hátt, m.ö.o.: það eru ýmsir, sem hafa þó nokkrar tekjur, sem alls ekki greiða skatt og jafnvel ekki eru framtalsskyldir. Mig minnir, að vaxtatekjur t.d. séu það ekki, og ég hygg, að það sé mjög vafasamt, að tekjur, sem skólafólk aflar sér á sumrin, komi nokkuð fram í þessu efni, skattaframtali. Ég er ekki skattanefndarmaður og veit ekki nákvæmlega um þetta, en ég efast alveg um, að allt þetta fólk telji fram til skatts, eða sé ætlazt til, að það telji fram. Þó kann það að vera. En áreiðanlegt er hitt, að það geta verið tekjur, sem ekki er eðlilegt að komi þarna fram, svo að ég er alls ekki viss um, að þessar 800 millj. kr. séu allt saman skattsvik.

Ég verð því miður að segja það eftir að hafa heyrt svar hv. 1. flm. við minni fsp., að mér finnst það ekkert svar vera. Ég er ekkert á móti því, eins og hann gat nú til að ég mundi ekki vera, að lúxusvörur séu tollaðar, en ég er bara ákaflega hræddur um, að við fáum nóg af því að tolla þær og vörur yfirleitt nægilega til þess að fylla í það skarð, sem nú er fyrir hendi, þó að missir tekjuskattsins bætist ekki við. Þess vegna vil ég óska þess, að hann geri betur, svari þessu ýtarlegar og svari því eins og ég spurði: Hvað á að koma í staðinn, þegar búið er að sjá fyrir þeim tekjum í ríkissjóð og útflutningssjóð, sem nú vantar?