30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í D-deild Alþingistíðinda. (2558)

17. mál, eftirgjöf lána

Frsm. meiri hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Rang, er harðsnúinn maður, þegar hann ber höfði við stein, og ekki vildi ég leika það eftir að gera eins og hann gerði í þessu máli.

Ég get lýst því yfir, að það er rétt hjá honum, að ég var á móti till. hans í fyrra og af ýmsum ástæðum. Hún var mjög gölluð að formi til, en út í það þarf ekki að fara, en efnislega var ég á móti henni, því að ég áleit það eðlilega ráðstöfun að láta bjargráðasjóð fá þessi lán til meðferðar og innheimta þau eftir efnum og ástæðum. Ef hann les ályktun þá, sem meiri hl. fjvn. leggur til að þingið afgreiði till. hans með, þá mun hann líka finna það, að þó að það sé þar meginatriði, að fénu sé þegar búið að ráðstafa, þá er líka byggt á þeim grundvelli, að sú ráðstöfun hafi verið hin rétta. Það er því skakkt með farið, skakkt ályktað og út úr snúið, að nú sé eingöngu við það miðað, að ekki sé hægt að taka til baka það, sem gefið var, þó að það sé viðbótarástæða.

Hv. 1. þm. Rang, heldur því fram, að það sé skapað misræmi með því að slíta úr sambandi, eins og hann orðaði það, lánin til Austfirðinga og gefa eftir af þeim eins og gefið var samkvæmt fjárlögunum 1957, og hann sagði það sem átti að vera ágrip af sögu þessara mála á Austurlandi. Hann gat þess, að tveimur mönnum hefði verið falið að úthluta þar lánum og meta ástæður manna 1950, og nefndi þá menn, og það er rétt. Og það eru þau lán, sem um er að ræða nú í till. hans. En hann skýrir ekki frá því, að lánin, sem voru gefin eftir, eru veitt samkv. öðru mati, þau eru veitt 1952, eftir að Austfirðingar voru búnir að stríða við harðindi, ekki eitt sumar, ekki eitt rigningasumar, heldur þrjú ár samfleytt, vetur og sumar, auk þeirrar skæðu fjárpestar, sem þar var geisandi og gerði það að verkum, að á þessum árum fækkaði víða fé bænda um helming til innleggs, og fór fimmti hluti fjárstofnsins sum árin algerlega forgörðum vegna fjárpestarinnar.

Það er mjög ólíku saman að jafna, sem betur fer, milli Austfirðinga og Sunnlendinga. Ég segi: sem betur fer, því að það væri voðalegt, ef land okkar væri svo harðærasamt, að slík óáran gengi yfir alla landshluta þess og sú, er gekk yfir Austfirðinga 1949–51.

Árið 1952 er það sýnt, að bændurnir á Austfjörðum reisa ekki rönd við ástandinu, eins og það er, og þá er það, að fyrir tilhlutun ríkisstj, eru fengnir. 2 menn, Benedikt Guttormsson og Skjöldur Eiríksson, til þess að athuga fjárhag bændanna á þessu harðindasvæði, athuga útlagðan kostnað til fóðurkaupa, skuldamyndun vegna fóðurkaupa, fækkun búpenings o.fl. Og samkv. till. þeirra voru svo lánin veitt árið 1952 sem alger hallærislán, í raun og veru á hreinum grundvelli styrkja. Þau lán samrýmast ekki fyrri lánunum, og enn síður samrýmast þau lánunum til Sunnlendinga.

Það eru þessi lán, sem lá beint við að gefa eftir, því að þau voru veitt eftir efnum og ástæðum, hreint og beint til að bjarga frá hallæri. Ef þau hefðu ekki verið gefin eftir, þá hefði verið skapað misræmi. Það má einnig geta þess, að Austfirðingum nægðu ekki lán þessi eingöngu, heldur tóku þeir félagslega á sjöundu millj. kr. að lánum, sem skipt var einnig eftir efnum og ástæðum. Kaupfélögin tóku þessi lán fyrir þá og settu sínar eignir að veði til hjálpar þeim. Það út af fyrir sig er upplýsing, sem skiptir máli í þessu sambandi.

Sem betur fór, voru harðindin á Suður- og Suðvesturlandi aðeins óþurrkar eitt sumar. Það rigndi geysilega það sumar og var mjög ískyggilegt ástand fyrir bændurna, sem þurftu að afla heyja handa miklum búpeningi, því að bú eru yfirleitt stór á þessu svæði, og heyskapurinn t.d. í Árnessýslu, þar sem mest rigndi, lækkaði ofan í 84%, eftir því sem skýrslur sýna, ef miðað er við árið áður. En aftur á móti hafði það verið svo í Norður-Múlasýslu, þar sem harðast gengu yfir harðindin, að heyskapurinn fór ofan í 88% 1948, ofan í 64% 1949 og ofan í 59% 1950. Þannig var harðindabálkurinn samfelldur, og þannig svarf hann að.

