16.12.1957
Neðri deild: 41. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 154 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jón Pálmason:

Herra forseti. Hér fyrr á þessum fundi í dag var til umr. lítið frv., sem ég hef flutt um breytingar á kosningalögum til sveitarstjórna. Það frv. er flutt af minni hálfu af einlægum vilja til þess að afnema eða leiðrétta mjög alvarlegt misrétti, sem á sér stað í sambandi við þessar kosningar og hefur það í för með sér, að það er tekinn atkvæðisréttur af mjög mörgum mönnum, sem flytja milli sveitarfélaga, á því ári, sem þeir flytja. Það lítur út fyrir, að þeir, sem völdin hafa hér á Alþingi, hafi ekki mikinn áhuga fyrir að fá þessa leiðréttingu í gegn.

En það frv., sem hér liggur fyrir til umr., er af allt öðrum toga spunnið. Það er ekki spunnið af þeim toga að fá neina leiðréttingu á misrétti eða göllum, sem eru á núgildandi kosningalögum, heldur liggja til þess allt aðrar ástæður, eins og komið hefur ljóst fram og verið greint frá í þeim umr., sem um þetta mál hafa farið fram í hv. Ed. og hér við 1. umr. í þessari hv. þd. En af því, hvernig hér er í pottinn búið, og af því að kosningamálin, kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna, gripa inn í allt okkar þjóðlíf á margvíslegan hátt, þá get ég ekki stillt mig um að rekja nokkuð í örfáum dráttum aðdraganda að því frv., sem hér liggur fyrir, og þá sögu, sem er um ýmsa þá forustumenn, sem eru hér flm. að. Ég þykist sjá, að þetta frv. sé síðasti liðurinn, sem enn er kominn í ljós, á þeim hala kosningalegra hrekkjabragða, sem einkennt hefur suma af forustumönnum stjórnarflokkanna á síðustu árum, og má segja, að ef ætti að rekja þá sögu langt aftur í tímann, kæmi margt til greina. En ég ætla ekki að fara lengra aftur í tímann, en til þingsins 1953.

Þá var lagt hér fram í þessari hv. d. frv. mikið að vöxtum og með mikilli grg. um breytingar á kosningalögum til Alþingis. Þetta frv. hafði það í sér að fela, að það mætti hrista saman flokkana, kássa þeim saman og færa svo útkomuna í eitt o.s.frv., án þess að það væri gerð nein tilraun til að breyta með því okkar stjórnarskrá.

Glöggir menn sáu fljótt, að þetta frv. var ekki þinghæft í þeirri mynd, sem það var flutt, því að það var byggt á því að breyta okkar stjórnarskrá. Endirinn varð líka sá, að þó að þetta frv. færi til n., þá kom það þaðan aldrei aftur og dagaði uppi, en almennt var það kallað „kássufrumvarpið“.

Nú mætti segja, að þeir menn, sem voru flm. að þessu frv., hafi verið það siðaðir menn, að þeir hafi látið sér það skiljast, að þarna væri ekki hægt að halda lengra áfram á löggjafarleiðinni, en þeir fengu leiðbeiningar úr annarri átt, og leiðbeiningarnar voru þær, að nú skyldu flokkarnir ekkert vera að hugsa um að gera þessa hluti löglega, það væri sjálfsagt að framkvæma þá fyrir því, það mætti brjóta stjórnarskrána, það mætti brjóta kosningalögin o.s.frv. Um þetta stóðu samningar í tvö til þrjú ár, og sú leiðin var farin. Það var undirstaðan undir hinu svokallaða Hræðslubandalagi, sem alþekkt var í síðustu kosningum og kunnugt er síðan og byggðist á því og það svo, að ekki er um að villast, að brjóta stjórnarskrá íslenzka ríkisins og þverbrjóta eina af þýðingarmestu greinum þeirra kosningalaga, sem hér er nú frv. um að breyta í öðrum atriðum.

