16.12.1957
Neðri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

73. mál, kosningar til Alþingis

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Frv. þetta var til 1. umr. hér í deildinni á laugardag. Þá bar ég fram nokkrar fyrirspurnir um efni þess, og þeim fékkst ekki svarað af aðaltalsmanni ríkisstj. þá, hæstv, fjmrh. Síðan var málinu vísað til 2. umr. og allshn., og var fundur haldinn í morgun um málið í allshn. Ég hafði haft trú á því, að hv. allshn. mundi a.m.k. hafa hug á því að gera frv. svo ljóst, að greinilegt væri, hvert efni þess ætti að vera, og hafði því ekki búið mig undir það að semja nál. um málið í heild fyrir fundinn, heldur bjóst við, að það yrði tekið þar til efnisathugunar. Nú veit ég að vísu, að félagar mínir í allshn, eru allra manna sanngjarnastir og áhugasamastir um rétta afgreiðslu þingmála, en í morgun brá svo við, að þeir vildu litið um málið ræða annað, en það, að þeir sögðust vera ráðnir í því að samþykkja það, og þegar ég benti þeim sérstaklega á ákvæði einnar gr., sem væri mjög óljós, og innti þá eftir, hvert efni hennar væri og hvernig tilætlunin væri að framkvæma hana, þá kváðust þeir ekki hafa svör við því. Ég veit að vísu, að það var nokkuð í gamni mælt, en þó kom þar fram, að eitthvert verkefni yrði að skilja eftir fyrir lögfræðinga og dómstóla og þess vegna tæki því naumast og alls ekki að kveða nánar á um, hver tilgangur þess ákvæðis væri. Það er reynslan, að jafnvel þó að meiri umhyggja sé höfð um setningu laga, en lýsti sér í þessu, verða lögfræðingar og dómstólar seint atvinnulausir. Vafaatriðin verða oft ærið mörg, jafnvel þó að menn skeri úr því fyrir fram, sem bersýnilega er áfátt, eins og um það frv., sem hér er um að ræða. En það kemur í ljós, að áhuginn fyrir því að þvinga málið fram er svo mikill, að jafnvel hinir samvizkusömustu og greindustu þm. fást ekki til að íhuga breytingar á því, sem þeir þó viðurkenna að sé með öllu óljóst og raunar óhafandi. Þetta er þeirra afstaða, og þeir ráða sínum gerðum í því vitanlega í okkar frjálsa þjóðfélagi, ef þeir ráða þeim þá sjálfir að vísu, en ekki einhverjir aðrir. En að svo vöxnu máli átti n. ekki samleið um afgreiðslu málsins, enda var það vitað, að jafnvel þrátt fyrir minni háttar leiðréttingar tel ég, að málið sé þannig vaxið, að ekki sé rétt að samþ. það, og lagði þess vegna til, að því yrði annaðhvort vísað frá með rökstuddri dagskrá eða það yrði hreinlega fellt, en meiri hl. vildi skilorðslaust samþ. það án athugunar á einstökum atriðum frv., jafnvel þeim, sem sýnt var fram á að væru harla óljós og raunar alveg óskiljanleg.

Í framhaldi af þessu er svo málið tekið á dagskrá hér á mánudegi, án þess að minni hl. hafi gefizt færi á að semja nál. Ég hef unnið að því í dag að semja álitið, nokkuð í matartíma mínum og síðan hér eftir hádegið. Það var m.a. örðugra, en ella vegna þess ljósleysis, sem var hér í þinghúsinu lengi, og er þess vegna verki mínu ekki lokið, hvað þá að ég hafi getað borið mig saman við samnefndarmann minn, hv. 2. þm. Reykv. Þess vegna verð ég að segja eins og er, að nál. af hálfu minni hl. liggur ekki fyrir. Nú skilst mér af hálfu hæstv. forseta, að það sé ráðgert, að fundur verði hér um málið í kvöld, og vil ég því að svo stöddu stytta mál mitt, halda áfram umr. í kvöld, ef nál, liggur þá fyrir, að öðrum kosti áskil ég mér rétt til þess að ræða málið þeim mun ýtarlegar við 3. umr. nú eða síðar í kvöld, eftir því sem atvik standa til,

