05.03.1958
Sameinað þing: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í D-deild Alþingistíðinda. (2579)

64. mál, uppeldisskóla fyrir stúlkur

Gunnlangur Þórðarson:

Herra forseti. Mál það, er hér liggur fyrir, er vissulega þess virði, að því sé mikill gaumur gefinn. Það er hluti þeirra mála, er snerta meðferð afbrotamanna og ógæfumanna, hluti fangelsismála, og mun ég — með leyfi hæstv. forseta — víkja nánar að því máli hér, fangelsismálum almennt.

Tilraunin með Breiðavíkurheimilið er vissulega athyglisverð. En hins vegar er ómögulegt að fullyrða um árangurinn af þeirri starfsemi enn þá, þar sem eigi er hægt að slá neinu föstu í því efni, fyrr en umræddir unglingar hafa náð 25–30 ára aldri.

Árið 1943 var skipuð nefnd til athugunar á fangelsismálum. Sú nefnd skilaði áliti 1947. Á árinu 1956 átti ég ásamt tveimur öðrum sæti í nefnd til þess að rannsaka ástandið í fangahúsamálum hér á landi, sérstaklega vinnuhælið á Litla-Hrauni, og gera tillögur til úrbóta.

Nefnd þessi var skipuð 4. sept. 1956, en skilaði áliti tveim mánuðum síðar.

Skal hér vikið nokkrum orðum að þessari skýrslu. Þar segir svo um Litla-Hraun, og er þá vísað til skýrslu fyrri fangahúsanefndar:

„Stofnun vinnuhælis og starfræksla þess er háð örðugleikum. Húsið hafði verið reist með önnur afnot fyrir augum. Skipulag fangelsisins og gerð hefði öll getað orðið hagkvæmari, ef húsið hefði verið byggt frá grunni í því skyni. Starfslið stofnunarinnar mun yfirleitt vera of fámennt.“

Ástand fangahússins að Litla-Hrauni var orðið mjög slæmt, þegar nefndin kynnti sér það. Það hafði verið í niðurníðslu, og að vísu lágu fyrir tillögur til úrbóta, en dregizt hafði að koma þeim í verk, svo sem kunnugt er. Reyndar hefur viðgerð farið fram á húsinu, en nú er starfræksla fangelsisins verri, en áður var, því að nú hafa fangarnir ekki verkefni. Fæstir þeirra eru látnir vinna. Þeir eru yfirleitt lokaðir inni, og það segir sig sjálft, að slíkt ástand er ekki viðeigandi á stað, sem á að teljast vinnuhæli, enda mun hvers konar óhollusta liggja þar í lofti, t.d. mun það því miður ekki vera fátítt, að ungir fangar hafi kvartað undan miður geðfelldri áleitni eldri fanga við sig. Er það vissulega alvörumál út af fyrir sig.

Um hegningarhúsið á Skólavörðustíg, sem var byggt á árunum 1871–74, segir, að reglugerðir varðandi rekstur þess séu frá sama tíma og hafi ekki verið endurnýjaðar. Um fangahúsið sjálft er ýtarlega sagt í skýrslunni. Skal aðeins drepið á fátt eitt hér:

„Í hegningarhúsinu eru hafðir í einni bendu gæzlufangar, afplánunarfangar og menn, sem vera ættu í öryggishælum, „psykopatar“, ásamt unglingum, og verður það að teljast stórvítavert.“

Síðar segir: „Þó er iðjuleysið versti ljóðurinn á fangelsisvistinni.“

Ég skal ekki fara nánar út í þessa skýrslu hér um fangahúsin, en víkja nokkrum orðum að framkvæmd refsinga. Þar segir:

„Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, að framkvæmd refsinga almennt var mjög ábótavant, svo að ekki sé sterkara að orði kveðið. Nefndin varð þess strax vís, að það var almenn skoðun fanga, að vænlegasta aðferðin til þess að fá refsivist stytta með náðun væri að haga sér sem verst í fangelsinu. Auðvitað var nefndinni ljóst, að ekki var hægt að byggja á framburði fanganna um þetta atriði. Hins vegar er augljóst, hvaða áhrif það hafði á aga og reglu í fangelsum, ef rétt væri, að ekki væri tekið tillit til hegðunar fanga, meðan á afplánun stendur, þá er náðun væri veitt, hvað þá ef reynslan hefði verið sú, að fangar, sem sýndu illa hegðun og framferði í fangelsi, fengju frekar náðun en þeir fangar, er hegðuðu sér vel.“

Nefndin taldi því, að hér væri um veigamikið atriði að ræða varðandi rekstur fangahúsa og að nauðsynlegt væri að athuga þetta nánar.

