14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

73. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það hefur þá komið í ljós ein ástæðan til þess, að hæstv. fjmrh. er eins og genginn upp úr gröf, að sálast úr leiðindum á svipinn, það er hvað honum leiðist, hvernig sjálfstæðismenn hafa hegðað sér í kosningum að undanförnu. Get ég ákaflega vel skilið það, að honum líki ekki úrslit kosninga hér í Reykjavík eða yfirleitt á landsbyggðinni, þegar úrslitin síðast urðu þau, að þeir flokkar, sem hæstv. fjmrh. beitti sér fyrir að mynduðu bandalag sín á milli, misstu tíunda hluta af sínu fylgi, en sjálfstæðismenn juku við sig 14–15%. Það er ákaflega eðlilegt, að sá hæstv. ráðh., sem hefur þessa reynslu af kosningum, sé leiður yfir kosningum yfirleitt og vilji komast hjá þeim sem mest.

Ég þurfti að víkja mér frá í upphafi ræðu hæstv. ráðh. og heyrði því ekki það, sem hann sagði um afskipti mþn. af þessu máli. Mþn., sem sett var með samkomulagi til þess að endurskoða kosningalögin.

Ég ætla að beina ákveðnum fyrirspurnum til hæstv. ráðh. og vildi þess vegna skora á forseta að hlutast til um, að hann yrði hér við. Ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðh., hvort mþn. hefði átt nokkurn hlut að samningu þessa frv., hvort hún hefði samið það sjálf, það hefði verið samið á hennar vegum eða hvort það hefði verið sent til hennar umsagnar, og jafnframt spyrja hæstv, ráðh. að því, hvað störfum þessarar mþn, liði, hvort það væri von á því, að hún skilaði bráðlega áliti, eða hvort enn mundi þurfa að bíða mörg ár þess, að frá henni kæmu einhverjar till. Þá vildi ég einnig spyrja hæstv. ráðh. að því, hver hefði samið þetta frv., sem hér er lagt fram. Hæstv. ráðh. talaði að vísu um frv. sem till. ríkisstj., en á að trúa því, að hæstv. ríkisstj. hafi samið þetta merkilega frv.? Frv. er með þeim hætti samið, að sjálfir aðstandendur þess hafa þurft að gerbreyta því frá því, sem það var fyrst lagt fram, og það er þess vegna ekki ófróðlegt fyrir þingheim að heyra, hverjir raunverulega hafa hér lagt hönd að verki.

Það er t.d. kunnugt, að frv. í sinni upphaflegu mynd gerði það að lögbroti, ef umboðsmaður flokks hafði með sér markaskrá yfir sauðfénað einhvers staðar af landinu í vasa sínum, þegar hann sat á kjörfundi. Hv. Ed. varð að breyta frv. til þess að sleppa frá þessu og öðru eins. Ætlar hæstv. ráðh. að koma með einhverja hótun núna, eða er það svar við spurningunni? (Gripið fram í.) Ja, nauðsynlegt, ég veit það ekki, það var eins og hæstv. Framsfl. óttaðist, að það væri mjög hættulegt fyrir úrslit kosninga, ef einhver gerðist svo óvarkár að hafa slíka skrá með sér, en af einhverjum ástæðum var þessu breytt, og það er nú orðið heimilt, þó að sumar aðrar skrár megi ekki hafa. En þetta sýndi, hvers eðlis frv. var og hvernig það var samið í upphafi, og þess vegna er ekki ófróðlegt og raunar nauðsynlegt fyrir þingmenn að fá vitneskju um það, hverjir raunverulega standa að eða hafa samið frv.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, vegna þess að hann vitnar mikið í það, hvernig til hátti — Hvað sagði hæstv. ráðh? (Gripið fram í. — Forseti: Ég ætla að biðja hv. þm. um að tala ekki saman á fundinum.) Ja, þá á hæstv. forseti að beina því til þess, sem er með truflanir hér á þingfriði. Vel má vera, að hæstv. ráðh. hugsi sér einhver viðurlög gegn þeim óhamingjusama manni, sem hefur samið frv., og það væri eftir honum að reyna að níðast á þeim manni, sem frv. hefði samið. En ég vildi spyrja hæstv. ráðh.: Er hann kunnugur því, hvenær kjörfundir byrja í öðrum löndum? Getur hann upplýst okkur um það, og eru þess nokkur dæmi yfirleitt, að kjörfundir byrji ekki fyrr en kl. 10 í öðrum löndum? Ef á að setja sérstakar takmarkanir um það, hvenær kjörfundum á að hætta, og um það vitnað til útlanda, þá er eðlilegt, að það sé a.m.k. sagt frá því, hvenær kjörfundir hefjist annars staðar. Annars vil ég segja, að ég tel, að þetta atriði varðandi það, hvenær kjörfundurinn hættir, sé ekki stórvægilegt atriði. Ég hygg, að allir mundu verða sammála um það, að eðlilegt væri, að kjörfundi lyki kl. 12 á miðnætti, um það mundi ekki verða neinn ágreiningur, en hitt sé ástæðulaust, að vera að setja sérstaka löggjöf um, að hann eigi að hætta kl. 11, án þess að það skipti þó öllu máli. Það horfir í þá átt að torvelda mönnum að kjósa og er að því leyti frekar til ills, en hefur ekki úrslitaþýðingu.

