12.03.1958
Sameinað þing: 33. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í D-deild Alþingistíðinda. (2459)

141. mál, afnám tekjuskatts

Flm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Eyf. blandar hér saman tveim algerlega óskyldum atriðum, sem sé lausn þeirra efnahagsvandamála, sem nú standa fyrir dyrum, og því, hvað fá skuli í staðinn fyrir þann tekju- og eignarskatt, sem nú er á lagður, ef hætt yrði við að taka hann. Lausn efnahagsvandamálanna nú á næstunni getur verið á þennan veg og hún getur verið á hinn veginn. Hvorugur veit nokkuð um það. T.d. vil ég alls ekki slá því föstu á þessu stigi málsins, að lausn þeirra mála verði endilega á þann hátt, að óbeinu skattarnir verði hækkaðir til þess að ná því, sem þarf í mismun ríkissjóðs og útflutningssjóðs. Náttúrlega er þessi leið til, og ég skal ekkert segja um það, hvort hún er betri eða verri en aðrar, sem fyrir liggja. En það er engan veginn hægt fyrir hann að slá því föstu á þessu stigi málsins, hvort þetta verður gert á þennan hátt, og á alls ekki að blanda þessu tvennu saman, því að væntanlega verður lokið við að brúa bilið hjá útflutningssjóði og ríkissjóði, löngu áður en þessi nefnd, sem tekjuskattinn á að athuga, tekur raunverulega til starfa. Ég vil þess vegna ekki telja, að það sé um neinar 300 millj. að ræða í sambandi við þetta mál. Það getur verið nógu erfitt samt, og ég viðurkenni það með hv. þm., að það geta verið erfiðleikar að ná saman þessum endum. En að það sé óhugsandi og ómögulegt, það vil ég alls ekki láta hann segja mér.