30.05.1958
Sameinað þing: 48. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í D-deild Alþingistíðinda. (2608)

91. mál, sjálfvirk símastöð fyrir Ísafjörð

Frsm. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er sama að segja um þessa till. og um þá till., sem verið var að afgr., að fjvn. hefur spurzt fyrir um það hjá póst- og símamálastjórninni, hvað fyrirhugað sé um framkvæmdir í þessu efni, og hefur n. borizt grg., þar sem frá því er skýrt, að kostnaðaráætlun hafi verið gerð um framkvæmdir þær, sem þáltill. fjallar um, þ.e.a.s. sjálfvirka símstöð fyrir Ísafjörð og nærlggjandi kauptún, og er samkvæmt framkvæmdaáætlun þessari gert ráð fyrir, að sjálfvirk símstöð verði sett upp á Ísafirði árið 1963 og síðar verði kauptúnin þar á eftir við hana tengd.

Fjvn, er sammála um nauðsyn þess, að símstöð þessari verði komið upp svo fljótt sem verða má, því að það liggur fyrir eftir áætlun póst- og símamálastjóra, að þessi símstöð muni spara landssímanum allverulega í rekstrarkostnaði. Hins vegar telur n. ekki fært, að Alþingi fari beinlínis að hagga þeirri áætlun um röð framkvæmda, sem hér er gert ráð fyrir, svo sem átti sér einnig stað varðandi sjálfvirku símstöðina í Vestmannaeyjum, og því leggur n. til, að till. þessi verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem þegar hefur verið gerð kostnaðaráætlun um sjálfvirka símstöð fyrir Ísafjörð og kauptúnin við Ísafjarðardjúp, sem tiltækilegt þykir að tengja við þá stöð, og í trausti þess, að umræddri stöð verði komið upp eigi síðar en gert er ráð fyrir í áætlun póst- og símamálastjórnarinnar, tekur Alþingi fyrir næsta mál á dagskrá.“