Það, sem ég tel vera langsamlega mest athugavert við þetta frv., er það, að það miðar að því að skapa tvenns konar ástand í landinu. Það segir að vísu í grg. frv., að ætlunin sé sú að halda því einkamáli manna leyndu, hvort þeir hafi kosið eða ekki, og til þess á að gera rækilegar ráðstafanir. Það á bæði að banna fulltrúum flokkanna að merkja það hjá sér á kjörstað, hvort menn kjósi eða kjósi ekki, og eins á að hindra það, að fulltrúar flokka eða almenningur fái aðgang að kjörskrám, eftir að kosningu er lokið, með sérstakri geymslu á kjörskrám, þegar kosningunni lýkur.

Nú kann að vísu að heppnast að hafa slíka leynd á því, hvort menn kjósa eða kjósa ekki í þéttbýlinu, þar sem þúsundir manna eru á kjörskrá og neyta kosningarréttar síns. En ég þori að fullyrða, að það er útilokað að sams konar eða nokkuð svipuð leynd geti orðið á þessu eðli málsins samkvæmt, þar sem kjördæmi eru minni. Það eru margar kjördeildir á landinu, þar sem ekki eru nema nokkrir tugir kjósenda, enn þá fleiri, þar sem kjördeildir eru aðeins fá hundruð. Það eru jafnvel heil kjördæmi, sem hafa kjósendur innan við þúsund. Það er vitanlega algerlega tómt mál og fullkomin blekking, ef því er haldið fram, að í slíkum kjördæmum muni heppnast að halda því leyndu, hvort kjósandi komi á kjörstað eða ekki. Allra sízt mun það heppnast að halda slíku leyndu, þar sem vitað er, að flokkarnir hafa víðs vegar um landið samtök sín á milli um að flytja kjósendur úr heilum kjördeildum á kjörstaðinn, og þess vegna getur ekki farið hjá því, að flokkarnir allir hafi fullkomið eftirlit með því í slíkum kjördeildum á þeim stöðum í landinu, hvort kjósandi neytir kosningarréttar eða ekki. Ef það er varhugavert að fylgjast með þessu atriði, þá er alveg ljóst, að það er ekki siður varhugavert, að það sé gert í strjálbýlinu, heldur en í þéttbýli, og ef einhver hætta er á, að kúgun sé beitt í þessu sambandi, þá er fullkomin ástæða til þess að hafa það í huga, að þvílík kúgun er miklu líklegri og getur raunar einungis átt sér stað, þar sem kjósendur eru fáir og hægt er að fylgjast með því með nokkrum líkindum, hvern hver einstakur kýs, en alls ekki hægt að koma neinu slíku við t.d. hér í Reykjavík, þar sem kjósendur fara nú að nálgast 40 þúsundir. Það er alveg ljóst, að hér er gersamlega vonlaust fyrir einn eða annan, hvort heldur stóran flokk eða lítinn, að ætla að beita neinni kúgun við kjósendur, Og ef menn eru drifnir á kjörstað gegn þeirra eigin vilja, þá er alveg fráleitt að ætla, að það sé hægt að fylgjast með því, hvernig kosningarréttarins er neytt. Úti í strjálbýlinu horfir þetta allt öðruvísi við. Þar er með töluverðum líkindum, aldrei með fullkominni vissu, en með töluverðum líkindum hægt að gera sér grein fyrir því um hvern einasta kjósanda, hvernig hann hefur greitt atkvæði. Og þar má segja, að nokkur hætta sé á því, að ofurveldi og kúgun eigi sér stað, sem ekki kemur