23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2549)

17. mál, eftirgjöf lána

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég ætla nú að láta vera að fara að munnhöggvast við hæstv. forseta, þó að hann kunni ekki þingsköp betur en svo, að hann leyfir sér það úr forsetastóli, — hann um það, hann skal gæta sinnar sæmdar, það ætla ég ekki að gera, enda yrði það erfitt verk fyrir mig. En ég vil bara spyrja hann að því: Telur hann það í samræmi við þingsköp og rétta þingháttu, að það sé borið að tilefnislausu upp á þingmann, athugasemdalaust af forseta, að þingmaður komi hér og segi eitthvað beinlínis gegn betri vitund? — Ekki, hvort einhver hafi einhvern tíma sagt það áður, heldur: Telur forseti, að þetta sé í samræmi við þingsköp og rétta þinghætti?