13.11.1957
Sameinað þing: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í D-deild Alþingistíðinda. (2614)

33. mál, afnám áfengisveitinga á kostnað ríkis

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. Borgf. (PO), hv. þm. Barð. (SE) og ég flytjum á þskj. 44 till. þess efnis, að áfengi verði framvegis ekki veitt á kostnað ríkis eða ríkisstofnana. Sams konar till. hafa áður komið fram á Alþingi, og er nánar sagt frá því í grg. á þskj. 44.

Eins og flm. fyrri tillagna leggjum við þremenningar höfuðáherzluna á gildi fordæmisins í þessu máli. Ef æðstu embættismenn þjóðarinnar hætta að veita áfengi í samkvæmum, er nærri víst, að aðrir taka sér þá til fyrirmyndar í því efni. Með þeim hætti getur ákvörðun um afnám áfengisveitinga á kostnað ríkisins orðið til þess að fága og bæta skemmtanalíf landsmanna, og mun flestum finnast þess full þörf.

Þess er vert að minnast í sambandi við efni þessarar till., að áfengisneyzla leiðir til drykkjuskapar og hann er eitt af erfiðustu vandamálum þjóðfélagsins. Í okkar litla þjóðfélagi eru að staðaldri tvær til þrjár þúsundir manna, sem neyta áfengis sér til óbóta, heilsufarslega og efnalega, Þeir þjást andlega og líkamlega, og það eru fleiri, sem líða fyrir drykkjuskap þeirra, en þeir sjálfir. Börnin þeirra, eiginkonur og foreldrar þjást líka. Þau fara á mis við lífshamingju og bíða jafnvel tjón á heilsu sinni vegna alræðis Bakkusar á þessum heimilum.

Hlutskipti drykkjumannsins sjálfs er aumt, en sárara er þó hlutskipti skjólstæðinga hans. Þessa er rétt að minnast, þegar till. um afnám áfengisveitinga í samkvæmum ríkisins er athuguð og rædd, og þá einnig þess, að þetta ógæfusama fólk skiptir þúsundum í landi okkar.

Þá má heldur ekki gleyma því, að sá mikli bölvaldur, Bakkus, einskorðar sig engan veginn við heimili drykkjumannanna. Ekkert heimili í landinu er með öllu óhult fyrir honum. Kvöld eitt er allsgáður maður á leið heim til sín, er hann mætir nokkrum drukknum unglingum. Þeir slá hann í rot með þeim afleiðingum, að varanleg örorka hlýzt af. Heima biðu hans eiginkonan og þrjú börn, Í annað skipti er það heimilisfaðir, sem í trausti þess, að ekkert komi fyrir, ekur bíl sínum heim undir áhrifum áfengis. Hann er að koma úr samkvæmi, og á leiðinni verður hann valdur að dauðaslysi. Í einni svipan hefur ógæfan dunið yfir tvær fjölskyldur. Það er ekki alltaf nægilega hugleitt, að svokallaðir hófdrykkjumenn fremja í ölvímu á óteljandi vegu verknaði, sem verða þeim og öðrum til óláns og ófarnaðar.

Ef einstaklingarnir líða nauð fyrir áfengið, þá gerir þjóðfélagsheildin það líka. Hún á í þrotlausri baráttu við illar afleiðingar áfengisneyzlunnar. Meiri hluti allra afbrota er framinn í ölæði. Fangelsin eru full af mönnum, sem ekki væru þar nema fyrir atbeina Bakkusar. Talsverður hluti umferðarslysa verður í sambandi við áfengisneyzlu. Vanræksla í starfi, mistök og yfirtroðslur eru hvarvetna fylgifiskar hennar, og það tjón, sem hún veldur efnahag þegnanna, lífi og limum, verður aldrei metið til fjár.

Drykkjuskapur í hvers konar mynd er því í sannleika alvarleg meinsemd í þjóðfélaginu. Ég hef nú farið nokkrum orðum um þetta vandamál, þótt ég raunar telji það óþarft hér, því að öllum hv. alþm. mun þýðing þess ljós. Neyzla áfengis er gamall og grómtekinn blettur á menningunni, svo gamall, að mörgum finnst ósjálfrátt hann eiga þar heima. Aldagamlar, hefðbundnar siðvenjur hafa sterk ítök í sálarlífi manna, og það þarf mikið til að uppræta þær. Þegar þar við bætist það ofurvald nautnarinnar, sem neytendur áfengis eru háðir, þá er sízt að undra, þótt seint sækist að afmá þennan blett á allri siðmenningu. Í þeim átökum mega skynsemi og reynsla sín lítils enn sem komið er, en tilfinningar þeim mun meira.

Áfengisdrykkja er ávani, og drykkjuhneigð verður til fyrir þann ávana. Ein kynslóðin apar drykkjuskap eftir annarri, og einn einstaklingur stælir annan í þessu efni. Ungt fólk temur sér drykkju, af því að það er í tízku. Það semur sig í þessu að háttum sér eldri, reyndari og við skulum segja meiri manna. Ef takast mætti að rjúfa keðju siðvenjunnar og heil kynslóð manna gæti losað sig úr viðjum drykkjuvanans, þá ættu arftakar hennar auðunninn leik í taflinu við Bakkus. En aldagamlar venjur verða sjaldnast upprættar með skjótum hætti, heldur gerist það allajafna smám saman og fet fyrir fet.