til greina hér í þéttbýlinu. En þessi löggjöf, sem hér er um að ræða, kemur einungis til að verka í þéttbýlinu, þar sem þessi kúgunarhætta er ekki fyrir hendi, en verður gersamlega áhrifalaus og sem dauður bókstafur í strjálbýlinu, þar sem kúgunarhættan í raun og sannleika er fyrir hendi. Og það er ekki einungis, að mönnum megi leyfast það ástand, sem þar er, heldur er það vitað mál, að ekki sízt flokkur hæstv. fjmrh. hefur notað þá aðstöðu, sem hann hefur í gegnum sitt fjármálavald, til þess að hafa mjög óheilbrigð áhrif á kjósendur. Ég játa, að það er fullkomin ástæða til þess að endurskoða kosningalög og aðstöðu manna til áhrifa einmitt út frá þessari kúgunaraðstöðu, sem Framsfl. hefur, og þeirri hegðun, sem vitað er að hans smalar víðs vegar um landið hafa gert sig seka um. Ég játa þó, að það muni vera erfitt að setja beinar lagahömlur gegn þessu. Ég játa það. En því miður horfir þetta frv. í alveg þveröfuga átt, og það skyldi þó aldrei vera tilgangurinn hjá þessum herrum eins og svo oft ella að draga athyglina frá sínum eigin misgerðum með því að ákæra aðra um það, sem þeir sjálfir eru sekir um?

Eins og ég hef bent á, er í þéttbýlinu ómögulegt að koma við kúgun, jafnvel þótt einhver vildi, Jafnvel Framsfl. hér í Reykjavík getur ekki notað sams konar aðfarir hér eins og hann gerir úti um landið. Þess vegna er það, að flokkurinn hefur jafnlitið fylgi. Þess vegna er það, að hæstv. ráðh. leiðist jafnmikið og hann segir ætíð kosningaúrslit héðan úr Reykjavík. Það er vegna þess, að flokkurinn hefur ekki sams konar aðstöðu hér eins og annars staðar. En það er til þess að dreifa athyglinni frá því, hvernig þeir hegða sér úti um landsbyggðina, sem þeir eiga hlut að setningu þessarar löggjafar til þess að gefa í skyn, að hér í Reykjavík og í þéttbýlinu hafi eitthvað ósæmilegt átt sér stað í þessum efnum.

En að svo miklu leyti sem segja má, að smölun fólks á kjörstað sé óhæfileg, þá er sannast að segja, að þetta frv. hefur ekki nokkur áhrif í þá átt. Slík smölun er alls ekki bönnuð með frv. Frv. hefur engin áhrif til þess að draga úr henni. Þvert á móti hlýtur frv. að leiða til þess, að menn verði aðgangsfrekari og meiri ófriður skapist á kjördegi, heldur en áður. Þessar merkingar hafa fyrst og fremst miðað að því að forða þeim frá ófriði, sem búnir eru að kjósa. En úr því að eftir sem áður, á að vera heimilt að gera ráðstafanir til þess að fá kjósendur með fortölum til að mæta á kjörstað, hlýtur afleiðing frv. að verða til þess að skapa líkur fyrir því, að héðan í frá verði einnig verið að togast á við það fólk, sem búið er að kjósa, og kanna með spurningum og eftirgangsmunum, hvort það raunverulega hafi kosið. Frv. verkar því beinlínis alveg gegn sínum yfirlýsta tilgangi, og er fjarri lagi, að það nái því marki, sem okkur er sagt að það eigi að ná. Um það þarf í sjálfu sér ekki að fara fleiri orðum, þetta liggur í augum uppi.

