30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (2556)

17. mál, eftirgjöf lána

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Herra forseti. Ég get nú komizt af með miklu mínna mál en hv. frsm. meiri hl. (KK) flutti hér með sinni löngu ræðu um þetta mál, þegar af þeirri ástæðu, að við, sem að minni hl. stöndum, höfum gefið út um þetta mál allrækilegt nefndarálit. Eru þar teknar upp þær ástæður og frá þeim skýrt, sem við teljum að hnígi undir þá skoðun, að réttmætt sé að gefa eftir að fullu þessi lán, eins og ástatt var. Er í þessu nál. gerð grein fyrir því, hvernig ástatt var hjá bændum hér á Suðurlandi naustið 1955 og hvernig forsvarsmenn bændastéttarinnar og félagssamtök þeirra, sem byggð eru upp af mönnum hvarvetna af landinu, litu á þetta ástand og þær till., sem þeir töldu óhjákvæmilegt að gera, eins og ástatt var, ef opinbera viðleitni ætti á annað borð að sýna til þess að firra þessum vandræðum eða afleiðingum þeirra. Það, sem gerðist í þessu efni, bæði á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var þá í september í Bifröst í Borgarfirði, bæði að því er tekur til þeirrar ályktunar, sem þar var gerð, og svo líka til þess, sem bæði stjórn Búnaðarfélags Íslands og stjórn Stéttarsambands bænda létu þetta mál þá til sín taka; og þær ráðstafanir, sem þessir aðilar allir lögðu til að nauðsynlegt væri að gera, fólu í sér, hefðu þær verið framkvæmdar samkvæmt till. þessara aðila, allmiklu meiri stuðning til handa bændum til þess að komast yfir þessa erfiðleika, heldur en endanlega varð niðurstaðan um, þegar bæði stjórn Búnaðarfélags Íslands og stjórn Stéttarsambands bænda voru ofurliði bornar af hálfu ríkisstjórnarinnar og þeirra, sem að málinu stóðu með henni, og málunum allt í einu snarsnúið inn á lánagrundvöllinn. — Þetta er allt saman rakið hér í nál., og þarf þess vegna ekki frekar út í það að fara.

En það verð ég að segja, að það eru nokkur kaldyrði, sem í því felast hjá hv. frsm. meiri hl., þegar hann segir, að till. þessara aðila, bæði fulltrúa aðalfundar Stéttarsambands bænda og stjórnar Búnaðarfélags Íslands, hafi verið á sandi reistar. Ég held um slík kaldyrði sem í þessu felast og órökstuddan sleggjudóm, að það sé harla hart, þegar þessir aðilar eru að gera till. um að ráða fram úr einhverjum þeim mestu erfiðleikum, sem nokkurn tíma að sumarlagi hafa dunið yfir bændur á stórum svæðum þessa lands. Við þekktum það ákaflega vel, hvernig ástatt var þetta sumar með heyöflun, því að það er vitanlega lyftistöng undir framförum landbúnaðarins á Íslandi, að honum hefur á síðari árum tekizt að taka í sína þjónustu ýmiss konar tækni, vélavinnu, sem nú er langsamlega mest byggt á, þar sem handaflið í jafnríkum mæli og áður var er nú orðið allt of dýrt til þess að reka búnað á landi hér. En það var svo komið þetta sumar, að þeir, sem mesta og bezta höfðu tæknina, stóðu lítið eða ekkert betur að vígi en hinir, sem skemmra voru komnir áleiðis í þessu efni, og það stafaði af því, að það var ekki hægt að komast um túnin með þessi ökutæki. Vatnsaginn var svo mikill, að það var allt komið á flot, að það var rétt ómögulegt að koma heyjunum í garða í því ástandi, sem þau nú annars voru, þegar þau voru flutt í garð, hrakin og að meira eða minna leyti gersamlega eyðilögð. Þannig var nú komið og þannig getur ástandið orðið hér hjá oss þrátt fyrir allar þær miklu framfarir, sem orðnar eru í búnaðinum og landbúnaðurinn á Íslandi og tilvera hans hreint og beint byggist á. Svona var nú ástandið að þessu sinni, og þess vegna var það ekkert undarlegt, þó að einnig þeir bændur, sem bjuggu á öðrum svæðum, þar sem ekki höfðu yfir dunið nein slík vandræði, gætu sett sig inn í og skilið, hversu ástatt var, enda var það svo á stéttarsambandsfundinum, sem skipaður er fulltrúum úr öllum sýslum landsins, að þær samþykktir, sem þar voru gerðar og m. a. fólust í því, að ríkisstj. borgaði þriðjung af öllum kostnaði við kaup á fóðurbæti til þess að framfleyta búnaðinum á þessum svæðum, — allar till., sem að þessu lutu, voru samþykktar með samhljóða atkvæðum.