Nú fór svo, þótt undarlegt megi virðast, að þessum mönnum, sem stóðu að þessum hrekkjabrögðum, sem eru einstæð í sögu Íslands, tókst á furðulegan hátt að telja sínu liði trú um það, að það væri réttmætt að haga sér svona og fá það til að kjósa þá bræðslulista og bræðsluframbjóðendur, sem á þennan hátt koma fram fyrir kjósendurna. Og það, sem gerði það að verkum, að þetta tókst, var það, að blöð þessara flokka og forustumenn þeirra gerðu að því mikið at að hella flóði af ósönnum upplýsingum, ósönnum loforðum yfir kjósendurna og telja þeim trú um, að ef þeir fylgdu þessu fyrirhugaða ráði, væri okkar þjóðfélagi borgið, þá mætti leysa öll okkar efnahagsmál á mjög heppilegan hátt, þá væri enginn vandi fram undan, dýrtíðin skyldi stöðvuð, skattar og tollar lækkaðir o.s.frv. Þessu trúði fólkið, og þess vegna guldu þessir flokkar ekki eðlilegt afhroð við síðustu alþingiskosningar, borið saman við það, sem eðlilegt hefði mátt telja. En loforðin, sem voru þó einna hæst hjá þessum Hræðslubandalagsflokkum, voru þau, að aldrei skyldi það koma á þeirra daga að vinna með kommúnistum, hvorki í ríkisstj. né að framgangi mála.

Fulltrúar Alþb. að hinu leytinu sóru það og sárt við lögðu, að aldrei skyldi það koma á þeirra daga að samþ. stjórnarskrárbrot og kosningalagabrot og hrekkjabrögð Hræðslubandalagsins. En þetta fór nú á aðra leið. Þegar kosningunum var lokið, varð lítið úr þessum loforðum á báða bóga. Þá var farið að semja um það af hálfu þessara forustumanna að verzla með æru sína í pólitískum skilningi, og sú verzlun virtist ganga álíka liðlega eins og þegar verið er að kaupa og selja vöru í búðunum hér í miðri Reykjavík.

En þessir hv. fulltrúar stjórnarflokkanna hafa gert annað og meira, eins og oft hefur verið á minnzt, þeir hafa verzlað með mannorð íslenzku þjóðarinnar út á við, og það fer fram á þann hátt, að eins og sakir standa og verið hefur stendur núv. hæstv. ríkisstj. með annan fótinn í Atlantshafsbandalaginu, en hinn fótinn hjá Rússum, og það er ekki vitað, að nokkur ríkisstj. í viðri veröld hafi lagt það á sig að taka á sig slíka klofglennu, síðan heimurinn fór að skiptast í tvær andstæðar fylkingar, eins og nú er orðið og verið hefur nokkuð mörg undanfarin ár.

Þegar þetta er athugað, gegnir furðu, að þeir menn, sem þarna eru sekastir í öllum þessum greinum, skuli leyfa sér að koma með frv. slíkt sem þetta, er hér liggur fyrir, og telja sig þess umkomna að ætla að fara að kenna heiðarlegum mönnum siðferði í kosningum, eins og þeir þykjast vera að gera með því, eins og þeir kalla það, að friða kjördaginn.

Þegar slíkt skeður, þá er það svo augljós hræsni og yfirdrepsskapur, að ég segi fyrir míg, að mér hefur algerlega ofboðið, og ég veit, að margir þeir menn, sem annars er ekki klígjugjarnt, fyllast viðbjóði og verður óglatt af að sjá, þegar þessir menn, eins og hæstv, fjmrh., eru að þenja sig um það hér á Alþingi, að þetta sé til þess að auka siðferðið í kosningum til Alþingis og til bæjarstjórnar, — þessir menn, sem eru kunnir að því að hafa þverbrotið kosningalögin í síðustu kosningum og þverbrotið stjórnarskrá okkar ríkis. Þetta svarar til þess, að þeir, sem eru marguppvísir og yfirlýstir þjófar, ætluðu að kenna ráðvöndum mönnum, að þeir ættu að forðast það að taka nokkuð ófrjálsri hendi.