Þá vildi ég einnig spyrja hæstv. ráðh. að því, þegar stendur hér í frv., 6. gr., að það er bannað að hafa uppi flokksmerki, merki lista eða önnur slík auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, kjörfundarstöðum, kjörklefa eða annars staðar í eða á þeim húsakynnum, þar sem kosning fer fram, svo og næstu húsum og aðliggjandi götum: Við hvað er átt með þessu? Er átt við það, að það sé bannað að hafa lista eða merki á þeim húsum, sem sjáist frá kjörstaðnum? Mundi þá t.d. óheimilt að hafa slíkt merki eða lista á húsi, ja, ég veit ekki, hver á húsið, en kommúnistaflokkurinn ræður a.m.k. yfir húsi við Tjarnargötu, sem er andspænis og í augsýn við Miðbæjarskólann, sem lengi hefur verið aðalkjörfundarstaður í Reykjavík? Eftir frv. virðist mér, að það sé óhjákvæmilegt, að það yrði að banna, að þarna væri settur upp listi með merki þessa flokks á kjördaginn eða með merki listans, sem þessi flokkur styður. Eins spyr ég hæstv. ráðh.: Mundi vera óheimilt að hafa þvílíkt merki á Iðnó, sem vissulega er í aðliggjandi götu að Miðbæjarskólanum? Og mundi þá einnig vera bannað að hafa þvílík merki á Góðtemplarahúsinu, sem er aftur á móti næsta hús við Iðnó, en ekki er hægt að segja, að sé í beint aðliggjandi götu að Miðbæjarskólanum á sama veg eins og það verður fullyrt um Iðnó? Er þá ekki ótvírætt, að hér er verið að veita Sjálfstfl. forréttindi? Hann hefur hús alveg á næstu grösum við þessi, hérna við Austurvöll, en aftur svo fjarri kjörstaðnum, að ekki verður hægt að segja, að það sé aðliggjandi hús Miðbæjarskólanum eða við aðliggjandi götu. Hæstv. semjendur frv. eða flm. þess hljóta að hafa gert sér grein fyrir slíkum augljósum atriðum sem þessum. En það er nauðsynlegt, að menn viti það, áður en þeir eiga að taka afstöðu til frv., hver ætlunin er um þessi atriði.

Ég verð einnig að segja: Hverjum dettur í hug, að það hafi nokkur áhrif á nokkurn kjósanda, þó að hann sæi mynd af jafnlaglegum manni og hæstv, forseta á húsi kommúnistaflokksins við Tjarnargötu eða jafnglæsilegu vesti eins og hæstv. menntmrh, er í á Iðnó, þó að það væri fest þar upp sem merki Alþfl.? Mér kemur ekki í hug, að það mundi breyta afstöðu eins einasta manns, þó að þvílík merki væru fest upp á þessi hús til táknmyndar um þessa flokka og þeirra eiginleika. Hér er um algera hégilju að ræða, alveg eins og það auðvitað skiptir ekki Sjálfstfl. nokkru máli, hvort hann má hafa merki á Sjálfstæðishúsinu á kjördegi eða ekki. Sannleikurinn er sá, að þessi plögg og kosningamyndir, sem voru settar upp, voru fyrst verulega teknar í notkun hér í kosningum 1934 fyrir forgöngu Alþfl., sem þá í kosningum skyndilega fór að beita þeirri aðferð að hafa kosningaspjöld víðs vegar um götur. Síðan festi Alþfl. að vísu einu sinni upp spjald á sitt hús um það að vera á móti hernámi. Það getur verið, að vegna þess að það spjald megi ekki sjást núna, eigi að setja lög til að banna öll slík spjöld. En ég segi, að þetta er nokkuð fyrirhafnarmikil leið til þess að fá þá til að taka spjaldið ofan. En það kann að vera nokkur skýring á því, að það eigi nú að verða augljóst, að spjaldið megi ekki sjást.