Þetta var grundvöllurinn, sem byggt var á um þær ráðstafanir, sem hér varð að gera. Það er alveg rétt, að það rættist betur úr, en á horfðist fyrir bændum á þessu svæði. En það gerði það því aðeins, að þeir lögðu í alveg gífurlegan kostnað í fóðurbætiskaupum til þess að fleyta búnaðinum áfram, og kostnað, sem margir þessara manna stynja enn þá undir og hafa engan veginn getað rétt sinn hlut enn í búskapnum vegna þessara afleiðinga.

Það má enn fremur geta þess í þessu sambandi líka, að það er verið að gera hér samanburð — og hv. frsm. meiri hl. fór einnig inn á það — við það ástand, sem skapazt hafði á Austur- og Norðausturlandi í sambandi við þau harðindi, sem þar gengu yfir og voru ægileg og að sjálfsögðu alls stuðnings makleg, því að það er nú búið að gefa eftir meiri hluta þeirra lána, og í okkar till. leggjum við til, að það, sem eftir stendur, verði einnig að fullu eftir gefið. En þess er aldrei minnzt, þegar verið er að gera þennan samanburð, að á stórum svæðum á þessum óþurrkasvæðum hér sunnanlands voru menn búnir að búa við sauðfjársjúkdóma á annan áratug eða lengst allra landsmanna. Féð var smátt og smátt að hrynja niður í höndunum á þeim, og það var ekki einasta sú afleiðingin, að þeir misstu fjárstofninn, mikinn hluta af honum, heldur verkuðu sauðfjársjúkdómarnir þannig, að það skapaðist vantrú á þessum svæðum hjá ungu fólki á framtíð landbúnaðarins, og það er ótalinn sá hópur ungra manna, sem beinlínis fór úr sveitunum hér á Suðurlandi vegna þeirrar vantrúar á framtíð, sem byggist á fénu, sem var að drepast niður í höndunum á þeim á hverju ári, — það er ótalinn sá hópur manna, sem fluttist í burtu beinlínis af þessum ástæðum. Úr því að farið er að gera samanburð á annað borð, er rétt, að þetta sé dregið fram. En nú skal ég ekki um þessa hlið málsins fara fleiri orðum.

En ég vil þá aðeins minnast, eins og líka er gert í nál., á þá fullyrðingu meiri hl. í fjvn., að sú till., sem hér um ræðir og við minni hl. í fjvn. leggjum til að verði samþykkt, sé vanhugsuð út frá því sjónarmiði séð, að það sé búið að afhenda bjargráðasjóði þetta fé. Þetta er alveg gersamlega á misskilningi byggt á eðli þessa máls, eins og bent er á í nál. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. meiri hl. las hér upp og þingheimur þurfti ekki neinnar skýringar á, því að þetta er nýlega um garð gengið, að það var búið að afhenda bjargráðasjóði þetta fé. Ríkisstj, fékk á sínum tíma heimild til þess í fjárl., að svo skyldi gert, að afhenda sjóðnum þetta fé. En eins og Alþingi hefur rétt til þess að ákveða, að þetta skuli gert, hefur það einnig alveg sama rétt til þess að ákveða breytingar á þessari ráðstöfun, þótt síðar sé. Féð er afhent sem sagt með þeim skilyrðum, að stjórn bjargráðasjóðs athugi um það og ef til vill gefi eftir í smærri eða stærri stíl af þessu fé, svo að hér er aðeins um að ræða stigmun, hvort nokkuð af upphæðinni, sem maður veit ekki um hvað verður, væri eftir gefið eða upphæðin öll væri eftir gefin. Það er aðeins hér um stigmun að ræða samkvæmt þeim ákvörðunum, sem fylgdu afhendingu þessa fjár til stjórnar bjargráðasjóðs. Bjargráðasjóður er ríkisstofnun, sem heyrir algerlega undir valdsvið Alþingis, Alþingi setur bjargráðasjóði lög. Það ákveður t.d. og hefur gert oft, hvaða framlag skuli greitt úr ríkissjóði til bjargráðasjóðs, og þessari upphæð hefur verið breytt. Hún hefur eðlilega tekið breytingum í sambandi við breytingar á efnahagsþróuninni í landinu. Og alveg eins og ríkisstj. eða Alþingi ákveður, að með þetta fé skuli farið á þennan hátt, að bjargráðasjóðsstjórnin gefi eftir af því að meira eða minna leyti, alveg með sama rétti getur vitanlega Alþingi gert þá breytingu á þessu, að féð skuli allt saman eftir gefið.

