23.10.1957
Sameinað þing: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (2550)

17. mál, eftirgjöf lána

Forseti (EmJ):

Það má vitanlega ávallt deila um það, hvar takmörkin séu á milli þess, sem víta skal, og þess, sem látið er fara óvítt fram hjá hv. þingmönnum, því að orðalag er stundum þannig, að það orkar tvímælis, hvort víta beri samkvæmt þingsköpum eða ekki. En ég verð að segja það, að þau ár, sem ég hef setið á Alþingi, hafa mörg ummæli þyngri, en þau, sem hv. 1. þm. N-M. hafði hér um áðan, farið fram, án þess að þau væru vítt, og meira að segja hjá sjálfum hv. 1. þm. Reykv. En hins vegar, ef það er almenn ósk þingmanna, að hér verði teknir upp strangari siðir, sem verði þá látnir ganga jafnt yfir alla vitaskuld, þá hef ég sízt á móti því. En ég fullyrði, að þetta, sem hér hefur farið fram í dag, er síður en svo meira en það, sem látið hefur verið fara fram óátalið hér áður.