Nú hefur verið á það minnzt og er reyndar augljóst, hver tilgangurinn er með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Tilgangurinn er sá að gera fólkinu örðugra með að kjósa og sérstaklega sá að koma í veg fyrir það, að þeir, sem stjórna flokkum og vilja vinna að því, að kosningar gangi liðlegar, hafi aðstöðu til þess að fá fólkið til þess að sækja kosningar. Nú má segja, að það, hvort kjörfundur stendur í 11 eða 12 eða 14 klukkutíma, skipti ekki ákaflega miklu máli og það skipti sízt mjög miklu máli, þar sem eru fámennir kjósendahópar, eins og yfirleitt er í sveitarfélögum úti um landið. Þá er þetta mögulegt og þarf ekki að reka sig neitt á, enda mun það vera, að þessu frv, er fyrst og fremst stefnt að höfuðborginni, Reykjavíkurbæ, bæði í bæjarstjórnarkosningum og alþingiskosningum, því að hvort tveggja kemur til greina. Og það er augljóst, að það, sem fyrir flm. vakir, er, að nú þurfi að taka eitthvað í hnakkann á Reykjavíkurbæ eða reykviskum kjósendum, af því að það er kunnugt, að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra fylgir Sjálfstfl., þeim flokki, sem þessum mönnum er andstæður. Það er og vitaður hlutur, að síðan núverandi ríkisstj, tók til starfa, hefur verið sívaxandi andúð og fyrirlitning á öllu hennar athæfi og það hvergi meir, en einmitt hér í Reykjavík, þar sem fólkið þekkir bezt, hvernig með hlutina hefur verið farið.

Nú er það svo, að ég verð að segja það, að ég hef oft undrazt á undanförnum árum, að það skuli hafa getað tekizt, að upp undir 40 þús. manna kjósi á einum degi hér í Reykjavíkurbæ og það, eins og verið hefur, á þremur kjörstöðum.

Nú er, að mér er sagt, gert ráð fyrir því að fjölga kjörstöðum upp í sex, og þá mundi koma á hvern kjörstað eitthvað hátt á sjöunda þúsund kjósenda, og það er töluvert fleira, en til er í nokkru öðru kjördæmi á Íslandi, svo að það er augljóst, að einmitt hér í höfuðborginni eru örðugleikarnir meiri við það að fá alla kjósendur til að koma á kjörstað, heldur en annars staðar.

Nú er það alkunnugt mál, að það hefur verið til þess ætlazt í kosningalögum og reglum frá fyrstu tíð, að það væri ekki verið að „agitera“ í kjósendum á kjörstaðnum eða á kjördaginn, og við er átt, að það sé ekki verið að „agitera“ í þeim á þann hátt, að reyna að hafa áhrif á það, að þeir kjósi annan flokk, en þeir upphaflega ætluðu eða skoðanir þeirra segja til um. Hins vegar er það svo, að það er mjög margt af fólki, sem þó að það hafi ákveðnar skoðanir í pólitík og fylgi ákveðnum flokki, þá hefur það ekki mikinn áhuga og sumt, sem hugsar á þá leið: Ja, flokkurinn minn er svo sterkur, að ég þarf ekkert að vera að ómaka mig á kjörstað eða gera mér neina fyrirhöfn, því að það bjargast allt án þess.

Nú er vitað, að langflest af rólegasta og æsingaminnsta fólkinu, ekki einungis hér í Reykjavík, heldur og hvarvetna um landið, fylgir Sjálfstfl. og það, sem er tilgangur þessa frv., er auðsjáanlega að koma því til leiðar, að það sé sem minnst eftirlit hægt að hafa með því, hvort þessi eða hinn kjósandinn eða þessir eða hinir kjósendur kjósi, og verkar þannig, að einmitt þetta fólk láti það vera að koma á kjörstað, enda er það kunnugt mál, að víðs vegar úti um landið hafa þekkzt dæmi þess, að fulltrúar núverandi stjórnarflokka hafa gert tilraunir til þess að fá það fólk, sem þeir ekki geta snúið yfir til sín, til þess að sitja heima.

Aðalatriðið í þessu frv. er frá mínu sjónarmiði þess vegna, að það skuli eiga að banna mönnum, umboðsmönnum flokka og fulltrúum, að fylgjast með því, hverjir hafa kosið og hverjir ekki, og ég er sannfærður um það, veit það reyndar eftir mörgum leiðum og frá öllum kjördæmum á þessu landi, að frá fyrstu tíð hefur það verið talið sjálfsagt, að mönnum væri frjálst að fylgjast með því, hverjir kjósendur hafa kosið á kjördegi og hverjir ekki, Og það má segja, að það sé vafasamt, hvort sé ríkara í þessu tilfelli eða vegi meira flónskan eða illviljinn að ætla sér að setja löggjöf, sem hefur í sér það aðalatriði að reyna að koma í veg fyrir það, að fólkið, sem áhuga minnst er, kjósi á kjördegi.