Frá formsins hlið eða lagalegri hlið séð er þess vegna þessi till. síður en svo vanhugsuð, eins og lögð er mikil áherzla á í nál., og þá ekki síður í ræðu hv. frsm. meiri hl. Hér er þess vegna eingöngu um að ræða vilja Alþingis í þessu efni. VIII Alþ. breyta þeirri ákvörðun, sem það hefur gert um það að láta stjórn bjargráðasjóðs vinza úr, hverjum eigi að gefa eftir, ellegar taka ákvörðun um, að fé skuli í einu lagi eftir gefið, sem við þykjumst hafa gert, minni hlutinn, í okkar nál. fulla grein fyrir að réttmætt sé að gera, miðað við þær aðstæður, sem sköpuðust hér á Suðurlandi, og þær aðstæður, sem lágu til grundvallar fyrir hjálpinni á Norður- og Austurlandi?

Ég þarf svo ekki að fara fleiri orðum um þetta í sjálfu sér. En ég vildi þó aðeins taka það fram út af því, sem hv. frsm. meiri hl. las hér upp um afgreiðslu búnaðarþings á þessu máli og afstöðu stjórnar Búnaðarfélagsins til umsagnar um þessa till., að stjórn Búnaðarfélagsins samþykkti að vísa þessu máli til aðgerða búnaðarþings. Stjórn Búnaðarfélagsins hafði borizt frá fjvn. ósk um umsögn um málið. Þetta var rétt í þann mund eða skömmu áður en búnaðarþing kæmi saman. Þess vegna þótti stjórn Búnaðarfélagsins rétt að láta búnaðarþing segja álit sitt um málið. Og það var að öllu leyti rétt með farið, sem hv. frsm. sagði og las upp um það atriði. Að öðru leyti tók stjórn Búnaðarfélagsins enga afstöðu til þessa máls, hvorki áður en málinu var vísað til búnaðarþings né eftir að búnaðarþing hafði fjallað um málið. Hins vegar talaði ég á búnaðarþingi um þetta mál í sambandi við um ræðurnar þar og lýsti minni skoðun í málinu fyrir búnaðarþingi, sem féll að sjálfsögðu á sömu lund og felst í afstöðunni til þessarar þáltill. og gerð er grein fyrir í áliti minni hl. fjvn. Þetta vildi ég láta koma hér fram að gefnu tilefni frá hv. frsm, meiri hl. Ég skal svo ekki eyða orðum að því frekar og vitna um önnur atriði til þess, sem í okkar nál. felst.

Það er nú svo, að það eru fleiri, sem njóta hliðstæðs stuðnings hér á Alþ. eins og þó að þessi lán hefðu verið eftir gefin og þannig létt undir með bændum um að komast yfir þessa erfiðleika og fá til þess bolmagn að rétta aftur við og koma sínum málum inn á nýjan og betri fjárhagsgrundvöll í búrekstrinum. Ég veit ekki betur, en það séu veittar hér nú á hverju einasta ári 15 millj. kr. á fjárlögum til þess að deila út, sem ríkisstj. er heimilað að deila út, ýmist sem beinum styrkjum eða sem lánum, sem vitað er alveg fyrir fram að ekkert eru nema lán að nafninu til, því að það dettur víst engum í hug, þó að þetta form sé á því haft, að þau lán verði nokkurn tíma endurgreidd. Þegar verið er að tala um, að það sé sérstök heimtufrekja af hálfu bændanna, að þeim sé undir því neyðarástandi, sem gekk hér yfir á Suðurlandi og gekk yfir einnig á Norðurlandi, veittur sá beini fjárstuðningur, þá eru svo sem dæmin fyrir hendi um slíkt hér á Alþ., og það er ekki verið að fara inn á neina nýja braut, þó að slíkt hefði verið gert. — Hér er deilt út núna 15 millj. á milli manna víðs vegar úti um allar byggðir þessa lands, og ég held, að þau svæði, sem verst urðu úti hér á Suðurlandi, njóti ekki einnar einustu krónu af þessum 15 millj., sem árlega er búið að deila út núna í tvö ár samfleytt. Mér er ekki kunnugt um það, að svæðin hér í kringum Faxaflóa eða á Suðurlandi hafi fengið einn einasta eyri af þessu. Það kann að vera, að sjávarbyggðirnar á Snæfellsnesi hafi notið þar einhvers góðs af, en ég veit ekki til, að landbúnaðarbyggðirnar á Snæfellsnesi frekar en hér við Faxaflóa og austanfjalls hafi notið eins einasta eyris af þessu allríflega fé, sem varið er til beinna styrkveitinga, — styrkveitinga, sem eru í lánaformi og vitað er um að aldrei verður greitt.

Ég vildi aðeins benda á þetta í sambandi við það, að hér er verið að kasta allþungum steini að bændastétt landsins, þeim, sem að því standa og telja eðlilegt, að þessi lán hefðu verið eftir gefin, að það er svo sem fullkomið fordæmi fyrir því hér á öðrum sviðum, þó að slíkt hefði verið gert.