30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 138 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

129. mál, brúargerð yfir Borgarfjörð

Frsm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Fjvn. fékk til athugunar till. um rannsókn á brúargerð yfir Borgarfjörð. N. leitaði umsagnar vegamálastjóra um málið, og skilaði hann áliti um það. Það kom fram í áliti vegamálastjóra, að mikil nauðsyn ber til þess að vinna að því, eins og tök eru til, að stytta landleiðir, þar sem flutningar á þeim fara mjög ört vaxandi og eru dýrir. Hins vegar benti vegamálastjóri á það, að nauðsyn væri að athuga fleiri möguleika til þess að stytta landleiðina til Borgarfjarðarhéraðs og Vestur- og Norðurlands.

Það kom hér fram við fyrri umr. þessa máls hjá hv. 1. þm. Eyf. (BSt), að hann benti á, að nauðsyn bæri til að athuga þetta mál á nokkru breiðari grundvelli en till, gerði ráð fyrir í upphafi.

Fjvn. hefur fallizt á þessa skoðun bæði hv. 1. þm. Eyf. og vegamálastjóra og hefur því breytt till. í samræmi við það. Hún er sammála um að mæla með því, að till. verði samþykkt með þeirri breytingu, sem gerð er á þskj. 474, en sú breyting er á þá leið, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hlutast til um, að vegagerð ríkisins láti fram fara rannsókn á því, á hvern hátt unnt sé að stytta landleiðina frá Reykjavík til Borgarfjarðarhéraðs og Vestur- og Norðurlands. Skal í því sambandi m.a. athuga möguleika á framkvæmd og kostnaði við endurbót á veginum um framanverðan Svínadal og Geldingadraga, brúargerð yfir Borgarfjörð milli Seleyrar og Borgarness og að komið yrði á ferju yfir Hvalfjörð milli Hvalfjarðareyrar og Kataness.“

Fjvn. stóð öll að því að leggja til, að till. verði samþykkt svo breytt, nema einn nm., Karl Kristjánsson, var fjarstaddur, þegar málið var afgr.