Eins og ég gat um við 1. umr., tel ég það megingalla á þessu frv., að það mun verka alveg öfugt við það, sem aðstandendur þess telja. Það er látið uppi, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá, eins og sagt er, að friða kjördaginn. Þetta er alger misskilningur. Það, sem mun nást með þessu frv., en þó einungis í þéttbýlinu og þá einkanlega í Reykjavík, er að hindra flokkana í því að fylgjast með því, hverjir hafa kosið, en þeir hafa hingað til haft áhuga um að fylgjast með þessu til þess að ónáða á kjördegi ekki þá, sem búnir eru að kjósa. Nú á að taka möguleikann frá þeim til að fylgjast með þessu, og rökrétt afleiðing þess hlýtur að verða sú, að þeir ónáði þá héðan í frá jafnt þá, sem eftir eiga að kjósa, sem þá, sem búnir eru að kjósa, úr því að þeir eru sviptir möguleikanum til að fylgjast með þessu. Þetta hlýtur að verða afleiðingin, á meðan ekki eru settar neinar hömlur gegn því í l., að ýta megi við mönnum á sjálfan kosningadaginn um að koma á kjörstað. Ef algert bann væri lagt við því í frv., að flokkarnir mættu hafa nokkurn áróður, nokkra starfsemi eða nokkra fyrirgreiðslu uppi á kjördegi, þá mætti segja, að frv. næði þeim tilgangi, sem sagt er að það eigi að ná. En ekkert af þessu er í frv. Það eina, sem áhrif hefur að þessu leyti í frv., er það, að svipta á flokkana því atriði, sem hefur gert að verkum, að þeir ónáða ekki þá, sem búnir eru að greiða atkv. Þetta er frá þeim tekið, og afleiðingin verður þá sú, sem ég segi, að meiri hætta verður á ófriði, á ónáðun, heldur en nokkru sinni áður.

Ef hægt er að sýna mér fram á aðra afleiðingu frv., þá skora ég á fylgjendur frv. að gera það. Ég lýsti einnig yfir því, að a.m.k. ég og ég hygg allir mínir flokksmenn muni vera fyllilega til viðræðu um það, hvaða ráðstafanir sé hægt að gera til þess að draga úr óhæfilegum áróðri í sambandi við kosningar, alveg eins og við höfum ekki haft að neinu keppikefli að halda kjörfundi áfram lengur, en góðu hófi gegnir. Við teljum hæpið, að það eigi að banna mönnum að kjósa á sjálfum kjördegi, fyrr en hann er liðinn. Ég verð þó að segja, að ég tel það ekkert stóratriði, hvort kjörfundi er hætt kl. 11 að kvöldi eða 12 á miðnætti. Það er algert aukaatriði í þessu sambandi, þó að það horfi til þess að skapa hömlur á kosningarrétti manna, því er ekki að neita. Eins tel ég, að það ákvæði frv. að auka skriffinnsku í sambandi við utankjörstaðaatkvæðagreiðslu horfi til nýrra kosningahamla, að það sé meiningarlaust, ef það á ekki að gera mönnum örðugra, en verið hefur að kjósa, og sérstaklega er greinilegt, að í þéttbýlinu, þar sem stundum tugir manna og jafnvel hundruð kjósa á hverjum degi, geta af þessari auknu skriffinnsku skapazt svo miklar tafir, að menn hverfi burt, þeir sem á kjörstað voru komnir og ætluðu sér að kjósa. Ég tel þess vegna, að þetta ákvæði sé einnig til ills. Ég tel, að það sé ekki neitt stórfellt ákvæði og um þetta megi sjálfsagt segja, að úlfaldi sé gerður úr mýflugu, ef sagt er, að heimurinn hrynji af þessum sökum, — ég játa það, — en mig skortir bara öll rök fyrir að fallast á breytinguna. Ég sé annmarkana við breytinguna, en mig skortir öll rök til þess að fallast á breytinguna, sjá nauðsynina, af hverju menn vilja breyta þessu. Allra helzt skortir mig rök til þess að fallast á samþykkt þessa frv. nú, þegar greinilegt er, að það muni hafa þveröfug áhrif við það, sem yfir er lýst, en vitað er, að n. starfar, mþn. skipuð fulltrúum allra flokka. Hún hefur ekki haft málið til meðferðar. Ég efast ekki um, að málið mundi skýrast við það, ef þessi n. fengi málið til athugunar, og þá það verða óumdeilanlega ljóst, sem nú er, að frv. hlýtur að hafa þveröfug áhrif við hinn yfirlýsta tilgang þess. Þess vegna finnst mér langeðlilegast, að þessu máli yrði vísað frá með rökstuddri dagskrá, en mun væntanlega gera nánari grein fyrir því í nál. og læt mér þetta nægja að svo komnu. — [Fundarhlé.]