14.12.1957
Neðri deild: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

73. mál, kosningar til Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð. — Hv. 1. þm. Reykv. (BBen) spurði, hvort milliþinganefndin hefði undirbúið þetta frv., og því er skjótsvarað, að það hefur mþn. ekki gert. Hann spurði, hver hefði samið frv. Það er bezt fyrir hann að álíta, að ríkisstj. hafi samið frv. En hvers vegna er hv. þm, að spyrja um það, hver hafi samið frv.? Hann heimtar þann framseldan, sem hafi samið frv. Ber að skilja þetta sem hótanir? Hann hafði stórfelldar aðfinnslur um það, hvernig frv. væri samið, og heimtar svo manninn framseldan. Eru þetta hótanir? Eða hvað er þetta?

Hv. 1. þm, Reykv. talaði um það af miklum þjósti, að upphaflega hefði í frv. verið bannað að hafa markaskrár í vasanum á kjörfund. Og það var svo að heyra á hv. þm., að hann hefði talið þetta fullkomna óhæfu, að ekki væri heimilt að hafa markaskrá í vasanum á kjörfund. Það mundi nú margur spyrja: Hvaða nauðsyn ber til þess að hafa markaskrá í vasanum á kjörfundinn? Og þá hitt: Hvaða markaskrá er það, sem hv. þm. á við? Á hann kannske við, að það hefði þá t.d. verið bannað að hafa markaskrá Sjálfstfl. í vasanum á kjörfundinn? Ég held, að það hefði ekki verið nein goðgá, þó að menn yrðu að láta markaskrá Sjálfstfl. vera eftir heima, þegar þeir færu á kjörfundinn, t.d. umboðsmenn flokksins. Það væri ekki mikill skaði skeður, þó að þeir fengju ekki að hafa hana með sér.

Þá spurði hv. þm. eitthvað á þá lund, hvort það væri rétt að gera það að einkamáli, hvort menn mættu á kjörfundi eða ekki. En ég spyr: Hvaða nauðsyn ber til þess, að flokksapparat sjálfstæðismanna viti það upp á hár, hvort menn fara á kjörstað eða ekki? Hvaða nauðsyn ber til þess, að flokksapparatið verði endilega að vita þetta? Hvaða lýðræðislega nauðsyn ber til þess? Er ekki rétt, að menn ráði því sjálfir, hvort þeir fara á kjörfundinn eða ekki? Og hvaða skaði er skeður, þó að apparatinu yrði eitthvað torveldari eftirleitin til þess að knýja menn til að fara á kjörfundinn?

Þá sagði hv. þm., að ef þetta ætti að vera til þess að fyrirbyggja eitthvað, sem héti kosningakúgun eða þess konar, þá væri ekkert gagn að þessum lögum til þess, því að kosningakúgun — ég held að hann hafi notað það orð — gæti hvergi átt sér stað nema þá á svæðum, þar sem lagaákvæði þessi hefðu engin áhrif. Og í því sambandi fór hann nokkrum um, að það mundi vera hægt að vita það á ýmsum stöðum á landinu, hvernig hver einstakur greiddi atkvæði. Það væri fróðlegt að vita, hvernig hv. 1. þm. Reykv. fer að því að vita, hvernig hver einstaklingur greiðir atkv. Eða hafa kannske sjálfstæðismenn fundið upp einhverja aðferð til þess? Á kannske með þessu, sem hv, þm. er að dylgja um, að gefa það í skyn, að mönnum sé vissara að breyta ekki mikið út af því, sem sjálfstæðismönnum líki, í kjörklefanum, af því að það séu til aðferðir til þess að komast eftir því, hvernig menn kjósi?

Allt er þetta vitanlega út í bláinn. Kosningin er fullkomlega leynileg og ekki hægt að vita, hvernig hver einstaklingur kýs.

Þá kom hv. 1. þm. Reykv. að því, að Framsfl. notaði fjármálavald sitt í kosningum. Við þekkjum nú öll ákaflega vel, hver er háttur pörupilta yfirleitt. Hann er sá að brigzla öðrum um það, sem þeir brjóta sjálfir af sér. Þetta er gamalt og alkunnugt bragð. Það vita allir, að Sjálfstfl. byggir fylgi sitt í Reykjavík fyrst og fremst á atvinnurekendavaldi í bænum og bæjarstjórnarkerfinu og því valdi, sem hann fær með margvíslegu móti yfir mönnum á þann hátt, En það hentar náttúrlega ekki vel fyrir hv. 1. þm. Reykv. að segja frá þessu, heldur vill hann freista þess, ef nokkur kostur væri, að draga athyglina frá því, og þá er gripið til þess að bregða öðrum um þetta.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um málið. Ég stóð upp eingöngu til þess að svara örfáum atriðum af öllu því, sem hv. 1. þm. Reykv. beindi til mín sérstaklega.