Skemmtanir hér á landi eru langt frá að vera með þeim brag, sem vera skyldi, og er það drykkjuskapur, sem setur um of svipmót sitt á þær. Það má heita svo, að það þyki orðið sjálfsagður hlutur, að áfengi renni í stríðum straumum hvar og hvenær sem menn koma saman sér til ánægju. Hark og róstur einstakra ölæðinga er ekki það alvarlegasta í þessu efni, heldur hitt, hversu geysialmenn áfengisneyzla er á mannamótum. Þar drekka ungir sem gamlir og konur sem karlar, líkt og væri það eitt hið sjálfsagðasta í heiminum að þamba áfenga drykki. Og ekki nóg með það, heldur eru þeir fáu, sem ekki drekka, litnir hornauga og naumast taldir samkvæmishæfir. Sá þykir vart maður með mönnum, ef hann drekkur ekki áfengi, og mun sá harði dómur drykkjutízkunnar reynast flestum ofraun og þó einkum ungu fólki, sem ávallt er næmt fyrir tízkuáhrifum.

Þessi almenna áfengisneyzla á skemmtisamkomum er hættuleg, og hún hittir ungu kynslóðina harðast. Þessi ósiður veldur því, að drykkjuskapur í landinu verður meiri og almennari en ella væri og ofdrykkja eykst. Það er gildandi lögmál, að því almennar sem áfengis er neytt í einhverju landi, því fleiri verða þar ofdrykkjumenn.

Nú sem stendur bjargast þeir ungu menn helzt, sem lítt sækja samkomur, en hinir sogast meira eða minna út í drykkjuskap.

Allir munu sammála um, að sú tízka hlýtur að vera skaðleg, sem þvingar menn til drykkju. Þá er hlutunum snúið öfugt, þegar þeir einir þykja samkvæmishæfir, sem með vínanda sljóvga sjálfsvitund sína og dómgreind. Sannleikurinn er þó sá, að þeir, sem eru í vímu áfengis eða annarra nautnalyfja, eru miður sín og ættu þá sízt að sýna sig á mannamótum. En drykkjutízkan leyfir þetta, og hún virðist nú ríkja í öllu þjóðfélaginu, jafnt hjá æðri sem lægri. Mannfagnaður án áfengis er orðinn í flestum hugum einhvers konar þversögn eða léleg fyndni.

Það færi mjög vel á því, að hið háa Alþingi og hæstv. ríkisstj. tækju nú þetta vandamál til röggsamlegrar meðferðar. Með því á ég ekki við það, að hér sé þörf margbrotinnar löggjafar, heldur hitt, að þessar æðstu stofnanir gefi nú þjóðinni allri það fordæmi, sem málefninu mun bezt duga, en það er að afnema hjá sér áfengisveitingar í samkvæmum.

Fyrir hér um bil tveim árum flutti ég till. í bæjarstjórn Reykjavíkur á þá leið, að hætt skyldi áfengisveitingum á kostnað bæjarins og stofnana hans. Till. var vísað frá með þeim rökum, að Reykjavíkurbær gæti ekki farið inn á þessa braut, á meðan Alþingi og ríkisstj. gerðu það ekki. Fordæmi vantaði frá þessum háu aðilum. Fáist það, munu margir koma á eftir.

Ég trúi því ekki, að nokkur sé andvígur þessari till., sem hér liggur fyrir, af þeirri ástæðu einni, að hann telji sig færa of mikla persónulega fórn með því að samþ. hana. Að trúa slíku væri móðgun við hv. alþm., enda er ekki verið að fara fram á það við neinn, að hann gerist bindindismaður.

Ein rök og þau raunar furðuleg hef ég heyrt færð gegn efni till. Þau voru óljóst orðuð, en hnigu í þá átt, að það mundi skaða stjórnmálaleg og diplómatísk sambönd Íslands við umheiminn, ef við hættum að veita brennivín í veizlum hins opinbera. Í þessari röksemdafærslu birtist tvennt og hvorugt gott. Annars vegar er oftrú á mátt áfengis, en hins vegar vantraust á eigin getu og hvort tveggja í sjúklega ríkum mæli. Ef einhver skyldi taka þessi rök alvarlega, vildi ég jafnalvarlega ráða honum til að leita sálfræðings í því skyni að fá útrýmt úr huga sér bæði oftraustinu og vantraustinu.

