14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

73. mál, kosningar til Alþingis

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Það hefur þegar verið á það minnt í þessum umr., að mþn. til að endurskoða kosningalög til Alþingis og kosningalög til sveitarstjórnar sæti að störfum. Þetta er rétt, og vegna þess að það vill nú svo til, að ég á sæti í þeirri n., þykir mér rétt að segja örfá orð um þetta mál, áður en það fer til nefndar.

Mþn. var kosin samkvæmt ályktun Alþingis; sem hljóðar svo, með leyfi hæstv, forseta: „Alþingi ályktar að kjósa 7 manna nefnd til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar.“ Þetta er sú ályktun, sem er grundvöllur að starfi mþn.

Hv. Alþ. setti nefndinni engin tímatakmörk, hvenær hún ætti að skila starfi sínu, hvorki fyrir neitt ákveðið þing né í sambandi við ákveðnar kosningar, hvorki kosningar til Alþingis né til sveitarstjórnar. N. hefur því litið þannig á, að henni bæri skv. þessari ályktun Alþingis að taka til gaumgæfilegrar endurskoðunar í heild lögin um kosningar til Alþingis og lögin um sveitarstjórnarkosningar. En þegar endurskoða á þessa löggjöf í heild, koma að sjálfsögðu til greina mörg atriði, sem vert er að íhuga og gefa sér gott tóm til þess.

N. hefur því ekki lokið störfum, þó að hún hafi unnið allmikið verk.

N. hefur t.d. leitað umsagna um þessi mál, að því er varðar kosningalög til Alþingis, hjá öllum yfirkjörstjórnum í landinu. Og að því er varðar kosningar til sveitarstjórna, hefur n. leitað eftir áliti hjá öllum sveitarstjórnum í landinu og fengið svör frá allmörgum og ýmsar ábendingar, sem vissulega eru þess eðlis, að sjálfsagt er að íhuga þær gaumgæfilega. Enn fremur hefur n. aflað sér kosningalaga frá mörgum löndum, mjög mörgum löndum, og á vegum n. hefur verið lögð í það mikil vinna að gera sér grein fyrir því, hvernig framkvæmd kosninga og ákvæðum kosningalaga er háttað með öðrum þjóðum, sem búa við sams konar stjórnarform og við. En allt þetta er vert að hafa til athugunar og hliðsjónar, þegar heildarendurskoðun fer fram á kosningalöggjöfinni.

Ég get ekki eða vil ekki fullyrða um það nú, hvenær mþn, lýkur störfum, en ég tel ekki miklar líkur til þess, að álit hennar og till. verði lagðar fyrir það þing, sem nú situr. Hitt er svo annað mál, að mþn. hefur vitanlega ekki skoðað það sem sitt hlutverk að hafa nokkur áhrif á það, þó að einstakir þm. hreyfðu breytingum á kosningalögunum, áður en hún hefði lokið störfum. Og þetta hefur komið fyrir á undanförnum þingum, eftir að mþn. var skipuð. Ég ætla, svo að dæmi sé nefnt, að fulltrúar Þjóðvarnarflokksins, sem áttu sæti á Alþingi á síðasta kjörtímabili, hafi t.d. flutt frv. til breytinga á kosningalögunum, án þess að það kæmi að nokkru leyti til kasta mþn. að fjalla um það. Og nú á dagskrá þessa fundar hér í dag er frv, til breytinga á lögum um sveitarstjórnarkosningar, flutt af hv. þm. A-Húnv., og hefur mþn. að sjálfsögðu á engan hátt fjallað um það eða hlutazt til um það mál á einn eða annan hátt.

Það er ótvírætt, að tilgangur kosningalaga er sá, að kjósandinn sé frjáls að því að fara með atkvæðisrétt sinn, eftir því sem hans eigin skoðun segir honum til um. Þess vegna þurfa ákvæði kosningalaga annars vegar að beinast að því, að kjósandanum sé gefið tækifæri til þess og nægilega rúmur tími til þess að neyta atkvæðisréttar síns, en á hinn bóginn að því, að kjósandinn þurfi og eigi í sambandi við kosningarnar að verða fyrir sem minnstu ónæði og áreitni af hálfu annarra.

Af hálfu þeirra, sem andmæla því frv., sem hér liggur fyrir, er það talið aðalannmarki þess, að með ákvæðum frv. sé gerð tilraun til þess að þrengja eða stytta þann tíma, sem kjósandi á kost á því að greiða atkvæði. Það verður því að telja, að frá sjónarmiði þeirra, sem halda þessari skoðun fram, muni 2. gr. frv. teljast aðalatriði þess, þ.e. að kjörfundi skuli ljúka kl. 11 að kvöldi á kjördag.

Nú er það svo, að fólksfjöldi er mjög, misjafn í kjördæmum og á einstökum kjörstöðum, og þar sem fámenni er, er í sjálfu sér ekki þörf á því, að kjörfundur standi eins lengi og ástæða er til, þar sem fjölmenni er mikið, enda heimila kosningalögin nokkurn mismun í þessu efni eftir aðstöðu á hverjum stað.

