23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í D-deild Alþingistíðinda. (2542)

17. mál, eftirgjöf lána

Flm. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Árn. að flytja þá till., sem hér er til umr. á þskj. 21. Tillaga þessi er nokkuð svipuð tillögu, sem við sömu menn einnig fluttum á síðasta Alþingi, en fékk ekki þann stuðning, sem við höfðum vonazt eftir. Eigi að síður hafði till. mikil áhrif á hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar, t.d. það, að nokkur hluti af hallærislánum, sem veitt voru á sínum tíma til Austurlands, var gefinn eftir, vegna þess að við höfðum hreyft málinu með flutningi tillögunnar á Alþ, síðast liðnu. Og till. hafði einnig áhrif á annan hátt, með því að hæstv. ríkisstj. útvegaði sér heimild frá hv. Alþ. til þess að mega afhenda bjargráðasjóði Íslands 101/2 millj, kr. skuldabréf vegna lána á óþurrkasvæðinu 1955 og allt að 3 millj. kr. lána til Austfirðinga frá harðindatímunum á árunum 1949–50,

Þessi var þá árangurinn af flutningi tillögu okkar á s.l. Alþ., og má segja, að hann hafi verið nokkur og við flm. till. gætum eftir atvikum sætt okkur við þann áfanga, sem náðist á síðasta Alþingi: í fyrsta lagi, að töluverð upphæð var gefin eftir að fullu af lánum, sem áttu að gefast eftir, og að spor var stigið í þá átt að gefa hitt eftir, sem ekki fékkst fullt samkomulag um að leysa á síðasta hv. Alþingi. Að ég segi, að það hafi náðst áfangi í þessum málum með afgreiðslu síðasta Alþingis, er vegna þess, að nú hefur hæstv. ríkisstj. afgreitt þetta mál samkv. heimild, sem henni var til þess veitt í fjárlögum yfirstandandi árs. Afgreiðsla málsins er með bréfi, dags. 26. apríl s.l., og ég verð að geta þess, að í grg., sem fylgir þessari till., hefur dagsetning þessa bréf misritazt, og er sagt, að það sé dags. 14. okt., í stað þess að bréfið er dags. 26. apríl. En það út af fyrir sig breytir ekki meiningu þessa máls.

Með bréfi hæstv. ríkisstj. er sett skilyrði fyrir afhendingu nefndra skuldabréfa, en þau skilyrði eru, með leyfi hæstv. forseta, af hálfu ríkisstjórnarinnar, að stjórn bjargráðasjóðs veiti lántakendum, er þess óska, ívilnanir um greiðslu vaxta og afborgana af lánum sínum, svo og með því að lækka eða fella niður vexti, lengja lánstímann eða gefa lánin eftir að einhverju eða öllu leyti, ef sjóðsstjórnin telur þess þörf, að fengnu áliti hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þar sem hæstv. ríkisstj. hefur sett þessi skilyrði, sem ég nú hef lesið, hefur hún í aðalatriðum fallizt á það sjónarmið, sem kom fram með flutningi tillögunnar á s.l. Alþ. og aftur kemur fram í þessari tillögu. Og hvernig ætti annað að vera, þar sem hæstv. ríkisstj, beitti sér fyrir því á síðasta Alþ. að fella niður að fullu nokkurn hluta þeirra lána, sem þá var rætt um? En þegar þetta er athugað, er óskiljanleg sú krókaleið, sem hæstv. ríkisstj. virðist vilja fara að þessu marki, sem við flm. till. stefnum að. Og sú krókaleið verður ábyggilega mjög vandfarin fyrir stjórn bjargráðasjóðsins, ef henni er ætlað að þræða alla þá króka, sem ríkisstj, hefur lagt í veg fyrir hana með þessu bréfi.

Það er vitað mál, að þeir, sem tóku þessi lán, gerðu það vegna þess, að þeir þurftu þess með. Þá vantaði fé til þess að kaupa fóðurbæti á þessum tíma hér á Suður- og Suðvesturlandi, vegna þess að það hafði komið tíðarfar, sem hafði verið óþekkt á s.l. 50 árum. Þeir báru sig eftir lánunum, af því að þá skorti fé. Austfirðingar fengu sína aðstoð einnig af sömu ástæðu. Nú hafa skuldabréfin fyrir nefndum lánum verið afhent stjórn bjargráðasjóðsins til ráðstöfunar með þeim skilyrðum, að þau verði gefin eftir, ef hlutaðeigandi sveitarstjórnir telja það æskilegt, — ekki nauðsynlegt, heldur æskilegt. Dettur nokkrum manni í hug að halda því fram, að sveitarstjórnirnar geti haft aðra skoðun á þessum málum, en það sé æskilegt fyrir þá, sem fengu þessa aðstoð vegna harðinda og sérstakra óþurrka, að þetta verði gefið eftir?

Það er þess vegna lítils virði fyrir bjargráðasjóðinn að hafa fengið þessi skuldabréf til eignar og innheimtu, þegar þessi skilyrði fylgja frá hendi hæstv. ríkisstj. Það er enginn vafi á því, að ef hv. þm. vilja gera svo vel að átta sig á staðreyndunum, þá er það eina rétta málsmeðferðin í þessu máli að ganga hreint til verks og samþykkja, að hæstv. ríkisstj, geri nú þegar ráðstafanir til, að mögulegt verði að gefa þessi lán eftir að fullu. Sú meðferð, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú haft á þessu máli, að afhenda bjargráðasjóði skuldabréfin með þessum skilyrðum, er þannig vaxin, að það er helzt óframkvæmanlegt. Það veldur sjóðsstjórninni miklum erfiðleikum og meðferðin og afgreiðslan á þessu hlýtur að verða mjög leiðinleg. Það verður að fara að meta ástæður manna, gera upp á milli manna. Og það er stefnt að því, að jafnvel þótt sjóðsstjórnin vilji í öllu vera réttlát, þá er eigi að síður stefnt að því að skapa óréttlæti, skapa misræmi, skapa leiðindi á milli nágranna og óréttlæti, sem hægt er að komast hjá á auðveldan hátt með því að samþykkja þá till., sem hér liggur fyrir.

Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um till., en vil leggja til, að henni verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjvn.