30.04.1958
Sameinað þing: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í D-deild Alþingistíðinda. (2561)

17. mál, eftirgjöf lána

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Þar sem bjargráðasjóður Íslands heyrir undir félmrn. og hér er um að ræða, að Alþ. geri aðra atrennu til þess að ráðstafa fé, sem þessum sjóði hefur verið afhent til eignar eftir fullri heimild Alþingls, þá get ég ekki látið hjá líða að segja nokkur orð um þetta mál og þá fyrst og fremst til þess að mótmæla því, að það geti komið til mála, að fé, sem bjargráðasjóði hefur verið afhent til fullrar eignar að fyrirmælum og vilja Alþ., verði ráðstafað með öðrum hætti úr eigu sjóðsins á ný.

Það er vert að vekja enn einu sinni athygli á því, að með afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1957, 42. lið 22. gr. fjárlaganna, var ríkisstj. gefin heimild til að ráðstafa þessu fé á þann hátt, sem ríkisstj. hefur nú gert. Og það var svo sem ekki verið að taka þetta fé frá bændastéttinni. Nei, það var einmitt verið að tryggja það, að þetta fé væri henni til öryggis og hjálpar, þegar í nauðir ræki, og þannig verið að sjá um það, að þetta fé yrði áframhaldandi til hjálpar einmitt bændastéttinni, ef eitthvað bjátaði á.

Þegar bændur urðu fyrir því áfalli, sem hér er um að ræða, var talið nægilegt að veita þeim lán, og það var gert. Og lánin fengu ýmsir, sem voru í nauðum staddir vegna þeirrar óáranar, sem yfir skall. En lánin fengu líka ýmsir, sem ekki höfðu orðið hart úti þarna og höfðu bein til þess að bera nokkuð mikið.

Ég get vel fallizt á, að það megi gefa eftir mönnum, sem hafa orðið fyrir áfalli af náttúrunnar völdum og standa ekki lengur fjárhagslega réttir eftir. En mér finnst ekki eðlilegt að gefa heilli stétt eftir þá aðstoð, sem hún hefur fengið í lánsformi, án tillits til efnahags. Ég held það verði erfitt að skjóta rökum undir það. Og mér er nær að halda, að þegar farið er inn á það hér á Alþ. að biðja um eftirgjafir, fjárhagslegar eftirgjafir, til ríkra jafnt sem snauðra, þá finni menn, að það sé ekki rökstudd ósk, ekki rökstudd krafa.

Ég er nærri því viss um það, að þegar litið er á þetta mál og það upplýst, að bændur hafa svo sem ekki verið sviptir þessu fé í fyrsta lagi, heldur á það að koma bændastéttinni til hjálpar í framtíðinni, í annan stað, að margir bændur eru búnir að borga þessi lán og yrðu því ekki aðnjótandi þeirra eftirgjafa, sem hér er um að ræða, — og eftir að það hefur gerzt, þá væri auðvitað ranglæti framið, — og svo í þriðja lagi, að hér er verið að tala um að ráðstafa fé, sem Alþ. hefur áður mælt fyrir um, hvernig ráðstafa skyldi, og í raun og veru á að fara að rifta því, rifta þeim gerða hlut og ráðstafa því á ný, þá held ég, að þarna sé um fráleitt mál að ræða, sem ekki geti komið til mála að Alþ. sinni á annan hátt en þann, sem fjvn. hefur lagt til, að vísa málinu frá. Mér er líka nær að halda, að það sé alls ekki tekið vel upp af myndarlegum bændahöfðingjum, sem hafa nokkurn metnað, — það hefur meginþorri bændastéttarinnar, — þegar hv. 1. þm. Rang. rekur harkalega ölmusu- og bónbjargapólitík og þykist gera það fyrir þeirra hönd. Ég er alveg sannfærður um það.

Það er ekki vel tekið upp af bændum, sem hafa metnað og vilja vera góðir og gildir þjóðfélagsþegnar, eins og þeir eru. Mér er nær að halda, að þarna sé hlaupið fram fyrir skjöldu og á þann hátt, að sumir menn í bændastétt mundu kunna þessum skjaldsveinum sínum litla þökk fyrir. Það liggur líka þegar skjalfest fyrir, að fulltrúar bændastéttarinnar á búnaðarþingi hafa að yfirgnæfandi meiri hluta verið þeirrar skoðunar, að þessu fé hefði verið vel varið og það sé í þjónustu bændastéttarinnar og sé orðið þeirra öryggissjóður og beri ekki að ráðstafa því á annan hátt. Í samræmi við þennan vilja búnaðarþings á auðvitað Alþ. að taka á málinu í viðbót við allt annað eðli málsins, sem mælir í sömu átt, að þetta fé sé vel komið þar, sem það sé, í bjargráðasjóði Íslands, og svo hafi bjargráðasjóðsstjórnin heimild til að gefa eftir vexti, lengja lánstíma, hliðra til fyrir þeim mönnum í bændastétt, sem við erfiðleika eiga að stríða, en ganga eftir því hjá hinum, sem fyllilega séu borgunarmenn fyrir því. Þetta er auðvitað svo eðlilegt sem verða má, og ég segi: Búnaðarþingi ber maklegt lof fyrir að taka svo eðlilega og skynsamlega á máli og þjóna ekki þeirri lítilsvirðandi ölmusu- og bónbjargapólitík, sem einstakir menn gerast til þess að vera málsvarar fyrir hér á Alþingi í nafni bændastéttarinnar.