03.06.1958
Sameinað þing: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2530)

190. mál, endurkaup seðlabankans

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þarf litlu við að bæta það, sem ég hef þegar sagt. En ég vil benda hv. þm. G-K. á það, að ég sagði alls ekki, að hæstv. iðnmrh. hefði getað fullnægt þörf iðnaðarins á rekstrarlánum. Ég tók það mjög greinilega fram, að hann hefði gert það, sem hann hefði getað, en um árangurinn væri erfitt að segja, því að rekstrarlán atvinnuvega væru eilífðarmál. Þörfin vex og minnkar, og það er því varla um að ræða að fullnægja algerlega þörf þar. Það er ekki vegna þess, að ég sjái, að hann hafi ekki náð nægilegum árangri, sem ég styð þessa till. í því formi, sem ég vil breyta henni, þvert á móti, heldur finnst mér, að ef Alþingi vill láta slíka viljayfirlýsingu í ljós, þá muni það verða góður stuðningur iðnmrh. í áframhaldandi viðleitni hans til þess að greiða fyrir iðnaðinum og fjármálum hans, eins og hann framast getur, og muni styrkja hann frekar, en hið gagnstæða, í þeirri viðleitni. Það er einmitt það gagn, sem þessi till. getur fyrst og fremst gert. En að öðru leyti veit ég það, að iðnmrh, og aðrir ráðh., sem þessi mál kunna að heyra undir, munu kanna þetta mál ofan í kjölinn, vinna að því eins og framast er unnt, að iðnaðurinn fái eins mikið rekstrarfé og hægt er að láta honum í té.

Það eru engin ný sannindi, sem ég fór með hér, að það muni ekki liggja ónotað lánsfé neins staðar. Erfiðleikarnir við að gera slíka hluti sem þessa eru, að það mun sennilega þurfa til að auka verulega lánsfé iðnaðarins að taka lánsfé af einhverjum öðrum, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. G-K. viti betur en nokkur annar hér, að það er ekki auðvelt að gera slíka tilflutninga. Þess vegna er þetta mál ekki eins auðvelt og það væri ella, ef peningarnir væru til.