30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í D-deild Alþingistíðinda. (2468)

141. mál, afnám tekjuskatts

Frsm. meiri hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að tala hér langt mál í sambandi við þetta, en ég dreg í efa, að það væri heppileg stefna að afnema löggjöf fyrir það, að það hefur ekki tekizt reglulega vel að framkvæma hana.

Því var haldið hér fram á Alþ. fyrir stuttu í sambandi við annað mál, að það væri hægt að forða mönnum frá vanskilum með því að gefa þeim eftir skuldir. Nú er hægt að forða mönnum frá skattsvikunum með því að innheimta engan skatt hjá þeim. Og ég er ekki alveg viss um, að það mundi verða heppilegt og þjóðfélagið mundi þola það, ef þannig væri á málum tekið, að ef einhverjum hópum manna tækist að svíkjast aftan að lögunum, þá ætti bara að afnema lögin, en ekki gera annað. Ég held, að það, sem þyrfti frekar að gera í þessu, væri að gera þessi lög auðveldari í framkvæmd, en verið hefur og með því móti að koma í veg fyrir, að skattsvik ættu sér stað, en ekki afnema þau. Ég er heldur ekki búinn að sjá það, að við mundum finna annað form, sem betur hentaði og ekki væri þá hægt að sniðganga einnig.

Eins og fram kemur í áliti meiri hl., er það skoðun hans, að málið sé ekki á því stigi, að það sé þess vegna ástæða til að fá neina viljayfirlýsingu frá Alþ. um það og ríkisstj, geti haft forustu í málinu, ef henni sýnist svo, og þess vegna sé eðlilegt, að hún fái að fjalla um það.