16.04.1958
Sameinað þing: 39. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í D-deild Alþingistíðinda. (2537)

23. mál, framlag til lækkunar á vöruverði

Frsm. (Karl Guðjónsson):

þáltill., sem fjvn. hefur hér skilað áliti á, var flutt á s.l. hausti og fjallar um það, að birtur verði útreikningur á því, hverju sé varið af opinberu fé til niðurgreiðslu á vöruverði á einstökum vörutegundum, þannig að almenningur eigi aðgang að því og geti á hverjum tíma vitað, með hverjum hætti þessar greiðslur eru og hver áhrif þær hafi á vísitölu í landinu. Þegar till. kom fram, mun ekki hafa legið neitt fyrir af opinberum skjölum um þessa hluti. Hins vegar liggur það nú fyrir, að í janúarhefti Hagtíðinda hefur hagstofustjóri birt um þetta nákvæma skýrslu og að því er ég ætla eins nákvæma og sundurliðaða og till. ætlast til. Að því leyti sem till. fjallar um liðinn tíma og yfirstandandi, þá lítur fjvn. svo á, að efni till. sé þegar fullnægt. En að því er varðar framtíðina, — því að till. gerir einnig ráð fyrir því, að jafnóðum verði slíkar upplýsingar gefnar, — þá telur fjvn. eðlilegt, að svo verði, og vill vænta þess, að svo verði gert, og hefur þess vegna skilað áliti um till., — áliti, sem liggur fyrir á þskj. 355, þar sem það er látið í ljós, að efni till. sé þegar framkvæmt og n. telji sig mega ætlast til þess, að framvegis verði birtar þær breytingar, sem kunna að verða gerðar á slíkum niðurgreiðslum. Þá telur n. ekki ástæðu til að samþykkja till., en leggur til, að hún verði afgreidd með rökstuddri dagskrá, svo hljóðandi:

„Með því að í janúarhefti Hagtíðinda 1958 er birt nákvæm skýrsla um framlag ríkissjóðs til lækkunar á vöruverði, sundurliðuð á þann hátt, sem till. gerir ráð fyrir, og í trausti þess, að framvegis verði birtar allar breytingar á þessu framlagi, jafnóðum og þær koma til framkvæmda, telur Alþ. ekki ástæðu til að samþykkja tillöguna og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“