05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2480)

137. mál, stjórnarráð Íslands

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, þá er nú nokkuð meira, en hálf öld liðin, frá því að æðsta stjórn í flestum málum Íslands var flutt inn í landið og þá stofnað stjórnarráð Íslands. Um þessa stofnun, sem síðar hefur orðið mun umfangsmeiri og nú í marga áratugi hefur raunverulega farið með æðstu stjórn í málefnum ríkisins, er engin heildarlöggjöf til. Um það bil sem hún var fyrst sett á stofn, var um hana sett nokkur löggjöf. Slitur af þeirri löggjöf er í gildi enn. Henni hefur síðan verið breytt og þó engan veginn í samræmi við kröfur tímanna né við þá framkvæmd, sem orðið hefur. Það má því segja, að sú löggjöf, sem til er, hefur að mestu leyti fallið niður fyrir venju og er að sáralitlu leyti raunverulega í gildi nú.

Þetta hefur orðið til þess, að skipun starfa í þessari stofnun er mjög á ringulreið. Það er mjög óljóst, hvaða ráðuneyti eru raunverulega til í stjórnarráðinu. Gott dæmi þess er bréf, sem nýlega var lesið upp hér í Alþ. frá hæstv. sjútvmrh. til Sjálfstfl. um stækkun landhelginnar eða undirbúning þess. Sjútvmrh, skrifaði undir bréfið, en það var á bréfhaus frá landbrn.

Ég hygg að, að lögum sé hvorugt þessara ráðuneyta til, hvorki sjávarútvegsmálaráðuneyti né landbúnaðarráðuneyti, heldur atvinnumálaráðuneyti.

Sá glundroði, sem í þessu er, er engan veginn nýr og er ekki að kenna núverandi stjórn, heldur hefur þetta komizt á með margra áratuga víkkun starfssviðs stofnunarinnar, fjölgun verkefna. Þau hafa hvert um sig orðið umfangsmeiri, og fleiri menn hefur þurft til þess að leysa þau af hendi. Þó kemur það einnig til, sem kunnugir menn vita, að stundum hefur í þessari stofnun vandamálið um það, hvern ætti að velja sem forustumann af embættismönnum tiltekins ráðuneytis eða stjórnardeildar, verið leyst með því, að sá ráðh., sem hefur haft um þetta úrskurðarvald, hefur gert forstöðumennina tvo í stað eins. Það er auðvelt að leysa málið með þeim hætti, en það kostar fé, og það er alveg ósýnt, að það leiði til hagkvæmari afgreiðslu málanna, heldur hefur þetta þvert á móti því miður orðið til þess, að stjórnarráðið er að ýmsu leyti fyrirmynd um eyðslu og óhæfa starfsskipun, — stofnun, sem ætti að vera öðrum til fyrirmyndar um reglusemi og gott starfsskipulag, hefur þróazt í alveg hið öfuga. Slíkt er engum til góðs, og verður að ráða bót á. Það er vonlaust að ætla sér að koma á betri skipan ýmiss konar lægri stofnana undir eða fyrir milligöngu stofnunar, sem er jafnilla skipulögð sjálf eins og stjórnarráðið nú er orðið. Og eins og ég sagði, það er engum einstökum þar um að kenna. E.t.v. á flokkaglundroðinn í landinu og hinar mismunandi samsteypustjórnir og löngun hvers ráðh. til þess að láta nokkuð eftir sig liggja og gera mest úr þeim stjórnardeildum, sem undir sig heyra, — allt kemur þarna til, þangað til það nú er sannast sagt orðið nánast óskapnaður, sem verður að reyna að koma í betra horf. Það á hér við sem ella, að eftir höfðinu dansa limirnir, og sú skipun, sem þarna er höfð, er annaðhvort líkleg að verka til ills eða góðs, og það er enginn vafi á því, að þó að margt mætra manna, mjög mætra, sé í stjórnarráðinu, þá eru starfshættirnir í heild þannig, að ekki er til fyrirmyndar.

Ég hef sjálfur átt þess kost annars vegar að standa fyrir starfrækslu Reykjavíkurbæjar og hins vegar vinna nokkuð lengi í stjórnarráðinu, og ég ber það ekki saman, hversu hagkvæmari vinnubrögð eru í starfrækslu Reykjavíkurbæjar og þar betur lagað til þess, að líklegt sé, að heppilegar ákvarðanir séu teknar í afgreiðslu mála og sparlega á haldið. Þar kemur að vísu einnig fram, að þar hefur einn flokkur lengst af ráðið og ekki orðið sú togstreita og glundroði, sem er óhjákvæmilega samfara því, þegar margir flokkar togast á um völdin, skiptast ört á, og það sem enn þá verra er í þessu sambandi, vinna margir saman með mjög mismunandi sjónarmið og hver otar sínum tota eða togar í sinn skækilinn til sín.

Þetta er áreiðanlega þýðingarmeira má] en í fljótu bragði skyldi ætla, og mál, sem mikilsvert er, eins og sum fleiri, að menn reyni að koma sér saman um að leysa án flokkságreinings. Það eru líkur til þess í lýðræðisþjóðfélagi, að flokkar skiptist á um völd, einn hafi völdin í dag, annar á morgun, og það er ákaflega mikilsvert, ef þeir, sem nokkra reynslu hafa af þessu og þekkja af eigin raun, hverjir ágallar eru, gætu komið sér saman um nýtt og betra skipulag, sem byggt væri á þeirri reynslu, sem fengin er, Það hafa allir stjórnmálaflokkar jafnan hag af því, að stofnun slík sem stjórnarráðið sé hæf til sinna starfa, að hún sé í uppbyggingu þannig, að hún verði sá bakhjallur góðrar stjórnar í landinu, sem hún þarf að vera, og geti leyst sín verkefni vel af hendi með sem minnstum mannafla og þar með minnstum kostnaði. Þess vegna held ég, að það sé líklegra til árangurs í þessu, að tekið væri upp um lausn þessa máls samstarf allra flokka, heldur en þótt skorað væri á núverandi hæstv. ríkisstj. að gera hér tillögur til bóta, eða þó að við andstæðingar stjórnarinnar tækjum okkur til og semdum frv. að heildarlöggjöf fyrir stjórnarráðið. Eðli málsins samkvæmt hlýtur undirbúningur slíkrar löggjafar að vera í höndum sérfræðinga ríkisstjórnarinnar, en jafnframt hygg ég, að það sé miklu líklegra til góðs árangurs, að þarna legðu allir hönd á plóginn og reyndu að finna þá skipan, sem líklegast er að geti orðið til frambúðar. Þess vegna legg ég hér til, að kosin verði fimm manna mþn. með hlutfallskosningu í sameinuðu þingi til að vinna þetta verk.

Ég vonast til þess, að till. fái góðar undirtektir, legg til, að henni verði vísað til 2. umr., og þar sem hér er um að ræða mál, sem er líklegt að geti orðið til mjög mikils sparnaðar, bæði beint og óbeint, þá legg ég til, tel eðlilegast, að till. verði vísað til hv, fjvn.