30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (2467)

141. mál, afnám tekjuskatts

Frsm. minni hl. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Ég hygg, að það muni flestir vera sammála um það, að tekjuskattar séu í sjálfu sér réttlátir og hafi ýmsa kosti sem tekjustofn fyrir ríkissjóð. A.m.k. ætla ég, að það sé skoðun flutningsmanna þáltill., sem nú er á dagskrá. En þetta eitt út af fyrir sig nægir ekki. Fyrir hendi þarf að vera hæfilega greiður möguleiki til þess að framkvæma tekjuskattslögin og tekjuskattsheimtuna, þannig að sú hlið málsins valdi því ekki, að tekjuskatturinn verði svo ranglátur að lokum, að hvergi verði við unað.

Reynslan hefur leitt það í ljós um hálfan fjórða áratug, sem tekjuskattar hafa verið í lögum á landi hér í þeirri mynd, sem þeir eru nú, eða a.m.k. samsvarandi mynd, að örðugleikar við framkvæmd skattaálagningarinnar eru slíkir, að tekjuskattslögin eru að verulegu leyti sniðgengin af hálfu skattgreiðenda, sem æði margir hafa aðstöðu til slíks. Þetta er raunar ekki aðeins talin staðreynd hér á landi, heldur mun vera svipað ástatt um þetta í öðrum löndum. Ýmsir hópar manna — jafnvel heilar stéttir — hafa þannig aðstöðu, að engin leið er að komast að raun um tekjur þeirra, og þetta eru í ýmsum tilfellum hópar manna með mjög háar tekjur. Skattayfirvöldin hafa ekki aðstöðu til að staðreyna sannleiksgildi framtala þeirra. Þetta ætla ég að öllum sé kunnugt um og þurfi ekki að fjölyrða öllu frekar um.

Í þessu sambandi vil ég þó aðeins minna á það, að það er talið mjög algengt í húsaleigusamningum manna á milli, a.m.k. hér í Reykjavík og ef til vill víðar, að leigusali áskilur sér í samningnum, að leigutaki gefi ekki upp til skatts nema einhvern hluta af leigunni, og vafalaust er unnt að tilfæra eða benda á misferli í sambandi við framtal tekna á mörgum fleiri sviðum. Fróðir menn telja, að fimmti til fjórði hluti þjóðarteknanna komi ekki fram í skattframtölum, og þar er um að ræða mörg hundruð milljónir króna. Ég skal að vísu ekki staðhæfa, að þetta sé rétt, en hvað sem því líður, þá er vafalaust hér um að ræða mjög háar fjárhæðir. Af þessu stafar biturt ranglæti gagnvart skattgreiðendum, sem telja rétt fram tekjur sínar, nauðugir eða viljugir. Og þar sem þetta er á almenningsvitorði, stafar einnig af því beiskja og gremja þessara skattgreiðenda út af augljósu ranglæti, sem þeir verða að þola, og þeim, sem æði oft hafa lægri tekjur, svíður það eðlilega, að þeir eru óbeinlínis látnir greiða skatt fyrir þá, sem svíkja undan skatti. Þetta verður væntanlega til þess, að þegar þeir, sem telja, að með sig sé þannig farið, fá tækifæri til að fela einhvern hluta af tekjum sínum, þá þykjast þeir hafa rétt til þess. Og þannig hefur hin misheppnaða framkvæmd skattalaganna spillt öllu skattgreiðendasiðferði. Með þessu er ég að sjálfsögðu ekki að halda því fram eða staðhæfa það, að allir séu með þessu marki brenndir, en ég held því miður, að þeir séu allt of margir.

Það vill svo til, að ég hef verið rúm 20 ár formaður skattanefndar eða yfirskattanefndar, og auk þess hef ég verið um 13–14 ár innheimtumaður ríkissjóðs um beina og óbeina skatta. Ég hef því ekki komizt hjá því að hafa beint samband við fjölda manna um þessi efni og kynnast viðhorfi þeirra og þykist því ekki með öllu ófróður um þetta.

Hér höfum við með öðrum orðum lög, sem mikill fjöldi manna — a.m.k. drjúgur hluti skattþegnanna — virðir ekki og sniðgengur meira eða minna og framkvæmdavaldið ræður ekki við, því að það hefur engin tök á að hafa hendur í hári þeirra, sem lögin brjóta.

Jafnan þegar svo ber við um ákveðna löggjöf, er full ástæða til að staldra við og athuga, hvernig við skuli bregðast. Slíkt ástand er til þess fallið að brjóta niður fjárhagslegt siðferði og ábyrgðartilfinningu, og þegar um skattalög er að ræða, er það því varhugaverðara sem það varir lengur. Hér er að sjálfsögðu ekki um að ræða neina nýja uppgötvun. Mönnum hefur árum og áratugum saman verið ljóst, að hér voru vankantar á, sem hættulegir og hvimleiðir voru. Hvað eftir annað hefur verið gerð tilraun til þess að ráða bót á þessu með meira eftirliti í skattendurskoðuninni. Fjöldi manna vinnur við það verulegan hluta úr árinu að endurskoða skattframtöl og reikna út skatta, og kostar slíkt að sjálfsögðu háar fjárhæðir. Að sjálfsögðu vinna þessir menn þarft verk og halda ýmsu til skila, sem ella kæmi ekki fram. En þrátt fyrir það hafa þeir enga aðstöðu til að gera verkefni sínu þau skil, sem duga, og enn hefur ekki, að ég ætla, verið bent á fullnægjandi leið til þess, að slíkt sé framkvæmanlegt.