Sannleikurinn er sá, að þessi atriði öll hafa miklu minni þýðingu en menn ætla og lýsa einungis einkennilegu hugarfari. Það er alveg rétt, sem stóð í Alþbl., — ég held það hafi verið í gær, hjá þeim hyggna ráðgjafa hæstv. menntmrh., Hannesi á horninu, — að það væri leitt við þetta frv., hversu síðbúið það væri. Hannes taldi frv. vera ágætt, en sagði, að það væri galli, hversu siðbúið frv. væri. Og það er alveg rétt. Það sýnir, að ef hér hefði verið ætlunin að koma á raunverulegum umbótum, þá hefði vitanlega verið leitað samráðs allra flokkanna um það, hverju væri hægt að koma fram með góðu og áður en kosningaskjálftinn var búinn að gripa menn. Þá hefði einmitt sú n., sem ég hygg að hv, skrifari þessarar d., hv. þm. A-Sk. (PÞ), sé formaður í, verið fengin til þess að íhuga þetta mál og gera till. um það. En það er vegna þess, að þetta mál á að vera liður í kosningaundirbúningi, að það er tekið upp, eftir að kosningaskjálftinn hefur gripið hæstv, ríkisstj. og suma hennar stuðningsmenn, sem frv. er jafnálappalegt eins og raun ber vitni. Þess vegna þurfti að umsteypa því svo gersamlega í Ed. eins og ofan á varð þar, og þess vegna er það jafnvel að ytra formi enn stórlega gallað og mjög óljóst, hvert hið raunverulega efni frv. er. En ég efast t.d. ekki um það, að það væri hægt árekstralaust að komast að samkomulagi um það að breyta kjörfundartíma, að láta hann byrja eitthvað fyrr á morgnana og hætta fyrr á kvöldin, ef það er eitthvert áhugamál manna. Það getur ekki verið deiluefni út af fyrir sig. Eins hygg ég, að það hefði ekkert verið á móti því að athuga og ræða, hvort hægt er að gera ráðstafanir til þess, að ekki sé verið að ónáða kjósendur að óþörfu á kjördegi, þá sem ekki vilja kjósa. Það er fullkomlega til athugunar. En ef menn vilja ekki láta ónáða þá, dugir ekki sú aðferð, sem hér er stungið upp á, að banna að það sé merkt, hverjir hafi kosið og kosið ekki, vegna þess að frv. fer alveg í þveröfuga átt. Það leiðir til þess, eins og ég segi, að jafnvel þeir, sem búnir eru að kjósa, verða fyrir ónæði, úr því að það er látið eftir sem áður heimilt að halda uppi þessari smölun. Menn geta sagt: Smölunin á ekki að eiga sér stað. — Og þá er að setja ákvæði til þess að banna hana og reyna að finna raunhæfa leið, sem komi því áleiðis. En það er ekki fólgið í þessu frv. Það er ekki sýnd viðleitni í þá átt, heldur er bannað það, sem helzt hefur þó orðið til þess að láta a.m.k. þá í friði, sem búnir eru að kjósa, Frv. hefur sem sé þveröfugar verkanir við það, sem sagt er að það eigi að hafa. Og þar að auki er það þannig, að það hefur einungis verkanir sums staðar á landinu, en alls ekki þar, sem hættan á raunverulegri kúgun er fyrir hendi og þar sem þeir menn hafa mest völdin, eins og hæstv. fjmrh., sem líklegastir eru samkvæmt fenginni reynslu til þess að beita sínu ofurvaldi með slíkum hótunum og orðbragði, sem við höfum orðið áheyrandi að nú síðustu dagana.