02.06.1958
Sameinað þing: 49. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (2505)

193. mál, Hótel Borg

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Fjvn. kynnti sér mál þetta eftir föngum, með því t.d. að fá til viðtals við sig annan hinn væntanlega kaupanda Hótel Borgar, Pétur Daníelsson hótelstjóra. Upplýsti hann m.a., að umtalað væri, að kaupverð hótelsins yrði 18.2 millj. kr., og væri það skv. mati, sem farið hefði fram á eigninni fyrir tveimur árum að tilhlutun ríkisstj. Í kaupverðinu væri innifalið allt innbú hótelsins, það er tilheyrði rekstri þess. Þá upplýsti hann, að um 6 millj. kaupverðsins ættu að greiðast strax, en eftirstöðvar með árlegum afborgunum á allt að 20 ára tíma. Um stækkun hótelsins sagði hann, að ætlunin væri að byggja ofan á það og bæta með því við 40–50 gestaherbergjum, en nú er 41 gestaherbergi á Hótel Borg. Loks sagði hótelstjórinn, að Hótel Skjaldbreið yrði starfandi áfram, a.m.k. fyrst um sinn, en það skiptir máli, að ekki gangi hótelreksturinn saman í höfuðborginni við eigendaskiptin á Hótel Borg, þó að hitt væri að vísu enn þá bagalegra, ef Hótel Borg væri lögð niður sem gistihús, eins og nærri kynni að liggja, ef af þessum kaupum gæti ekki orðið.

Ríkinu hefur verið það mjög mikilsvert, að Hótel Borg var byggð á sínum tíma og rekin öll þessi ár síðan, því að þangað hefur verið skjóls að leita fyrir erlenda gesti ríkisins, auk þess að þar hafa landsmenn getað leitað sér dvalarstaðar. Er ekki ofmælt í grg. till., að hið mesta vandræðaástand mundi af því leiða, ef rekstur hótelsins félli niður, og að þjóðarnauðsyn sé að koma í veg fyrir það.

Fjvn. telur, auk þess sem tekið hefur verið fram, áhættulaust fyrir ríkið að ganga í umbeðna ábyrgð, af því að kaupendur virðast hafa skilyrði til að setja fullnægjandi tryggingu.

N. mælir samkv. framansögðu samhljóða með samþykkt tillögunnar.