Og fénu fækkaði á Austurlandi, eins og ég gat um áðan, þannig að innleggið hjá bændunum varð ekki nema helmingur á móts við það, sem áður hafði verið. En ef maður miðar t.d. við Árnessýslu, þá fækkaði að vísu, að því er skýrslur segja, nautpeningi, mjólkurkúm, ofan í 96% frá því, sem áður hafði verið, geldneytum ofan í 94% og kálfum ofan í 97%, en árið eftir, þ.e. 1956, komst talan aftur upp fyrir það, sem hún hafði verið 1954, Þannig reið þessi alda snögglega yfir, og bar ekki meiri áföll að.

Hv. þm. Borgf. minntist á það, að efnahagur manna væri misjafn hér um slóðir, ég meina á Suður- og Suðvesturlandi, og það er vafalaust rétt. En yfirleitt er það nú svo, að þó að þeir hefðu búið við pestir, eins og hann gat um, þá höfðu þeir ekki hallazt neitt á móts við það, sem var á Austurlandi, enda styðjast bændur hér við fjölbreytilegri búskap, en Austfirðingar. Og eftir því sem skattskýrslur frá 1955 upplýsa, hafði meðalbóndinn í Norður-Múlasýslu nettótekjur 31.736 kr., en í Árnessýslu, þar sem mest rigndi, 48.460 kr. og í Rangárvallasýslu 47.338.

Þetta er svona til að sýna það, að samhengið var ekki rofið með því að gera þannig upp á milli þessara svæða, sem gert var með fjárlögunum 1957.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ég hefði komizt kuldalega að orði með því að segja það, að óskir Stéttarsambands bænda og Búnaðarfélags Íslands haustið 1955 hefðu verið á sandi byggðar. Það er misskilningur eða misheyrn. Ég sagði það ekki. En ég sagði, að þar sem minni hl. n. legði svo mikla áherzlu á bréf og óskir þessara fulltrúa bændanna frá haustinu 1955, meðan enn rigndi, þá færi svo fyrir mínni hlutanum, að hann byggði á sandi, vegna þess að það hefði rætzt miklu betur úr, en á horfðist, betur en djörfustu menn gátu vonað, og ég taldi, að það væri annað að byggja á yfirlýsingum fulltrúa bændanna núna frá búnaðarþingi, þegar séð væri fyrir endann, ekki aðeins á harðindunum, heldur að segja má afleiðingum harðindanna.

Hv. þm. Borgf. sagði enn fremur, að það væri að skilja svo, að við, sem meiri hl. fjvn. skipum, vildum kasta steini að bændastéttinni fyrir það, að hún hefði viljað taka á móti styrkjum. Það er langt frá því. Ég tel mig í hópi þeirra manna, sem sízt vilja kasta steinum að bændastéttinni, og byggi einmitt á henni mjög mikið vonir um framtíð þjóðarinnar, verndun íslenzku menningarinnar og staðfestu. En mér virðast aðrir kasta steinum, þó að það sé vafalaust óviljandi gert. Mér virðist þeir menn, sem halda svo fast við eftirgjafir allra lánanna sem tillögumennirnir gera og minni hl. fjvn., sem þá styður, kasta steinum. Þeir styðja þá stefnu, sem búnaðarþing telur að sé varhugaverð og geti orðið til þess að veikja siðferðisþrótt stéttar í fjármálum. Í raun og veru ýta þeir óvart undir það, að bændastéttin varist ekki það, sem Stefán G. sagði að þyrfti að varast, að láta „baslið smækka sig“.

Eitt af yngstu skáldunum segir í nýútkominni bók:

„Hún stendur ei vörð né strengir heit, né stöðu sér markar í alda reit, sú kynslóð, sem klædd er og mötuð.“ Þarna segir skáldið í raun og veru bara í hendingum það, sem búnaðarþing sagði í sinni grg. Mér virðist þeir ganga svo langt, þessir tillögumenn, að þeir vilji í raun og veru mata og klæða þá stétt, sem ekki vill taka á móti, og vitna ég þar aftur til ályktunar búnaðarþings. Ég hef fengið upplýsingar um það, að a.m.k. einir fimm af bændum þeim, sem fengu harðindalán 1955 hér á Suður- og Suðvesturlandi, séu í stóreignaskatti, þ.e.a.s. þeir eigi skuldlaust meira en milljón — meira en milljón. Nú er það samkv. till. tilætlunin og talið alveg sanngjarnt og nauðsynlegt og til að skapa fullkomið samræmi, að þessir menn fái eftirgjöf lánanna. Og mér er satt að segja sem ég sjái þá hv, 1. þm. Rang. og hv. þm. Borgf. vera að mata og klæða þessa milljónera. Þessir hv. þm. strita við að troða að þeim sem gjöf lánunum. Það er strit, því að ég trúi ekki, að svo ríkir menn séu ekki svo stoltir, að þeir vilji borga, - og stimpist fast á móti, þegar til þeirra kemur.