Í kosningalögunum segir, að kjörfundi megi slíta, þegar allir, sem á kjörskrá eru, hafa greitt atkvæði. Kjörfundi má enn fremur slíta, þegar hann hefur staðið 5 klst., ef öll kjörstjórnin og umboðsmenn eru sammála um það, enda sé þá hálf klukkustund liðin frá því, að kjósandi gaf sig síðast fram. En þetta ber að skoða fremur sem heimildarákvæði og undantekningar frá þeirri meginreglu, að kjörfundur eigi samkvæmt lögunum, eins og þau eru nú, að standa til kl. 12, að standa tólf klst. og sé ekki slitið fyrir miðnætti, og í viðbót við það gefinn nokkur frestur til þess að bíða eftir fólki, sem kynni að gefa sig fram eftir þann tíma. Og það eru einmitt ákvæðin um þessa fresti, sem valda þeirri teygju, sem orðið hefur í framkvæmd á sumum stöðum í þessu efni, að kosningar dragast fram á næsta sólarhring eftir hinn eiginlega kjördag.

Nú er það svo, að þó að Reykjavík hafi sérstöðu hér á landi að því leyti, er til fólksfjölda tekur, þá er fjölmenni hér í Reykjavík ekki mikið á borð við það, sem er t.d. í borgum næstu nágrannalanda okkar, þó að ekki sé leitað til stórveldanna um samanburð. Í því sambandi finnst mér fróðlegt að glöggva sig á því, hvernig þessum ákvæðum er skipað í lögum nágrannaþjóða okkar, sem hafa mjög svipað stjórnarform og við og haga kosningum sínum almennt talað mjög á svipaðan hátt og hér gerist.

Vegna þess að ég á sæti í þeirri n., sem drepið hefur verið á að er að störfum, hefur mér gefizt kostur á því að gefa þessu gætur, og ætla ég með örfáum orðum að skýra frá því, hvernig hliðstæðum ákvæðum er háttað í lögum þeirra þjóða, sem næstar okkur eru.

Í Danmörku eru í gildi lög um kosningar til löggjafarþingsins frá 1953, og lög um sveitarstjórnarkosningar í Danmörku eru einnig frá því sama ári. Því er eins farið þar eins og hér, að mörg almenn ákvæði kosningalaganna, sem standa í lögum um kosningar til löggjafarþingsins, gilda einnig um kosningar til bæjar- og sveitarstjórna. Um þann tíma, sem kjörfundur á að standa, er svo ákveðið í dönsku kosningalögunum, að í borgum og bæjum á kjörfundur að hefjast kl. 9 að morgni og standa til kl. 21, þ.e. til kl. 9 að kvöldi, en eftir það á að slíta kjörfundi, ef enginn gefur sig fram, en leyfa þeim, sem komnir eru á kjörstað kl. 9 að kvöldi, að neyta atkvæðisréttar síns. En í öðrum sveitarfélögum, en borgum og bæjum, er gert ráð fyrir því í lögum, að kjörfundur hefjist kl. 9 að morgni, en sé lokið kl. 20, þ.e. kl. 8 að kvöldi.

Í Noregi er þessu þannig háttað, að lög um kosningar til Stórþingsins eru að stofni til frá 1920, en tóku allmiklum breytingum 1953. Í norsku kosningalögunum eru ekki bein ákvæði um það, hvað kjörfundur á að standa langan tíma kjördaginn. Það virðist vera reglugerðarákvæði og tímann eigi að auglýsa á hverjum kjörstað fyrir sig. En þegar sá tími er kominn, sem auglýst hefur verið að kjörfundi eigi að slíta, skal viðstöddum kjósendum, þ.e. þeim kjósendum, sem þá eru komnir á kjörstað, gefinn kostur á að greiða atkvæði, en ekki beðið eftir fólki, úr því að sá tími er kominn.

Kosningalög Svíþjóðar eru að meginefni frá 1920, en ýmsar breytingar hafa verið gerðar á þeim síðan, og síðast var þeim breytt 1952. Í þeim lögum segir, að kosning skuli hefjast kl. 9 að morgni á kjördag og ljúka kl. 20 að kvöldi, þ.e.a.s. kl. 8 að kvöldi í sveitum, en ljúka kl. 21 í borgum og bæjum. Í Svíþjóð eins og í fleiri löndum fer kosning fram á sunnudegi, og í sænsku kosningalögunum er ákvæði, sem ég hygg að sé nokkuð sérstakt, því að þar er beinlínis tekið fram, að ef guðsþjónusta fari fram á kjördegi og í þeirri kjördeild, þar sem kosning fer fram, skuli gera hlé á kosningunni, meðan á guðsþjónustunni standi, innan þeirra tímamarka þó, sem ég áðan greindi. Þetta bendir til þess, að þar í landi þyki sjálfsagt, að mikil alvara og ró ríki á kjördaginn.

Lög um kosningar til finnska ríkisdagsins eru frá 1952, en lög um sveitarstjórnarkosningar í Finnlandi eru frá 1953. Þar er kosning að því leyti frábrugðin því, sem ég hef nú áður greint, að þar er ákveðið, að kjördagar skuli vera tveir, þ.e.a.s. hvor eftir annan, og fyrri kjördaginn á kjörfundur að hefjast kl. 12 á hádegi og standa til kl. 20, þ.e.a.s. til kl. 8 að kvöldi, en seinni daginn á kjörfundur að hefjast kl. 9 að morgni og vera lokið kl. 8 að kvöldi, en allir, sem þá eru komnir á kjörstað, þegar kjörfundi á að slíta, skulu þó eiga rétt á að kjósa, en ekki er talið skylt eða rétt að bíða eftir kjósendum, þegar sá tími er kominn.

Ég skal ekki fara lengra út í þetta. En vegna þeirra ummæla, sem hér komu fram þegar við þessa umr., bæði gagnvart starfi milliþinganefndarinnar og gagnvart því, hvort það hefði verið athugað, hvernig hliðstæð ákvæði væru með öðrum þjóðum, þótti mér rétt þegar við þessa 1. umr. málsins að láta þetta koma fram.