Nú eru í þessu frv. töluvert fleiri ákvæði, en nokkuð þýðingarlítil, og engin þannig, að það sé nein nauðsyn á því, að þetta frv. nái lagagildi. Ég tel það ákaflega þýðingarlítið og út af fyrir sig kannske betra, en ekkert, að það sé bannað að hafa gjallarhorn og bíla, sem þjóta um bæinn eða bæina til að hrópa upp hinar og þessar kröfur, eða hafa spjöld á húsum eða því um líkt. Ég held, að allt slíkt sé ósköp lítils virði og það geri hvorki til né frá, þó að það sé afnumið og mennirnir, sem stjórna flokkunum, ættu jafnvel sjálfir að afnema þá siði.

Hitt tel ég vera mjög mikinn galla á þessu frv., þó að það sé ekkert aðalatriði á móts við hitt, að það sé heimtað að ljúka kosningu kl. 11 að kvöldi. Það er algerlega óþarft og sýnir það, að mennirnir, sem flytja þetta, gera sér ekki grein fyrir því, hvað það er margt fólk, sem um er að ræða og þarf að kjósa, og hvað það getur dregizt lengi fram á kvöldið. Annars er þetta ekki neitt stóratriði, en atriði þó samt, sem er galli og óþarft að breyta frá því, sem verið hefur.

Í þriðja lagi eru svo ákvæði 1. gr. þessa frv. um það, að hver sá kjósandi, sem kýs utan kjörstaðar og gerir ekki ráð fyrir að vera í sinni heimasveit, þegar kosning fer fram, eigi að gera grein fyrir því skriflega og að manni skilst undir votta, hvar hann ætli sér að verða á kjördaginn. Þetta er ákaflega fáfengilegt og heimskulegt atriði, vegna þess að ég veit, og allir menn geta séð og ættu að sjá, að margir þeir menn, sem hér eiga hlut að máli, geta alls ekki vitað það, hvar þeir verða á kjördaginn. Við skulum taka t.d. sjómenn, sem eru á skipum og fara víðs vegar ýmist í veiðiferðum eða á samgönguskipum, kringum land eða til útlanda. Þeir geta ekki sagt um, hvar þeir verði, — ja, þeir geta sagt kannske, að þeir ætli sér að verða á þessu skipi, en hvar þeir verði á kjördaginn, það geta þeir ekki sagt. Sama er að segja um bifreiðastjóra, flugmenn o.fl. Þessi skýrslukrafa er því í mínum augum hrein vitleysa og ekkert tilefni til þess að fara að setja lög um slíka hluti.

Annars er það svo, að allir þeir menn, sem eru fylgismenn eða flm. að þessu frv., ættu að hafa kynnzt látunum, sem verið hafa oft í kosningum víðs vegar í kauptúnum og kaupstöðum og jafnvel sveitum úti um landið á kosningadaginn, látunum, sem þeir hafa staðið fyrir, fulltrúar Framsfl. og Alþfl. Ég þekki minna til varðandi sósíalistana hér á landi, enda eru þeir yngri flokkur. En það er vitað, að þeir eru fylgismenn þeirrar stefnu, sem vill ekki neinar frjálsar kosningar, og við höfum sagnir af því, að í löndum Rússa og öðrum þeim löndum, sem Rússar ráða yfir, er ekki heimilt að kjósa nema um einn lista. Það mega ekki vera frambjóðendur nema frá þeim eina flokki, kommúnistaflokknum, aðrir mega þar ekki koma til greina. Og ekki nóg með það, heldur ber sögnum saman um, að þegar kosningar þar fara fram, þá er svo strangt að unnið, að það varðar hegningu, sektum, fangelsi, kannske lífláti, ef mennirnir ekki kjósa, enda má það nærri geta, þegar það gerist í hverju landinu á fætur öðru, að það er hægt undir þeim kringumstæðum, að það er aðeins einn listi, að fá 98 og 99% af kjósendunum til þess að kjósa. En það kann nú að vera, að það eigi að vera næsti liður í hala ríkisstj. að koma þessu fyrirkomulagi á hér á landi og það ástand, sem er í þessu frv., sem hér er verið að lögfesta, sé byrjunin á leiðinni.