Meðal flestra menningarþjóða verður nú vart vísis til þeirrar viðleitni, sem í till. okkar þremenninganna felst. Augu manna eru að opnast. Mikilhæfir stjórnmálamenn ýmissa landa berjast gegn áfengisbölinu með því að gefa öðrum fagurt fordæmi. Ég get ekki stillt mig um að nefna einn þessara manna, en það er Norðmaðurinn Einar Gerhardsen. Í júní s.l. birtist í Morgunblaðinu viðtal við hann um áfengismál, en viðtalið var þýtt úr norsku blaði. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa lítinn póst úr viðtalinu, af því að það snertir sumt af því, sem ég þegar hef gert að umtalsefni. Segir þar svo m.a.: „Hver áhrif álítið þér, að það hafi á skapgerðarþroska æskunnar, ef hún neitar að fylgja almennum venjum samkvæmislífsins, t.d. í sambandi við neyzlu áfengis?“ Gerhardsen svarar: „Ég er sannfærður um, að þeir unglingar, sem hafa hugrekki til að neita áfenginu, eru unglingar, sem njóta virðingar hjá sjálfum sér og öðrum. Ég álít, að persónulegt fordæmi hafi mikið að segja í þessu efni,“ sagði ráðh. Þá spurði blaðamaðurinn, hvort það hefði ekki verið erfitt fyrir forsrh, að vera bindindismaður í veizlum og móttökuathöfnum innan lands og utan, „Nei, það hefur ekki verið erfitt. Á æskuárum mínum kom það fyrir, að reynt var að fá mig til að drekka áfengi, en ég var aldrei eins öruggur og þá. Ef einhver ætlaði að þvinga mig, hafði það alltaf öfug áhrif. Á síðustu árum hefur gerzt ánægjuleg þróun í veizlu- og samkvæmislífinu. Nú er alltaf hægt að fá óáfenga ávaxtadrykki á veitingastöðum. Áður var slíkt oftast erfiðleikum bundið. Þá er það augljóst, að strangar reglur um áfengisneyzlu við akstur hafa dregið úr áfengisnautn. Margir þátttakendur í veizlum og samkvæmum biðja um óáfenga drykki, sumir vegna þess, að þeir aka bifreið, en aðrir af því, að þeir eru bindindismenn. Á þennan hátt er hægt að draga úr valdi drykkjusiðanna.“

Þetta var kafli úr viðtali við Einar Gerhardsen og sýnir hans hug til þeirrar viðleitni að draga úr valdi drykkjutízkunnar.

Nokkrir þjóðhöfðingjar og forsætisráðherrar allmargra landa hafa þegar afnumið áfengisveitingar í veizlum sínum og gert það vegna fordæmisins. Hafa þeir að sögn undirritað sameiginlega yfirlýsingu svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Ég viðurkenni þau víðtæku skaðræðisáhrif, sem áfengisveitingar í samkvæmum stjórnarvalda hafa á almenning og sérstaklega æskuna, og lýsi hér með yfir því áformi mínu, að áfengi skuli ekki veitt í þeim opinberum veizlum, sem ég ber ábyrgð á.“ Meðal þeirra, sem þetta undirrita, eru konungur Svía, keisari Japans, forseti og forsrh. Indlands og forsrh. Hollands,

Gjarnan mættum við Íslendingar fylgjast með í þessu menningarmáli, og ekki sakaði, þótt við gengjum feti frama,r en aðrar þjóðir. Það er ekki á svo mörgum sviðum, sem við skörum fram úr, að við ekki þess vegna getum bætt þessu við.

Að lokum vil ég mega vænta þess, að hæstv. ríkisstj. taki þessari till. vel og stuðli fyrir sitt leyti að samþykkt hennar. Fyrir það mundi þjóðin áreiðanlega kunna henni þökk.

Ég lýk máli mínu nú með sömu hvatningarorðum til hæstv. ríkisstj. og blaðið Tíminn beindi til hennar 23. júní í sumar, en þau eru á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisstjórnin tók upp góðan sið á þjóðhátíðardaginn, þegar hún ákvað að hafa ekki vinveitingar í gestaboði því, sem venja er að efna til á þessum degi.“ — Það var 17. júní. — „Þessi ákvörðun hefur mælzt vel fyrir og það engan veginn meðal bindindismanna einna. Þess ber að vænta, að þessari nýju reglu verði ekki aðeins fylgt eftirleiðis 17. júní, heldur verði hún yfirleitt tekin upp í þeim boðum, sem opinberir aðilar halda. Forseti Íslands og ríkisstjórn hafa hér tækifæri til að ganga á undan með góðu fordæmi. Það mundi áreiðanlega mjög stuðla að heilbrigðari drykkjusiðum, ef þessir aðilar legðu vínveitingar alveg á hilluna. Tryggvi Þórhallsson gerði þetta, þegar hann var forsrh., og munu þó ekki önnur samkvæmi hafa farið betur fram en þau, sem hann stóð fyrir, t.d. á Þingvöllum 1930. Það, sem þjóðin væntir af forustumönnum sínum, er ekki sízt forganga um nýja og betri siði. Rétt spor var stigið í þessa átt af hálfu ríkisstj. 17. júní. Nú er það hennar og forseta Íslands að fylgja þessu máli enn betur fram og fara helzt alveg að dæmi Tryggva Þórhallssonar.“

Herra forseti. Ég legg svo til, að þessari umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.