Þetta ástand, sem ég hef nú lítils háttar rætt um, teljum við, sem skipun minni hl. fjvn, og stöndum að nál. á þskj. 573, fullnægjandi rök fyrir því, að nú sé staldrað við og rannsakað í fullri alvöru, hversu við eigi að bregðast.

Engar líkur eru til þess, að hægt sé að ráða bót á framkvæmd laganna, enda væri það löngu búið, ef unnt væri talið, og þegar svo er háttað, er eðlilegur hlutur, að næst verði hugleitt, hvort ekki sé hægt að afnema lögin með öllu eða a.m.k. fella niður tekjuskatta. Hér er um að ræða tekjustofn fyrir ríkissjóð nokkuð yfir 100 millj. kr., þ.e.a.s. tekju- og eignarskatturinn mun nema þeirri upphæð, en tekjuskatturinn einn væntanlega ca. 100 millj. Nú er það vitað mál, að eins og er, þá þarf ríkissjóður á þessu fé að halda, og verður tekjuskatturinn því ekki að svo stöddu felldur niður, án þess að aflað sé samsvarandi upphæðar í ríkissjóð í staðinn með einhverjum hætti. Ef þessa þyrfti ekki með, væri þáltill. óþörf. Þá mætti leggja fyrir Alþ. frv. til laga um afnám tekjuskattsins. En þar sem slíkt nægir ekki og fjárins þarf að afla, sýnist eðlilegast, að ríkisstj. fái kunnáttumenn til þess að rannsaka, hvernig skynsamlegast sé að afla samsvarandi fjárhæðar í ríkissjóðinn, — hverjar leiðir séu líklegastar í því efni.

Það hefur annars verið að því fundið, að ekki hefur verið bent á leiðir til þess að afla fjár í ríkissjóð í stað tekjuskattsins, til þess að hægt verði að fella hann niður. Ég held, að þessar aðfinnslur séu ástæðulausar. Þó að þáltill. yrði samþ., nægir það eitt ekki til þess að afnema tekjuskattinn, enda verður slíkt ekki gert með þáltill.

Það, sem í till. felst, er einungis það, að ríkisstj. láti kanna möguleika til þess, að svo verði gert. Slíkir möguleikar yrðu að sjálfsögðu bezt kannaðir af kunnáttumönnum um beina og óbeina skatta, en skattkerfi okkar er flókið og margþætt og ekki hverjum og einum sem opin bók. Með þeim hætti gæti hæstv. ríkisstjórn markað stefnuna um það, á hvern hátt fjárins yrði aflað, sem ríkissjóður þarfnast, eins og hv. meiri hl. fjvn. telur rétt og eðlilegast að ríkisstj. geri.

Minni hl. fjvn., sem stendur að nál. á þskj. 573, hefur ekki talið ástæðu til að benda sérstaklega á ákveðnar leiðir, sem farnar skuli til þess að afla fjár í stað tekjuskattsins, ef hann yrði lagður niður. Um það efni er eðlilegt að kunnáttumenn og sérfræðingar, sem ríkisstj. fengi þar til, létu í té álit og tillögur, en að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því, að þá yrðu valdar þær skattlagningaraðferðir, sem vekja mundu minnsta tortryggni og andúð, þar sem fullkomnustu eftirliti yrði við komið og á sem ódýrastan hátt.

Þáltill. fer aðeins fram á, að þessir möguleikar séu rannsakaðir gaumgæfilega, og þegar slík könnun hefur farið fram, yrði að sjálfsögðu tekin afstaða til málsins, hvort tekjuskatturinn skyldi lagður niður eða ekki. Um slíkt er ekki að ræða í dag, heldur aðeins mælzt til þess, að Alþ. álykti að fela ríkisstj, að láta kanna þessa hluti gaumgæfilega.

Í þáltill. er einnig farið fram á, að kannaðir verði möguleikar til þess, að opinber gjöld verði innheimt af launum, jafnóðum og þau eru greidd, þ. e. að tekin verði upp „pay-as-you-go“-reglan um skattheimtu, sem tíðkast sums staðar erlendis. Á þessari innheimtuaðferð eru nokkrir framkvæmdaerfiðleikar, en kostirnir eru svo augljósir, að vert er, að þetta mál verði vandlega athugað.

Meiri hl. fjvn, hefur lagt til, að þáltill. verði vísað til ríkisstj. Í því felst það raunverulega og samkvæmt viðteknum skilningi, að málið yrði fellt. Í því felst það að mínum dómi, að meiri hl. fjvn. er ánægður með tekjuskattinn og framkvæmd tekjuskattslaganna og telur enga ástæðu til, að rannsókn verði á því gerð, hvort ekki sé tiltækilegt að finna nýjar leiðir í þessum efnum, sem ekki eru eins hrópandi ranglátar og sú, sem nú er farin. Í því felst það einnig, að meiri hl. fjvn, telur enga ástæðu til þess, að athugun fari fram um það, hvort ekki sé rétt að taka upp „pay-as-you-go“-regluna í skattheimtu yfirleitt, ef það þætti koma í ljós, að með því yrði skattheimtan öruggari og betur við hæfi skattgreiðenda, en nú tíðkast. Slík er afstaða meiri hl. fjvn. Ég held, þó að nokkrir mánuðir séu liðnir síðan þessu máli var vísað til fjvn., hafi þessi hv. meiri hl. n. ekki kynnt sér eða ekki hugsað málið nægilega vel. Málið er vissulega stórt og þýðingarmikið, en ekki á þann veg, að það sé ástæða til að skeifast það.

Við, sem skipum minni hl. fjvn., hv. þm. Borgf., hv. þm. V-Sk., hv. 2. þm. Eyf: ásamt mér, teljum fulla ástæðu til að gefa málinu frekari gaum og leggjum til, að þáltill. verði samþ.