Forstjóri vinnuhælisins á Litla-Hrauni hefur lýst því yfir við nefndina, að tæpast hafi það komið fyrir, að álits hans hafi verið leitað um hegðun fanga, áður en náðun hafi verið veitt, og ekki kannast fangaverðir þeir, sem þar hafa starfað, við, að þeir hafi verið spurðir um hegðun fanga undir slíkum kringumstæðum. Sömu sögu höfðu fangaverðir við hegningarhúsið í Reykjavík að segja.

Síðan segir:

„Við athugun á því, hvernig refsidómar hafi verið út teknir, kemur í ljós, að mjög sjaldan eru hinir dæmdu settir strax í fangelsi, eftir að dómur er upp kveðinn. Líða jafnvel ár, án þess að dómum sé fullnægt, og sumir eru margdæmdir til fangelsisvistar, án þess að dómum sé fullnægt. Þá er það alveg ótrúlega algengt, að dómsmálaráðuneytið fyrirskipi, að refsingu skuli frestað, er afplánun er hafin. Ætla mætti, að þetta gæti stafað af skorti á fangelsisrúmi, en við athugun kemur í ljós, að vinnuhælið á Litla-Hrauni hefur aldrei verið fullsetið á þeim tíma, sem nefndin hefur sérstaklega athugað“ — þ. e. frá 1. júní 1954 til 1. sept. 1956.

Síðar í skýrslunni segir enn:

„Spyrja mætti, hvers vegna sumir afbrotamanna geti framið brot á brot ofan án þess að þurfa að afplána dóma nema endrum og sinnum og jafnvel fáa daga á ári hverju, þótt fyrir liggi dómar um margra ára fangelsi, og enn fremur, hvers vegna ekki er gert neitt til þess að láta suma hinna dæmdu afplána refsingu.“

Hér skal ekki gerð nein tilraun til þess að skýra nánar þetta fyrirbrigði réttarfars á Íslandi á sjötta tug 20. aldar. Hitt skal skýrt fram tekið, að við svo búið má ekki standa, ef dómar íslenzkra dómstóla í sakamálum eiga að vera annað meira en juridiskar æfingar fyrir dómarana. Ekki á að veita mönnum órökstuddan frest á refsivist, sízt án vitundar dómarans, sem falið hefur verið það hlutverk að fullnægja dóminum. T.d. er mjög ógeðfellt fyrir dómara, sem hefur sett dæmdan mann í fangelsi um hádegi, að sjá hann að kvöldi setjast við hlið sér í bíó og brosa að dómaranum. En þetta hefur komið fyrir.

Haustið 1956 átti ég þess kost að heimsækja fangelsi í Noregi og Danmörku, og það var mjög athyglisvert að sjá, hvað Danir eru komnir langt í þessum málum. Þar og í Noregi eru þessi mál falin sérstakri nefnd, sem leggur á ráðin, bæði um reynslulausnir fanga og náðanir. Náðanir munu yfirleitt vera mjög fátíðar, en reynslulausnir notaðar talsver. Þar gafst mér t.d. tækifæri til að sitja fund með stjórn eins fangelsis, þar sem rætt var um hegðun nokkurra fanga og um, hvort gera skyldi till. um reynslulausnir þeirra o.fl.

Vissulega ætti okkur Íslendingum ekki að verða skotaskuld úr því að haga málum okkar þannig, að ungir afbrotamenn gætu orðið nýtir samborgarar, en að því vinna frændþjóðir okkar.