Nú skal ég taka það fram, að þess hefur hvað eftir annað verið krafizt og það hefur verið framkvæmt, þegar alþingiskosningar hafa farið fram yfir landið allt um veturnætur, fyrsta vetrardag, að þá væru tveir kjördagar. Þetta hefur þótt nauðsynlegt til öryggis, og er það í raun og veru ekkert óeðlilegt, því að í sjálfu sér ættu allir menn, sem unna frjálsu lýðræði, að vinna að því, að öllum kjósendum gefist tækifæri á því að neyta síns atkvæðisréttar.

En t.d. bæjarstjórnarkosningar í kaupstöðum og úti um allt land fara ekki fram um veturnætur, þær fara fram um miðjan veturinn, rétt snemma á þorranum, þegar allra veðra er von, enn þá frekar, en um veturnóttabil. Þess vegna hef ég oft undrazt það með sjálfum mér, hvað það er óvarlegt og ekki sízt hér í höfuðborginni, þar sem kjósendafjöldinn er mestur, að láta sér lynda, að það sé ekki heimild til þess í kosningalögum að hafa tvo kjördaga. Og það mætti náttúrlega segja, að það gerði þá minna til, þó að þetta fráleita frv., sem hér liggur fyrir, væri samþ., ef því væri látið fylgja það, að það væri heimilt að hafa tvo kjördaga, eins og ég tel langeðlilegast og hyggilegast. Ég er nú, eins og allir hv. þm. vita, einn af utanbæjarmönnum og hef aldrei verið búsettur hér í höfuðborginni, en ég hef verið það oft hér, að ég hef kynnzt ýmsu. Ég hef kynnzt því t.d., að það hefur hlaðið svo miklum snjó niður á einni nóttu, að það hefur verið ófært öllum bilum hér um göturnar og erfitt gangandi fólki að komast áfram. Þetta getur skeð í öllum byggðarlögum og ekki sízt um háveturinn. Ég hef líka kynnzt því, að það hefur rokið upp um miðjan dag með ofsafulla blindhríð, svo að það hefur ekki verið fært —má heita — að koma út úr húsi, og jafnvel svo hvasst, að menn hafa orðið að skriða milli húsa, eins og einu sinni gerðist hér í desembermánuði.

Allt þetta er þess vegna þannig vaxið, að ef það er tilgangurinn, sem ég efast nú ekki um, að auka örðugleika í kosningum hér í höfuðborginni með þessu frv., þá er það byggt á því, að það komi þá líka fyrir eitthvert óhapp, sem geti orkað því, að stærsti flokkur þjóðarinnar og sérstaklega stærsti flokkur þessa bæjar verði fyrir áfalli í kosningum af illviðrum eða öðrum orsökum.

Eins og ráða má af því, sem ég hef þegar hér sagt, þá tel ég það réttustu meðferðina, að þetta frv. verði látið hafa sömu örlög eins og „kássufrv.“ sæla og því lofað að daga uppi, og það væri þeim sæmst, sem hafa flutt þessa ómynd hér inn á Alþingi. En verði það ekki gert, mun ég athuga það í samráði við mína flokksmenn, hvort við eigum þá ekki að bera fram breytingu við þetta frv. á þá leið, að ef það verði samþ. eða komi til framkvæmda, verði heimilað að hafa tvo kjördaga við bæjar- og sveitarstjórnarkosningar, ekki einasta hér í Reykjavík, heldur og í öllum þorpum og kaupstöðum úti um landið.

Að öðru leyti skal ég svo ekki fjölyrða um þetta mál, en ég gat ekki stillt mig um, þegar það liggur hér fyrir, að vekja athygli á þeirri dæmalausu hræsni og yfirdrepsskap, sem kemur fram hjá þeim mönnum, sem hafa gerzt aðallega málsvarar fyrir þessu frv., og þegar það er athugað, hvernig þeirra saga er á liðnum árum.