30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (2490)

179. mál, styrkur til flóabátsins Baldurs

Frsm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur flóabáturinn Baldur annazt vöruflutninga á milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur. Hefur rekstur hans jafnan verið með miklum myndarskap og dugnaði, því að hér er oft um erfiða leið að fara, því að innfirðir Breiðafjarðar eru oft ísi lagðir, og hefur báturinn kappkostað þjónustu við fólkið, þó að við slík erfið skilyrði hafi verið að etja.

Á s.l. hausti varð báturinn fyrir því tjóni að fá áfall á sig hér í Faxaflóa, sem varð mjög alvarlegt, og munaði litlu, að það ylli slysi, en sem betur fer varð hjá því komizt. Síðan varð hann fyrir öðru áfalli, og þegar hann var svo tekinn til viðgerðar í skipasmíðastöðinni í Stykkishólmi, var það að áliti ráðamanna eðlilegt að láta fara fram á bátnum gagngerða endurbót samhliða því, sem gert var við sjótjónið.

Ráðamönnum var það hins vegar ljóst, að það var ofurefli fyrir þá að koma því í framkvæmd, að þessi endurbót yrði gerð, nema fengin yrði aðstoð einhvers staðar frá í sambandi við þá framkvæmd. Það var því leitað til ríkisstj. og Alþ. um að fá sérstakan styrk til þess að framkvæma þessa endurbót. Þm. Breiðafjarðarbyggða ásamt 10. landsk. þm. (PP) og 11. landsk. þm. (FÞ) fluttu till. hér á Alþ., sem vísað var til hv. fjvn. N, hefur athugað þetta mál og hefur í því sambandi kynnt sér aðstæður og afkomu útgerðarfélagsins og það, að hér er verið að gera gagngerða endurbót á bátnum. Það er kunnugt, að fjárhagur útgerðarfélagsins er með þeim hætti, að því er um megn að standa straum af þessum kostnaði, eins og ég áður sagði, en þar sem fyrir því eru fordæmi, að flóabátum hefur verið veittur sérstakur styrkur vegna aðgerða, þá féllst fjvn, á að mæla með því, að svo yrði gert í þetta sinn.

N. leggur því til, að till. verði samþykkt með þeirri breytingu, sem er á þskj. 510, að tillgr. orðist svo:

„Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að greiða útgerðarfélagi flóabátsins Baldurs SH-106 kr. 100.000.00 sem viðbótarstyrk vegna endurbóta.“