Þó að hér hafi verið drepið á fátt eitt, er ljóst, að mikilla og skjótra endurbóta er þörf í fangelsismálunum, bæði um húsakost og gæzlu. En fleira kemur þó til. Þegar dýpra er skyggnzt í þessi mál, má sjá, að sönnu nær er að segja, að tími sé til þess kominn að hefjast handa um framkvæmd landslaga um refsivist og fangameðferð. Þess mun ekki þörf að rekja hér fyrirmæli hinna almennu hegningarlaga um þetta efni, en eftir rúmlega hálfan annan áratug frá setningu hegningarlaganna vantar enn reglugerð um úttekt refsivistar, reglugerð vantar um vinnuskyldu fanga, enginn aðskilnaður eldri og yngri fanga þekkist né viðleitni til þess að efla andlegan og líkamlegan þroska hinna síðar nefndu með kennslu, líkamsæfingum og hentugri útivinnu svo og með því að kenna þeim atvinnugreinar, skv. 43. gr. hegningarlaganna. Enginn aðskilnaður þekkist millí varðhaldsfanga og annarra fanga, skv. 44. gr. Reglugerð vantar um viðurlög um brot fanga á reglum hegningarhúss, ekkert hæli er til fyrir öryggisgæzlufanga eða „psykopata“, sbr. 62. gr., né viðeigandi aðstaða til geymslu þeirra í fangelsum. Drykkjumannahæli, sem svari til 65. gr., er ekki til í landinu. Engin aðstaða er í fangelsum til lágmarksaðskilnaðar karla og kvenna. Dómarar geta ekki í sambandi við sakamálarannsóknir treyst einangrun gæzlufangelsa í aðalfangelsum.

Ég vil geta þess þó, að nýlega hafa verið settar reglur um hegðun fanga á Litla-Hrauni, sem hv. þm. geta aflað sér í dómsmrn., en þær reglur virðast mér bera þann keim, að þær væru fremur settar fyrir aldamót en eftir. Það er fróðlegt að gera samanburð á þeim reglum, sem eru í 12 greinum, og þeim reglum, sem danskir fangar fá afhentar í bók, sem er eins konar trúnaðarmál, um leið og þeir koma í fangelsi. Þar er gerð grein fyrir þeim skyldum og þeim réttindum, sem þeir hafa í fangelsunum. Í dönskum fangelsum er úttektartímanum skipt í þrjú stig, þ.e. móttökustigið, afplánunarstigið og lokastigið. Á lokastiginu hafa menn það frjálsast, og þá er undirbúið, að menn geti horfið aftur út í þjóðfélagið, og reynt að skapa þá aðstöðu, að þeir hafi þar að einhverju að hverfa. Enn fremur er fangavörðum fengin í hendur reglugerð um meðferð fanganna, en slík reglugerð er mér ekki kunnugt um að sé til hjá okkur.

Í áðurnefndri skýrslu nefndarinnar segir enn fremur:

„Til þess að fullnægja ákvæðum og tilgangi landslaga eru nauðsynlegar eftirtaldar fangelsisdeildir: 1) Geymsla handtekinna manna, 2) gæzluvarðhald, 3) varðhald og 4) fangelsi. Undir þann lið koma vinnuhæli, kvennafangelsi. „psykopata“-deild og unglingafangelsi.“

Ég vil víkja hér nánar að þessu tvennu síðasttalda. Stórvandræði hafa, á undanförnum árum verið með geðveila sakamenn, „psykonata“, enda er ekkert hæli til við þeirra hæfi. Þessir menn eiga hvorki heima í einangrunarfangelsi, vinnuhæli né geðveikrahæli. Fyrir þá þarf sérstaka stofnun, og færi vel á því, að hún yrði eins konar deild frá Kleppi, þar sem þeir yrðu eðli málsins samkvæmt ef til vill að dveljast ævilangt.

Eitt aðalskilyrði þess, að jákvæðs árangurs megi vænta af fangelsisvist, er það, að fangarnir séu nægilega aðgreindir. Er ekki nóg að skipta þeim í vinnuhæli og einangrunarfangelsi, heldur verður einnig að aðgreina þá eftir aldri samkvæmt tilætlun hegningarlaganna. Þarf því að vera til unglingafangelsi alveg aðgreint frá hinum fangelsisstofnununum, helzt sem eins konar uppeldisheimili, svo sem tíðkast á Norðurlöndum, eins og lagt er til að stofna með tillögu þessari. Má ætla, að þetta sé eitt höfuðatriði allra þessara mála. Slík stofnun mundi án efa fá tækifæri til þess að forða mörgum unglingum frá óreglu og glæpaferli og gera að nýtum þegnum. Unglingar frá 15–22 ára aldurs eiga ekki samleið með yngri drengjum og yfirleitt ekki heldur með vinnuhælisföngum, sem margir hverjir eru margdæmdir og siðspilltir og líklegir til þess að hafa ill áhrif á unga menn.

Enn skal vitnað til margnefndrar skýrslu, en þar segir:

„Reynsla síðasta áratugs virðist hafa staðfest rækilega álit hinnar fyrri fangelsismálanefndar, sem segir svo: Yfirstjórn fangelsismála er í höndum dómsmálaráðuneytisins, og telur nefndin, að svo eigi að sjálfsögðu að vera framvegis.“ Síðar: „Störfum embættismanna ráðuneytisins er svo háttað, að þeim er varla ætlandi að hafa persónulegt og raunhæft eftirlit með starfrækslu fangelsa víðs vegar um land, og verða þeir því yfirleitt í þessu efni að sjá allt með annarra augum. Eigi er að efa, að embættismenn þeir, er umsjón fangelsa hafa á hendi undir yfirstjórn ráðuneytisins, ræki þessi störf sín sem önnur af kostgæfni og samvizkusemi. En þeir eru hlaðnir öðrum störfum og eigi sérfróðir um þessi mál. Hér er hins vegar um að ræða starfrækslu, sem kostar ríkið og bæjarfélög mikið fé, og hinar vandasömustu framkvæmdir ríkisvaldsins, er krefjast hinnar fullkomnustu sérþekkingar. Nefndin vill því mæla með því, að hæfum og sérfróðum manni verði falið að hafa undir yfirstjórn dómsmrn. umsjón með öllum fangelsum og hegningarhúsum landsins, starfrækslu þeirra, meðferð fanga og framkvæmd refsinga að öðru leyti. Þessum embættismanni ætti og að fela að gera tillögur um reynslulausn og náðun sakamanna, enn fremur að hafa eftirlit og jafnvel forustu starfsemi til aðstoðar sakamönnum. Nefndin telur nauðsynlegt, að skipuð verði föst fangelsismálanefnd undir yfirstjórn dómsmrn. Hafi hún m.a. umsjón með byggingu fangelsa, rekstri þeirra, fangameðferð og framkvæmd refsinga að öðru leyti, tillögurétt um allar reynslulausnir og náðanir sakamanna og eftirlit með fangahjálp, sem kostuð er af ríkisfé.“

Því miður er ástandið í fangelsismálum okkar í dag enn þannig, að litlar bætur hafa orðið, frá því að þessu nál. var skilað til dómsmrn. Að vísu er, eins og fyrr segir, búið að laga fangahúsið að Litla-Hrauni, en allt stendur að öðru leyti við hið sama.

Ég harma, að hæstv. dómsmrh. skuli eigi vera hér staddur. En ég vil beina því til hæstv. ríkisstj., um leið og ég mæli með þeirri till., sem hér liggur fyrir, að ríkisstj. taki þessi mál föstum tökum, því að það ástand, sem hér ríkir í þessum málum, er landi og þjóð til minnkunar, og það er þjóðfélagsleg skylda okkar að sjá til þess, að ungir menn, sem lent hafa út á ógæfubraut, komist aftur á rétta slóð í þjóðfélaginu. Málum þessum virðist því miður þannig hagað nú, t.d. um framkvæmd refsinga, að það sé aðalatriðið, að þeir taki út refsingu, en ekki tekið tillit til þess, hvort þeir komi betri eða verri menn út úr fangelsinu að afplánun lokinni.